Saklausu fólki fórnað – til hvers?

Margt hefur verið ritað og rætt um stríðið í Írak, enda ekki vanþörf þar á. Ekkert hefur komið fram sem rennir stoðum undir staðhæfingar Bandaríkjamanna, Breta og stuðningsmanna þeirra, um ástæður fyrir stríðinu. Efnavopn hafa engin fundist og tengsl við Al Kaída eru algerlega ósönnuð og raunar talin fráleit af þeim sem best til þekkja. Það virðist lítil áhrif hafa á innrásaraðilana og stuðningsmenn þeirra. Enn hafa Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson ekki þurft að svara fyrir þá saklausu borgara sem féllu í innrásinni, en þeir eru taldir vera á bilinu 5500-7200.

Raunar virðist vestrænum ráðamönnum vera furðulega sama um saklausa borgara sem falla þegar ráðamennirnir koma markmiðum sínum í framkvæmd, í það minnsta ef þeir eru í fjarlægum löndum. Þannig heyrðust íslenskir stuðningsmenn innrásar, með utanríkisráðherra í broddi fylkingar, tala um “fórnarkostnað” og ekki annað að skilja en hann væri eðlilegur í þessu samhengi. Hvimleiður að vísu, en eðlilegur engu að síður. Bretar og Bandaríkjamenn hafa t.a.m. í engu sinnt því að gefa upp tölur yfir óbreytta borgara sem létu lífið í innrás þeirra. Talsmenn þeirra segja hersveitir landanna ekki hafa haldið tölum um fall saklauss fólks til haga. Áhersla þeirra á að vernda óbreytta borgara, eins og herjum ber að gera samkvæmt Genfarsáttmálanum, er ekki meiri en svo að menn nenna ekki einu sinni að telja þá sem falla. Og ekki heyrast íslensk stjórnvöld krefjast upplýsinga um það hversu margir féllu í stríðinu sem þau studdu, þau eru upptekin við að betla peninga frá bandaríkjaher.

Innrásarherinn hefur heldur ekki lagt neitt á sig við að rannsaka það sem þó fór sannarlega úrskeiðis í árásum hans. T.d. féllu 58 óbreyttir borgarar í flugskeytaárás á markað í Bagdad. Þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar um að málið væri í rannsókn, segja talsmenn bandaríska hersins nú að engin rannsókn hafi farið fram á atburðinum. Það er með öllu óþolandi að þetta skuli liðið. Það er skylda herja sem berjast að vernda óbreytta borgara og eitt er að fullkomnasti her í heimi skuli ekki sinna þeirri skyldu sinni. Að hann skuli ekki einu sinni láta svo lítið að rannsaka þau atvik sem úrskeiðis fóru tekur út fyrir allan þjófabálk. Það gerir ekkert nema að vekja grun um að í raun hafi ekkert farið úrskeiðis og skotmarkið verið fyrir fram ákveðið.

Upplýsingar sem borist hafa um að raunveruleg ástæða innrásar Bandaríkjamanna í Írak hafi verið allt önnur en sú opinbera, virðist engin áhrif ætla að hafa á vinsældir George W. Bush. Svo virðist sem Tony Blair standi meiri hætta af því að hafa fengið þjóð sína með sér í stríð á fölskum forsendum. Trúverðugleikinn hefur löngum verið helsti styrkur Blairs, hann fær þjóð sína til að treysta því að hann geti gert hlutina á hinn eina rétta hátt. Þannig fékk hann bresku þjóðina til að trúa því að henni stafaði ógn af gereyðingarvopnum Íraka. Nú finnst hvorki tangur né tetur af þessum sömu vopnum, vopnaeftirlitsmenn fullyrða að þau hafi aldrei verið til og ekkert bendir til framleiðslu þeirra. Það dregur eðlilega úr trúverðugleika breska forsætisráðherrans og til eru þeir sem spá því að þetta marki upphafið að endalokum valdatíðar hans.

Það er hins vegar nauðsynlegt að kjósendur haldi stjórnmálamönnum við efnið. Bandaríkjamenn, Bretar o.fl. réðust inn í Írak með fullum stuðning fleiri ríkja, þ.á.m. Íslands, til þess að finna og eyða gereyðingarvopnum. Í kjölfar þeirrar árásar eru þúsundir óbreyttra borgara fallin. Við eigum heimtingu á að fá að vita hvers vegna þetta fólk lét lífið. Halldór Ásgrímsson, Davíð Oddsson, jábræður og systur þeirra, eru útötuð blóði þessa saklausa fólks og nafn Íslands einnig, vegna stuðnings þeirra. Til hvers var þeim fórnað?

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.