Að hafa kíkinn fyrir blinda auganu

Nýlega hittust leiðtogar Bandaríkjanna og Ísraels í Washington. Miðað við útkomu þess fundar horfir ekki vel með friðarferlið í Palstínu og Ísrael. Svo virðist sem Bush forseti hafi kokgleypt málflutning ísraelskra ráðamanna, sem er mun harðari og beinskeyttari í garð Palestínumanna en hann var fyrir nokkrum mánuðum. Ekki var annað að skilja á ræðu Ariels Sharon á blaðamannafundi en að hann hefði yfirgefið vegvísinn svokallaða sem Bandaríkjamenn settu fram sem leið til friðar.

Sharon lýsti því yfir að að eina leiðin til þess að ná árangri í hinu pólitíska ferli á milli Ísraels og Palestínu væri með því að uppræta hryðjuverkasamtök og koma á fullum umbótum innan palestínsks stjórnkerfis. Eingöngu eftir að þessum markmiðum væri náð væri hægt að halda áfram hinu pólitíska ferli. Ljóst er að hér er um stórt skref aftur á bak að ræða miðað við þær áætlanir sem vegvísir um frið gerði ráð fyrir.

Ljóst er að vopnaðir hópar Palestínumanna munu ekki leggja baráttuna fyrir sjálfstæði sínu af og afhenda vopn sín gegn ótryggu loforði Sharon um að þá verði hægt að halda áfram hinu pólitíska ferli. Og krafa hans um að Abbas forsætisráðherra Palesínu komi á fullum umbótum innan stjórnkerfis síns á ekki við rök að styðjast. Abbas á þegar undir högg að sækja gagnvart ýmsum öflum í Palestínu og hefur verið sakaður um þýlyndi við ísraelsk stjórnvöld. Helsta orsök þeirra ásakana er sú staðreynd að Ísraelsmenn hafa ekki á neinn hátt komið til móts við Palestínumenn og ekki staðið við loforð þau sem gefin voru um friðaráætlanir.

Sharon veit fullvel að kröfum hans er ekki hægt að mæta. Á sama tíma og hann krefst fullrar undirgefni Palestínumanna keyra ísraelsk stjórnvöld sína stefnu áfram af fullri hörku. Ekkert lát er á vinnu við hernámsgirðinguna sem loka mun Vesturbakkann af og hefur valdið miklu umróti, ekki eingöngu hjá Palestínumönnum heldur einnig alþjóðasamfélaginu. Girðing sú, sem Ísraelsmenn kalla öryggisgirðingu, tekur stór landsvæði frá Palestínumönnum þannig að ísraelsk stjórnvöld standa á engan hátt við loforð sín um óbreytt landsvæði Palestínumanna. Ekkert gengur heldur í því að afnema ólöglegar landnemabyggðir, um leið og ein er lögð af spretta nokkrar upp án afskipta ísraelskra stjórnvalda.

Það er því ljóst að Ísraelsmenn hafa engan hug á að fylgja vegvísi Bush Bandaríkjaforseta til friðar, sem þeir þó höfðu skuldbundið sig til að gera. Það ætti ekki að koma á óvart að Ísraelsmenn svíki loforð sín um aðgerðir í þágu friðar, það hafa þeir margsinnis áður gert og m.a. hundsað samþykktir SÞ í þá veru. Það vekur hins vegar vonbrigði að George W. Bush virðist ætla að styðja þá í þetta sinnið. Í ræðu hans eftir leiðtogafundinn með Sharon klifaði Bush enn og aftur á sinni gömlu og þreyttu klisju um stríðið gegn hryðjuverkum. “Enginn friður verður á meðan hryðjuverk líðast … Tilkoma friðsamlegs palestínsks ríkis og langtímaöryggi Ísraela ráðast af því að hryðjuverkaógnin verði upprætt.” Svo mörg voru þau orð.

Enn og aftur hefur Bush Bandaríkjaforseti sett ákvörðunina um friðarferlið í hendur örfárra hryðjuverkahópa sem með aðgerðum sínum geta hleypt öllu í bál og brand. Með því að einblína algjörlega á þá ógn sem steðjar að Ísraelum og hundsa fullkomlega aðgerðir Ísraelsmanna gegn Palestínumönnum, brot þeirra á fyrri samþykktum og ógnina sem Palestínumönnum stafar af einum fullkomnustu herja heims, hefur Bush forseti sýnt það og sannað að hann er á engan hátt fullfær um að skilja margbrotna hluti. Hann þarf sinn einfalda auðskiljanlega óvin, ef ekki bin Laden eða Hussein þá vopnaða hryðjuverkahópa. Á meðan geldur palestínska þjóðin fyrir einfeldni valdamesta manns heims.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.