Meðferð valds

Í nýafstaðinni kosningabaráttu mátti heyra að æ fleiri stjórnmálaflokkar láta lýðræðismál sig einhverju skipta. Þetta er vel þar sem allt og oft hefur sú skoðun viðgengist hér á landi að lýðræði sé einfaldlega sú staðreynd að meirihlutinn eigi að kúga minnihlutann í krafti valds síns. Það var því ánægjulegt að sjá flokka eins og VG og Samfylkinguna leggja töluverða áherslu á þessi mál og það að laga brotalamir þær sem víða finnast í lýðræðiskerfi okkar. Á engan er hallað þegar fullyrt er að einn frambjóðandi hafi öðrum fremur gert lýðræðismálin að sínum, en þar er átt við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur.

Æ ofan í æ mátti sjá forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar tala um meðferð valds og það öngstræti sem núverandi valdhafa væru komnir í í þeim efnum. Er það vel að menn skuli halda þessum málum á lofti og Ingibjörg Sólrún var fráleitt ein á ferð í baráttu sinni, margur frambjóðandi Samfylkingarinnar tók undir með henni. Þannig lagði flokkurinn áherslu á nútímalega stjórnunarhætti þjóðaratkvæðagreiðslur o.fl.

Í því ljósi skutu fréttir af skipan í nefndir á Alþingi nokkuð skökku við. Flokkurinn sem gagnrýndi meðferð annarra á valdi því sem þeim hefur verið falið, sýndi mátt sinn og megin í því að hundsa þær hefðir sem skapast hafa á þingi um samstöðu stjórnarandstöðunnar í nefndaskipanir. Í krafti þingstyrks síns var öllu samkomulagi við VG og Frjálslynda flokkinn hafnað og Samfylkingin kom sínum fulltrúum að hvar sem laust var plássið. Svo mikið var kappið við að tryggja nógu mörgum Samfylkingarmönnum nefndarsæti og koma í veg fyrir að hinir stjórnarandstöðuflokkarnir hlytu einhver sæti, að Samfylkingin kom í veg fyrir að VG eða Frjálslyndir fengju fulltrúa í yfirkjörstjórn. Þess í stað stóð Samfylkingin vörð um sína tvo fulltrúa þar.

Eftir þessa uppákomu verður að segjast eins og er að hann er heldur holur hljómurinn í forystumönnum Samfylkingarinnar þegar lýðræðisást þeirra ber á góma. Lýðræði snýst ekki um yfirgang meirihlutans, þrátt fyrir að hinn nútímalegi jafnaðarmannaflokkur virðist álíta sem svo. Þvert á móti snýst lýðræði um að sem flestar skoðanir komist á framfæri, þjóðin fái að koma sjónarmiðum sínum að sem víðast. Þetta skildi meirihlutinn í Reykjavík þegar ákveðið var að Ólafur F. Magnússon borgarfulltrúi og Frjálslyndi flokkurinn fengju áheyrnarfulltrúa í nokkrum nefndum, þ.á.m. borgarráði. Ekki vegna þess að nægilegur fjöldi kjósenda hefði tryggt þá setu, heldur vegna viðurkenningar á því að þannig væri lýðræðinu best þjónað.

Þingflokkur Samfylkingarinn virðist hins vegar ekki deila þeirri virðingu fyrir lýðræðinu með borgaryfirvöldum og kýs að brjóta allar hefðir í krafti stærðar sinnar. Þetta kemur vissulega á óvart, þó í raun ætti ekki svo að vera. Flokkur sem í kosningabaráttu berst fyrir auknum þjóðaratkvæðagreiðslum eftir að hafa nýverið fellt tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um Kárahnjúkavirkjun, eitt stærst hagsmunamál íslensku þjóðarinnar, er kannski ekki mjög trúanlegur í ást sinni á nútímalegum stjórnarháttum og beinu lýðræði.

Mörgum hefði þó þótt það skjótta skökku við að hlýða á Ingibjörgu Sólrúnu höggva enn á ný í sama knérunn í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra síðastliðið þriðjudagskvöld. Stjórnmálamenn sem vilja láta taka sig alvarlega halda ekki skammarræður yfir öðrum um meðferð þeirra á valdi, sama dag og þeir sjálfir hafa valtað yfir 9 af 63 þingmönnum þjóðarinnar í krafti stærðarinnar. Hér sannast kannski hið fornkveðna að margur heldur mig sig.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.