Sumir eru jafnari en aðrir

Nýverið bárust fregnir af því að enn einu sinni hefði Bandaríkjastjórn tekist að hafa áhrif á stefnu og löggjöf annarra ríkja með hótunum. Að þessu sinni var það vinaþjóðin Belgar sem urðu fyrir barðinu á hinum hótanaglöðu ráðamönnum í Washington. Slíkur varð þrýstingurinn að Belgar sáu sig knúna til að breyta löggjöf sinni, Bandaríkjamönnum til þóknunar.

Og hver var ásteytingssteinninn? Hann var sá að nýverið stefndi belgískur lögfræðingur Tommy Franks, hæstráðanda bandaríska hersins í Írak, fyrir rétt í Belgíu, fyrir hönd 19 Íraka. Franks var ákærður fyrir stríðsglæpi, en samkvæmt belgískri löggjöf má kæra hvern sem fyrir stríðsglæpi sem framdir eru hvar sem er í heiminum og er réttað yfir viðkomandi fyrir belgískum dómsstólum. Þetta hugnaðist Bandaríkjamönnum að sjálfsögðu ekki og beittu þeir Belga því þrýstingi.

Ákæran á hendur Tommy Franks varð til þess að upp úr sauð hjá Bandaríkjamönnum. Þeir höfðu hins vegar lengi gagnrýnt þetta ákvæði í löggjöf Belga og krafist þess að því yrði breytt. Löggjöfin var sett árið 1993 en breytt í apríl síðastliðnum til að koma til móts við kröfur Bandaríkjamanna. Eftir breytinguna var dómsstólum gert kleift að vísa þeim málum sem talin voru vera af pólitískum toga eða áróðursbragð, til dómsstóla í landi sakborningsins. Mál Tommy Franks varð hins vegar til þess að Bandarikjamenn kröfðust enn frekari breytinga.

Til að leggja áherslu á kröfur sínar gaf Donald Rumsfeld út þá yfirlýsingu að bandarískir embættismenn gætu ekki farið til höfuðsstöðva Nató í Brussel og að Bandaríkjamenn myndu stöðva fjármögnun nýrra bygginga Nató þar í borg. Þessar yfirlýsingar komu í kjölfarið á þeim orðrómi að Bandaríkjastjórn vildi flytja höfuðsstöðvar Nató til Austur-Evrópuríkis sem væri hlynntara stefnu bandarískra stjórnvalda en stjórnin í Belgíu, sem m.a. studdi sjónarmið Frakka varðandi innrás í Írak. Talið er að brotthvarf höfuðsstöðva Nató frá Belgíu settu stöðu landsins í alþjóðlegu samhengi í uppnám og u.þ.b. 55 þús. störf væru í hættu sem og 517 milljarða velta.

Þennan þrýsting stóðst belgíska stjórnin ekki og breytti lögunum þannig að nú taka þau eingöngu á málum sem Belgar sjálfir eða einhverjir þeir sem dvelja í landinu tengjast á beinan hátt. Þar með er fótunum kippt undan alþjóðlegu hlutverki belgískra dómsstóla í stríðsglæpum. Höggva Bandaríkjamenn þar í sama knérunn og áður þar sem þeir neita að staðfesta skipan alþjóðlegs stríðsglæpadómsstóls.

Á þessu sést hversu óskammfeilnir Bandaríkjamenn eru í þrýstingi sínum á önnur ríki. Opinskátt hóta þeir á báðar hendur til að fá vilja sínum framgengt. Þetta sýnir enn fremur að þegar kemur að mannréttindamálum er holur hljómur í málflutningi Bandaríkjamanna. Þeir ásaka hæglega íbúa annarra landa fyrir stríðsglæpi, en þvertaka fyrir það að nokkur geti gert slíkt hið sama við Bandaríkjamenn. Í svarthvítum heimi Bandaríkjanna gildir nefnilega hið sama og í Dýrabæ Orwells eftir breytingar svínanna á lögunum: Öll dýr eru jöfn, en sum eru jafnari en önnur.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.