Leynimakk íslenskra ráðamanna

Fá mál hefur borið meira á góma að undanförnu en þau er snerta veru bandarísks herliðs hér á landi. Eftir að Bandaríkjamenn upplýstu um þá ósk sína að hverfa á brott með herlið sitt frá Miðnesheiði, hefur verið hálfsorglegt að fylgjast með íslenskum stjórnvöldum grátbiðja "verndarann" um vernd. Enn er þó óljóst gegn hverju sú vernd er og virðist fátt um fína drætti þegar kemur að aðilum sem Íslendingum stafar ógn af.

Þrátt fyrir oft og tíðum grátbroslegar tilraunir fylgismanna við að sannfæra landslýð um nauðsyn áframhaldandi veru hers, sem ekki vill vera hér, – er málið grafalvarlegt. Ekki síst þær fregnir sem nýlega bárust að íslenskum stjórnvöldum hefði verið kunnugt um vilja Bandaríkjamanna fyrir nokkrum mánuðum síðan. Það vekur óneitanlega athygli að ráðamenn þjóðarinnar skuli hafa kosið að halda þessum upplýsingum leyndum fyrir kjósendum rétt á meðan þeir fólust eftir atkvæði þeirra í kosningunum.

Málefni herliðsins á Miðnesheiði bar þráfaldlega á góma í kosningabaráttunni. Utanríkisráðherra, Halldór Ásgrímsson, lýsti því m.a.s. yfir að fyrsta verkefni nýs utanríkisráðherra yrði að ganga frá nýrri bókun við hinn svokallaða varnarsamning. Nú virðist sem svo að þegar ráðherrann lét þessi ummæli út úr sér hafi honum verið fullkunnugt um vilja Bandaríkjamanna til að hverfa héðan á brott með herlið sitt.

Atvinnuleysi á Suðurnesjum var eitt af stóru málunum í hinu nýja Suðurkjördæmi. Þar voru þeir sem lýstu þeirri skoðun sinni að réttast væri að herinn hyrfi á brott, oftar en ekki sakaðir um að vilja auka á það atvinnuleysi. Fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna voru þar fremstir í flokki – sömu ríkisstjórnar og var fullkunnugt um vilja Bandaríkjamanna til að hverfa héðan á brott. Það hlýtur að teljast áfellisdómur yfir stjórnmálamönnum þegar þeir leyna kjósendur sína upplýsingum sem gæti komið þeim illa. Manni segir svo hugur um að í þróaðra lýðræðisríki en Íslandi hefði slíkur gjörningur alvarlegar afleiðingar í för með sér.

Það er hins vegar fyrir mestu að menn hætti þessum barnaskap og leynimakki og upplýsi þjóðina um stöðu mála. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar telur hins vegar að engum komi þessi mál við nema henni – ekki einu sinni utanríkisnefnd Alþingis. Það er raunar orðið umhugsunarefni hversu mál þurfa að vera alvarleg til að utanríkisnefnd sé kölluð saman og haft við hana lögbundið samráð. Svo virðist sem fátt annað en þriðja heimsstyrjöldin fylli þann flokk að mati íslenskra stjórnvalda. Það er hins vegar skýlaus krafa íslensku þjóðarinnar að fá að fylgjast með þessum málum. Íslenskir ráðamenn verða að fara að átta sig á því að þeir eru ekki persónur í skáldsögu John le Carré.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.