Merkir Svíar XIII: Ekki bara salerni

Flestir Íslendingar kannast við nafnið Gustavsberg. Margir hafa raunar eytt ófáum stundum á Gustavsberg og stundum hefur þessari spurningu kannski lostið í kollinn: Hver var hann, þessi Gustavsberg? Rétta svarið er að Gustavsberg var ekki maður heldur staður. Á 5. áratug 17. aldar erfðu Gustav Gabrielsson Oxenstierna (1613-48), bróðursonur hins fræga Axels greifa sem mjög kom við sögu í 30 ára stríðinu, og kona hans, Maria de la Gardie (1627-1694), nokkra búgarða í Värmdö frá krúnu Svíþjóðar. Þau hugðust byggja þar steinhús en þurftu til þess tígulstein og var því reist tígulsteinssmiðja í Farstavíkinni. Gustav lést hins vegar áður en húsið var reist og til að heiðra minningu hans breytti hin kornunga ekkja hans nafni jarðarinnar í Gustavsberg.

Tígulsteinsframleiðslan hélt áfram eftir að Gustav lést og Maria giftist aldrei aftur. Þvert á móti fór hún að einbeita sér að viðskiptum og seldi tígla um allar koppagrundir. Forkur mikill þó að hún væri aðeins rúmlega tvítug. Steinhúsið var fullgert árið 1658 og er enn kallað Farstahöllin. Það gerðist árið 1815 þegar eignunum var skipt í tvennt. Þá festist nafnið Gustavsberg við tígulsteinsverksmiðjuna en herragarðshlutinn nefndist Farsta. Skömmu síðar eignaðist Johan Herman Öhman tígulsteinsverksmiðjuna og fluttist þangað. Hann ákvað hins vegar að reisa postulínsverksmiðju og hófst sú starfsemi árið 1825. Fyrst var þýskri tækni beitt við framleiðsluna en skipt var yfir í enska tækni árið 1839 og um leið tók fyrirtækið upp akkeri sem merki sitt, sem varð síðan frægt.

Postulínsframleiðslan gekk mjög vel á seinni hluta 19. aldar enda fór þá postulín að verða almenningseign í auknum mæli. Odalbergfjölskyldan eignaðist verksmiðjuna á þeim tímum en á 3. áratug 20. aldar lenti hún í vandræðum enda flæddi þá ódýrt þýskt, tékkneskt, japanskt og finnskt postulín um alla Evrópu. Lauk svo að sænska samvinnuhreyfingin keypti Gustavsberg. Þar voru menn jarðbundnir mjög og ákváðu að hefja framleiðslu salernisskála og baðkara. Á 7. áratugnum kom önnur flóðbylgja ódýrs postulíns frá Austur-Evrópu en í þetta sinn stóð fyrirtækið þetta vel að sér þar sem auður þess var nú reistur á traustum grunni klósettskála.

Á síðari árum hefur Gustavsberg gengið í gegnum endalausar sameiningar eins og önnur gamalgróin fyrirtæki. Núna er það að hluta í eigu fyrirtækisins Villeroy og Boch. Það hefur verið til síðan árið 1748. Þá hóf járnsmiðurinn François Boch að framleiða húsbúnað úr keramík, diska og bolla. Varð þetta mikill iðnaður á fáum áratugum og fluttist árið 1809 í gamalt benediktínaklaustur í Mettlach við Saarfljót þar sem enn eru höfuðstöðvar fyrirtækisins. Árið 1829 hófu Bochverksmiðjurnar í Mettlach framleiðslu steinpostulíns sem markaði tímamót í sögu postulínsins. Árið 1791 hafði viðskiptajöfurinn Nicolas Villeroy hafið framleiðslu húsbúnaðar og árið 1836 ákváðu fjölskyldurnar að sameina framleiðslu sína. Árið 1843 hófu þær síðan að framleiða gler og síðan hefur saga Villeroy og Boch verið ein samfelld sigurganga.

Tekið skal fram að þeir Villeroy og Boch voru Frakkar (eða Þjóðverjar, samkvæmt skilgreiningu) en ekki Svíar. Í raun réttri kemur seinasta málsgreinin fyrri hluta greinarinnar ekkert við, en annað eins hefur nú hent á bestu bæjum.

Greinaflokkurinn er því farinn að snúast upp í að vera saga algengs heimilisbúnaðar. Til að undirstrika það verður í næstu grein fjallað um fyrirtækið Friedland sem kunnast er fyrir að selja dyrabjöllur.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.