Stæltur er skrokkurinn, djöfulsljór hugurinn

Þessa dagana fer fram örvæntingarfullt áróðursstríð þeirra sem vaknað hafa upp við þann vonda draum að Bandaríkjamenn vilji draga úr herstyrk sínum hér á landi. Í hálfa öld hafa tryggir talsmenn Bandaríkjanna talið sig lifa örugga undir verndarvæng bandaríska hersins og er nú svo komið að þeir geta ekki hugsað sér lífið öðruvísi. Fyrir þá skipta breyttar aðstæður í heimsmálum engu máli og sú tilhugsun að Ísland verði herlaust land er eitur í þeirra beinum.

Ber þar nokkuð nýrra við í málflutningi hernaðarsinnanna. Þegar Ísland gekk í Nató og samið var um veru herliðs hér á landi var það sameiginlegur skilningur allra sem að málinu komu að hér yrði ekki her á friðartímum. Sérstaklega var gengið hart eftir þessu, enda voru Íslendingar að afsala sér hluta af fullveldi sínu, örfáum árum eftir að þeir höfðu tekið stjórn allra mála formlega í eigin hendur með stofnun lýðveldis árið 1944. Velkist einhver í vafa um að um sameiginlegan skilning hafi verið að ræða nægir að vitna til yfirlýsingar sem ríkisstjórn Íslands sendi frá sér í tengslum við tvíhliða samning um komu hersins hingað árið 1951:

"Vegna sérstöðu Íslendinga var það hins vegar viðurkennt, að Ísland hefði engan her og ætlaði ekki að stofna her og að ekki kæmi til mála að erlendur her eða herstöðvar yrðu á Íslandi á friðartímum. Hins vegar var það fastmælum bundið, að ef til ófriðar kæmi mundi bandalagsþjóðunum veitt svipuð aðstaða og var í síðasta stríði, og yrði það þó algerlega á valdi Íslands sjálfs, hvenær sú aðstaða yrði látin í té. Íslendingar verða því sjálfir að meta, hvenær ástand í alþjóðamálum er slíkt, að sérstakar ráðstafanir þurfi að gera til að tryggja öryggi og frelsi landsins."

Hér kemur fram sú skoðun ráðamanna þjóðarinnar sem gengið var útfrá við komu hersins hingað til lands að hér yrði aldrei her á friðartímum. Þetta treystu menn sér til að samþykkja svo skömmu eftir síðari heimsstyrjöldina. Þetta loforð var eins og allir þekkja svikið og hefur herinn verið hér síðan, oftar en ekki með hlægilegum rökstuðningi á því hvað friðartímar séu og hvað ekki. Eftir rúmlega hálfrar aldar veru hersins hér á landi er hins vegar svo komið að hluti þjóðarinnar getur ekki ímyndað sér lífið án bandarískra hermanna á Miðnesheiði.

Þegar nú er svo komið að Bandaríkjamenn sjálfir telja enga þá ógn steðja að Íslendingum sem vera herliðs þeirra geti komið í veg fyrir hlýtur að skjóta nokkuð skökku við að Íslendingar skuli mótmæla. Hvort sem það er aronskan sem þar ræður ferðinni eða forpokuð íhaldssemi sem lýsir sér í þeim skorti á ímyndunarafli að geta ekki séð fyrir sér líf án hers, skal ósagt látið.

Nýjasta bragðið í áróðursherferðinni fyrir áframhaldandi veru hersins hér á landi er vísun í ógn af hryðjuverkum. Hún er talin slík að Íslendingum sé nauðsynlegt að hafa að lágmarki fjórar orrustuþotur á Miðnesheiði með öllum viðbúnaði. Alyson Bailes, framkvæmdastjóri sænsku friðarrannsóknarstofnunarinnar SIPRI var meira að segja fengin til að leiða líkur að því að hryðjuverkamenn gætu álitið Ísland veikan blett á vörnum Vesturlanda og gert hér árás. Væntanlega mun vera fjögurra orrustuþotna breyta því, eða hvað?

Þeir sömu talsmenn og styðja Bandaríkin heilshugar í stríði þeirra gegn hryðjuverkum, treysta þeim hins vegar ekki til að meta ógnina af hryðjuverkum og þær varnir sem nauðsynlegar eru gegn þeim. Það hlýtur að teljast gríðarlegt vantraust á leiðsögn Bandaríkjamanna í stríðinu gegn hryðjuverkum og verður í raun að telja að það grafi undan stuðningi okkar við það stríð og þær aðgerðir sem í okkar nafni hafa farið fram í þeirri baráttu. Það er ekki hægt að slá á alla gagnrýni á t.a.m. innrás í Írak með því að segja að Bandaríkjamenn viti nú hvað þeir syngi, en draga svo álit þeirra á nauðsyn herliðs á Íslandi í efa.

Streð hernaðarsinnanna og kaldastríðshaukanna við að halda í horfna heimsmynd er fyrst og fremst sorglegt. Það væri óskandi að núverandi ráðamenn byggju yfir framsýni forvera sinna og héldu fast við þá stefnu að hér yrði aldrei her á friðartímum. Blind trú ráðamanna á byssur, orrustuflugvélar og önnur hertól er sláandi. Ísland er ríkt og öflugt land sem gæti verið í fararbroddi friðarmála í heiminum. Afstaða ráðamanna og fylgismanna þeirra minnir hins vegar öðru fremur á söng Bubba Morthens í Hrognin eru að koma: “Stæltur er skrokkurinn, djöfulsljór hugurinn.”

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.