Sement til sölu – kostar eina tölu

Það var sérkennilegt að fylgjast með iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Valgerði Sverrisdóttur, sitja fyrir svörum í Kastljósþætti gærkvöldsins. Ráðherrann var að verja nýumsamda sölu ríkisins á Sementsverksmiðjunni á Akranesi og var ekki á ummælum hennar að sjá að þar væri um vel ígrundaðan gjörning að ræða. Nú getur meira en vel verið að þetta hafi verið stórkostlegur samningur og hagsmunir eigenda, íslensku þjóðarinnar, hafi verið tryggðir í hvívetna. Það verður hins vegar að segjast eins og er að einhvern veginn bjóst maður við hærri upphæðum fyrir verksmiðjuna en sem nemur tveimur einbýlishúsum á Arnarnesi. Þegar á móti kemur að ríkið yfirtekur lífeyrisskuldbindingar starfsmanna er farið að verða nokkuð óljóst hver hagnaður af sölunni er.

Í gærkvöldi fékk Valgerður, sem ber höfuðábyrgð á sölunni, síðan tækifæri til að skýra það út fyrir landslýð að hér væri um heillaspor að ræða. Erfitt er að segja að hún hafi nýtt sér það vel. Ráðherrann gat ekki svarað spurningum um það hvert raunverðmæti þeirra eigna væri sem seldar voru fyrir 68 milljónir, ekki gat hún svarað því hvort hagkvæmara hefði verið að endurfjármagna verksmiðjuna og reka hana áfram í eigu ríkisins – henni fannst það hins vegar ekki í takt við tímann – ekki gat hún svarað því hvort hagkvæmara hefði verið að leggja verksmiðjuna niður og reisa íbúðabyggða á landi hennar og það sem er kannski mikilvægast – ekki gat hún svarað því til hvort samningurinn tryggði áframhaldandi rekstur verksmiðjunnar. Ráðherrann gat einungis vonað að svo væri.

Það vekur nokkra athygli að svo gáleysislega sé farið með eignir þjóðarinnar. Það hlýtur að vera skýlaus krafa eigenda að þeir sem sýsla með eignir í umboði okkar leitist við að hámarka þann ávinning sem af þeim fæst. Þar getur ýmist verið um hreinan peningalegan arð, eða samfélagslegan ávinning sem rekstur stórs fyrirtækis hefur í för með sér. Það er lágmarkskrafa að ráðherra sá sem er yfirmaður iðnaðarmála á Íslandi viti nokk út á hvað samningur um sölu Sementsverskmiðjunnar gengur, daginn eftir að frá honum er gengið.

Það er hins vegar allt á eina bókina lært hjá ríkisstjórn Íslands. Boðorðið þar er að koma verðmætum úr sameiginlegri eigu landsmanna í hendur fárra. Virðist þá litlu skipta fyrir hvað þau verðmæti fæst, í það minnsta er ekki ljóst hvort hagnaður af sölu Sementsverksmiðjunnar er nokkur. Sumir telja jafnvel að ríkisstjórnin hafi greitt með verksmiðjunni. Og sí og æ dúkkar hún upp þessi barnalega trú ráðamanna á nýja rekstraraðila, að þeir hafi nú samfélagslega hagsmuni að leiðarljósi við rekstur fyrirtækja sinna, en ekki hreina gróðavon. Alltaf koma lokanir útibúa nýseldra ríkisfyrirtækja, niðurskurður í rekstri og hagræðingaraðgerðir með tilheyrandi uppsögnum starfsfólks íslenskum stjórnvöldum jafn mikið á óvart. Það er kannski ekki að undra ef áætlanir stjórnvalda standa ekki á fastari fótum en vonarglætu um áframhaldandi rekstur. Engar tryggingar, aðeins væntingar.

Þó er ekki loku fyrir það skotið að ráðherra iðnaðarmála þekki málið betur en fram kom í umræddum sjónvarpsþætti. Stjórnunarstíll ráðamanna okkar nú um mundir byggist á því sem heitir í erlendum njósnasögum “need-to-know-basis”. Þannig er þjóðin ekki upplýst um neinar aðgerðir, áætlanir eða samninga sem ríkisstjórnin gerir nema ítrasta nauðsyn krefji.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.