Tímamót í málefnum fátækra ríkja?

Athyglisverð tillaga kom nýlega fram frá Jacques Chirac forseta Frakklands. Laut hún að því að setja bann við því að þróuð ríki geti niðurgreitt landbúnaðarvörur sem fara á markað í Afríku. Hér er á ferð metnaðarfull tillaga sem gæti markað tímamót í uppbyggingu í Afríku. Hingað til hefur lítill skilningur verið fyrir því hjá vestrænum ráðamönnum að niðurgreiðsla vestrænna afurða hafi áhrif á innanlandsmarkað í Afríku. Vonandi verður tillaga Chiracs til að breyta því.

Staðreyndin er nefnilega sú að enn eimir eftir af nýlendustefnu vestrænna ríkja hvað viðkemur Afríku. Stuðningur við fátæk lönd þar hefur hingað til ekki snúið nægilega að því að hjálpa heimamönnum að byggja upp lífvænlegt samfélag. Þess í stað hefur stuðningurinn virkað þannig að halda lífinu í fólki í fátækustu löndunum en halda þeim um leið háðum hinum vestrænu löndum.

Margir hafa orðið til þess að benda á þennan tvískinnung í þróunaraðstoð vestrænna ríkja, hún gerði ekki nóg til að efla atvinnulíf í þróunarlöndum og gera þau þannig sjálfstæðari og óháðari vestrænum framlögum. Í þessu skyni hefur verið bent á margar leiðir til að styrkja fátæk ríki heimsins, s.s. niðurfellingu skulda þeirra. Sú aðgerð myndi hafa mun jákvæðari afleiðingar í för með sér en sú þróunaraðstoð sem nú er fyrir hendi.

Það að setja bann við niðurgreiðslu landbúnaðarvara sem fara á markað í Afríku er tillaga sprottin af sama meiði. Markaðir margra Afríkuríkja eru vanþróaðir og framleiðsluaðferðir þar frumstæðar á vestrænan mælikvarða. Vestræn ríki hafa síðan í ofanálag skekkt samkeppnisstöðu á afrískum mörkuðum með niðurgreiðslu á landbúnaðarframleiðslu sinni. Á sama tíma hefur afrískur landbúnaður mátt sæta því að á landbúnaðarafurðir frá Afríku hafa verið lagðir tollar og gjöld sem gera þeim erfitt fyrir á vestrænum mörkuðum.

Tillaga Chiracs er því ánægjuleg og vonandi er hún fyrsta skrefið í því að styrkja fátæk ríki heimsins til þess að bjarga sér sjálf. Það er hin raunverulega þróunaraðstoð.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.