Morgunblaðið finnur Guð

Daginn eftir að Bandaríkin og Bretar réðust á Írak án þess að hafa nokkra réttlætingu sem skiljanleg er venjulegu fólki birti Morgunblaðið tvöfaldan leiðara þar sem það reyndi að rökstyðja málstað stríðssinna.

Í þessum leiðara kom eftirfarandi fram:

1. Sjálfstæðisbarátta Íslendinga er goðsögn. Í raun eiga Íslendingar Bandaríkjunum sjálfstæði sitt að þakka. Þeir tryggðu okkur sjálfstæðið árið 1944 og við erum ævinlega skuldbundin þeim fyrir það.

2. Sovétríkin hefðu lagt Ísland undir sig ef Bandaríkin hefðu ekki veitt okkur „vernd“ áratugum saman. Gjörvallur sovéski herinn beið grár fyrir járnum í grenndinni eftir að leggja Ísland undir sig og breyta í sovéskt leppríki.

3. Sú hugmynd að íslenskir sjómenn, landhelgisgæslan, stjórnmálamenn og þjóðin ættu þátt í útfærslu landhelginnar er á misskilningi byggð. Það voru Bandaríkin sem tryggðu okkur meiri fiskveiðilögsögu.

4. Á móti kemur að Bandaríkin hefðu aldrei sigrað sovéska heimsveldið ef Ísland hefði ekki stutt vini sína í vestri. Með því að láta góðu mennina gefa okkur sjálfstæði, landhelgi og vernd sigruðum við heimsveldi illskunnar.

5. Þess vegna eigum við alltaf að styðja Bandaríkin. Alltaf alltaf alltaf. Hvar værum við án þeirra?

6. Málstaðurinn núna er góður af því að Saddam Hussein drap fjölda manns á níunda áratugnum og þess vegna er stríðið núna sambærilegt við stríðið í Kosovo, nema kannski helst að því leyti að meint fórnarlömb hafa verið látin í hálfan annan áratug.

7. Saddam Hussein sýnir „alþjóðasamfélaginu“ óvirðingu.

Ekki kemur fram nákvæmlega í hverju það felst en það gæti merkt að hann hafi farið í stríð án samþykkis öryggisráðsins, án þess að ráðist hafi verið á hann eða honum ógnað, vegna raka sem hann bjó sjálfur til og síðan hótað öllum öllu illu sem andæfðu honum.

Það kemur ekki beinlínis fram að „alþjóðasamfélagið“ hljóti að vera samheiti við „Bandaríkin“ en væntanlega mun Morgunblaðið gefa bráðum út orðabók svo að hægt sé að skilja leiðara þess.

8. Hitler var vondur líka og drap marga, eins og Saddam. Neville Chamberlain gerði samning við hann. Þannig að ef við ráðumst ekki á Saddam er það jafngilt því að afhenda honum Tékkóslóvakíu.

9. Stalín drap 40 milljónir. Og þó líklega helmingi fleiri. Sennilega drap hann allt mannkynið og við höldum bara að við séum á lífi. Og Morgunblaðið hafði rétt fyrir sér um Stalín og þess vegna á alltaf að trúa öllu sem það segir.

Þetta eru rök Morgunblaðsins fyrir því að Íslandi beri alltaf að styðja öll stríð Bandaríkjanna. Þau voru sett fram 20. mars en ekki 1. apríl, það er vissara að taka það fram. En það er ljóst að leiðarahöfundur Morgunblaðsins er harðákveðinn í því að verða Íslandsmeistari í þrugli. Honum verður þó veitt hörð keppni. Þingmennirnir Einar K. Guðfinnsson, Sigríður Anna Þórðardóttir og Lára Margrét Ragnarsdóttir eru komin í fremstu víglínu, ásamt ýmsum fjölmiðlamönnum.

Meðal þess sem keppendur í þruglinu munu reyna að rökstyðja er að:

1. Árás Bandaríkjanna og Breta á Íraka sé svar við innrás Íraka í Kuwait árið 1990.

2. Hér er á ferð mannréttindaaðgerð í þágu Írana (hins öxulveldis hins illa) og Kúrda sem Saddam drap á 9. áratugnum.

3. Það á alltaf að fara í stríð við alla harðstjóra, nema þau 90% sem Bandaríkin sjálf komu til valda, eða seldu vopn og studdu með ráðum og dáð árum saman — og þá líka ef það hentar. Annars erum við að semja við Hitler.

Líklegt er þó að Davíð Oddsson fái þruglverðlaunin, eftir að hann reyndi að útskýra í Sjónvarpinu að þau 90% Íslendinga sem eru andvíg stríði séu þar með að lýsa stuðningi við stefnu hans og Halldórs Ásgrímssonar því að hann sjálfur hefði svarað því í könnun að hann væri á móti stríði við Írak þó að hann styðji það samt.

Nú veit maður ekki hvort íslenskir Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn hafa fengið varabirgðir af hláturgasi frá bandaríska hernum til að anda að sér áður en þeir tjá sig um stríðið gegn Írak. Afrek þeirra er hins vegar ennþá meira ef þeir hafa náð að þrugla jafn mikið á jafn skömmum tíma án allra hjálpartækja.

áj/kj/kóp/sh

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.