Ísraelsstjórn og BBC

Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, er væntanlegur í heimsókn til London í næstu viku. Þar mun hann meðal annarra erindagjörða eiga fundi með blaðamönnum, líkt og tíðkast í heimsóknum af þessu tagi. Athygli vekur hins vegar að ísraelsk stjórnvöld hafa gefið út þá yfirlýsingu að þau vilji ekki að fulltrúar tiltekinnar fréttastofu verði viðstaddir blaðamannfundinn vegna þess að sú fréttastofa dragi upp ranga mynd af Ísrael. Fréttastofan sem um ræðir er BBC og er vanalega talin ein vandaðasta fréttastofa í heimi.

Ísraelar hafi lengi haft horn í síðu BBC. Stofnunin er búin fullkomnum tækjum og sendibúnaði og útsendingar hennar nást vel í Ísrael, útvarpssendingarnar mun betur en flestra annarra stöðva og til skamms tíma var hægt að ná sjónvarpssendingunum í ísraelsku kapalsjónvarpi. Ísraelsmenn tóku fyrir þær sendingar í Íraksstríðinu, að sögn vegna mikil kostnaðar. Reyndin er hins vegar sú að Ísraelsmönnum hefur lengi mislíkað fréttaflutningur BBC af málefnum landsins, ekki síst samanburður við önnur lönd í Mið-Ausurlöndum, t.a.m. Írak.

Það var einmitt við slíkan samanburð sem upp úr sauð hjá ísraelskum stjórnvöldum. Nýlega sýndi BBC fréttaskýringaþátt undir heitinu “Leynivopn Ísraels”. Þar var farið yfir kjarnorku- og efnavopnaeign landsins og ekkert dregið undan. Það sem gerði hins vegar útslagið við ísraelska ráðamenn var auglýsing fyrir þáttinn, sk. "trailer", en þar mátti sjá kjarnakljúf og líftæknistofnun í Ísrael og þulur spurði: “Hvaða land í Mið-Austurlöndum hefur ekki gert grein fyrir kjarnorku- og efnavopnum í eigu sinni.”

Staðreyndin er nefnilega sú að Ísraelar hafa aldrei gert grein fyrir vopnabirgðum sínum. Það land býr yfir gereyðingarvopnum en hefur ekki þurft að lúta sömu lögmálum og t.a.m. Írak, þrátt fyrir að gereyðingavopn hafi ekki enn fundist í því landi. Um Ísraela virðast hins vegar gilda sérlög í alþjóðasamfélaginu og var það meðal þess sem dregið var fram í umræddum þætti BBC. Ísraelar hafa varið leyndarmál um vopnaeign sína með kjafti og klóm, þvert á alla alþjóðlega samninga, og komist upp með það. Er skemmst að minnast þess þegar ísraelska leyniþjónustan rændi Mordechai Vanunu, fyrrum tæknimanni við kjarnakljúfinn í Dimona, á Ítalíu. Hann hafði sagt frá því við bresk blöð að Ísraelar hefðu yfir kjarnorkuvopnum að ráða. Vanunu hefur nú setið í fangelsi í Ísrael í hátt á annan áratug.

Samhliða því að meina BBC að mæta á blaðamannafund ísraelska forsætisráðherrann hafa ísraelsk yfirvöld gefið það út að opinberir embættismenn muni ekki ræða við fréttamenn BBC. Þá muni fréttamennirnir eiga í vandræðum með að verða sér úti um viðeigandi blaðamannaskírteini og atvinnuleyfi í Ísrael. Það er því ljóst að ísraelsk stjórnvöld ætla sér að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að hindra BBC við fréttaöflun í landinu.

Enn einu sinni hefur Ísraelsstjórn sýnt fram á gerræðislegt eðli sitt. Stjórnin virðir ekki alþjóðalög og samninga, útilokar þá sem henni mislíkar við og fer sínu fram hvað sem hver tautar og raular. Það er löngu kominn tími til að alþjóðasamfélagið viðurkenni þá staðreynd að framferði ísraelskra stjórnvalda er ógnun við frið og öryggi í heiminum. Bandaríkjamenn, Bretar og aðrir taglhnýtingar þeirra, t.a.m. Íslendingar, verða því að láta af þeim tvískinnungi að eitt gildi fyrir Ísrael og annað fyrir nágrannalönd þess.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.