Hressileg ímynd, sami Framsóknarflokkur

Framsóknarflokknum hefur undanfarið gengið býsna vel að tæla til sín kjósendur með hressilegum auglýsingum og einni rándýrustu kosningabaráttu sem sögur fara af. Ekki verður skafið af Framsóknarmönnum að þeir hafa barist vel og drengilega. Kjósendur ættu þó ekki að gleyma því fyrir hvað Framsóknarflokkurinn hefur staðið í átta ár og fyrir hvað hann stendur á þessari stundu.

Því er rétt að rifja það upp:

1. Framsóknarflokkurinn hefur staðið fyrir utanríkisstefnu sem snýst um skilyrðislausa hlýðni við vígvæðingarstefnu Bandaríkjastjórnar. Utanríkisráðherra og formaður Framsóknarflokksins studdi árás NATO á Júgóslavíu, innrásina í Afganistan og innrásina í Írak. Hann hefur stutt aukin framlag Íslands til ófriðar og vill að Íslendingar taki virkan þátt í hinni nýju vígvæðingaráætlun NATO.

2. Framsóknarflokkurinn er stóriðjuflokkurinn. Hann hefur barist fyrir því að Ísland fái undanþágu frá alþjóðlegum samningu um losun gróðurhúsalofttegunda. Hann hefur barist fyrir stórvirkjunum á hálendinu sem eiga ekki sinn líka í sögu landsins. Afleiðingarnar verða óafturkræfar breytingar á einstöku landslagi. Í Framsóknarsamfélaginu er umhverfisráðherra nánast undirmaður iðnaðarráðherra.

3. Framsóknarflokkurinn hefur farið með heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytin í átta ár. Þau ár hafa verið tími undanhalds í velferðarmálum. Flokkurinn hefur klipið og klipið af hinum aumustu í samfélaginu, alveg eins og kratarnir gerðu áður. Treysta menn virkilega Framsóknarflokknum til að blása til sóknar í velferðarkerfinu?

4. Framsóknarflokkurinn harðneitar að ræða nokkrar umbætur á kvótakerfinu. Flokkurinn bregst reiður við jafnvel hófsömum tillögum um hægfara þróun í réttlætisátt.

Í stuttu máli hefur Framsóknarflokkurinn hegðað sér eins og hægriflokkur í átta ár. Í langflestum málum hefur verið erfitt að sjá mun á honum og Sjálfstæðisflokknum. Kannski hefur hann staðið aðeins á bremsunni í einkavæðingu og niðurskurði í heilbrigðis- og menntakerfinu. Það er hins vegar ekki nóg til að kjósendur líti framhjá hægrisveiflu flokksins í átta ár.

Í þessari kosningabaráttu hefur Framsóknarflokkurinn varla gert nokkra tilraun til að skilja sig frá Sjálfstæðisflokknum. Þó að Halldór og félagar skjóti nokkrum skotum á Davíð og félaga seinustu vikurnar er staðreyndin sú að Framsóknarflokkurinn hefur verið hæstánægður í faðmi íhaldsins og kjósendur hafa enga ástæðu til að ætla að hann vilji í ríkisstjórn með nokkrum öðrum.

Í átta ár hefur Framsóknarflokkurinn farið með stjórnartaumana. Hagsæld hefur verið meiri en nokkru sinni fyrr. Flokkurinn hefur farið með velferðarráðuneytin og fólk veit hvernig hann stjórnar þeim málum í hægrasamstarfi. Falleg bros og tal um velferð duga skammt samanborið við átta ára reynslu af Framsóknarvelferðinni.

Framsóknarflokkurinn er á þessari stundu hægriflokkur. Atkvæði greidd honum eru atkvæði til hægri. Hann verðskuldar skell í þessum kosningum fyrir fortíðina. Hver veit hins vegar nema Framsóknarflokkurinn átti sig og reyni að endurnýja sig sem miðflokkur eftir kosningar. Það er þó ekki líklegt að hann læri þá lexíu nema kjósendur kenni honum hana.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.