Á að einkavæða mannréttindi?

Í dag er á dagskrá þingfundar umræða um breytingu á lögum um vatnsveitur. Þessar breytingar hefðu það í för með sér að hægt væri að hlutafélagavæða vatnsveiturnar og sveitarfélög þau sem hafa einkarétt á sölu vatns á ákveðnu svæði, gætu framselt þann rétt til fyrirtækis. Ljóst er að hér væri verið að opna á stórfellda einkavæðingu í vatnssölu og vandséð er að alvarlegri atlaga hafi verið gerð að grunnþjónustu samfélagsins.

Rétturinn til vatns hefur nefnilega verið skilgreindur sem grundvallarmannréttindi. Það hefur hins vegar færst í vöxt undanfarin ár í heiminum að stórfyrirtæki öðlast einkarétt á vatnssöfnun og miðlun. Enginn getur án vatnsins verið og því ekki furða að klókir viðskiptamenn sjái gróðavon í vatninu. Nú þegar eiga stórfyrirtæki einkarétt á vatnsmiðlun í mörgum fátækum ríkjum og sums staðar er það svo að söfnun regnvatns er bundin einkaleyfi erlends stórfyrirtækis.

Það er engum blöðum um það að fletta að það að leyfa hlutafélagavæðingu vatnsveitna opnar á einkavæðingu síðar meir, það sýna fyrri aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Alþingi myndi með samþykkt sinni gera fyrirtækjum kleift að reka vatnsveitur með gróðasjónarmið eingöngu í huga, en samkvæmt lögum munu ákvarðanir um gjaldskrá vera í höndum stjórnar vatnsveitu. Með því að binda þann rétt eingöngu við stjórn veitnanna getur sú staða hæglega komið upp að fyrirtæki sem sveitarfélag hefur framselt réttinn til vatnssölu, hækki verðið á þjónustunni mun meira en eðlilegt getur talist. Þar að auki yrði heimilt samkvæmt frumvarpinu að greiða út 7% arð af vatnsveitum í framtíðinni. Ljóst er að til að slíkt markmið náist verður vatnsgjald að hækka til muna.

Það er sorglegt að fylgjast með því hve litla virðingu ríkisstjórn Davíðs Oddssonar ber fyrir grundvallarþáttum samfélagsþjónustunnar. Allt skal falt á markaðstorginnu, jafnvel mannréttindi eins og rétturinn til vatns. Stjórnvöld hafa haldið því fram að GATS-samningurinn neyði þau þessara lagabreytinga. Ljóst er hins vegar að þau ganga mun lengra fram í þessum efnum en samningurinn kveður á um.

Á það hafa BSRB bent í ítarlegum athugasemdum sínum við lagafrumvarpið. Þar er bent á að enga nauðsyn ber til þess að sveitarfélög geti framselt eignarrétt á vatnsveitum. Þau gætu hins vegar framselt einkarétt á rekstri vatnsveitnanna og uppfyllt þannig skilyrði GATS-samningsins. Stjórnvöld í Hollandi hafa t.a.m. stigið skref í þá átt að tryggja hinu opinbera óskoraðan eignarrétt yfir vatnsveitum.

Enginn vilji er hins vegar fyrir slíku hjá íslenskum stjórnvöldum. Það sem af er umfjöllun um þetta mál á Alþingi hefur það sýnt sig að Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki og Samfylkingu er ekkert heilagt þegar kemur að þjónkun við markaðinn. Þá skulu jafnvel grundvallarmannréttindi föl.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.