Nýr, ómengaður Framsóknarflokkur

Þessa dagana er mikið um dýrðir á Hótel Loftleiðum. Framsóknarflokkurinn heldur þar flokksþing sitt og munu áætlanir hafa gert ráð fyrir u.þ.b. 700 gestum. Ljóst er að þar munu flokksmenn slá fyrstu tónana fyrir komandi kosningabaráttu, brátt munu ný loforð líta dagsins ljós. Nú þegar hafa nokkur þeirra komið fram á sjónarsviðið og ljóst er að ef að Framsóknarflokkurinn kemst til valda í íslensku samfélagi mun mikið breytast. Þá mun átta ára óstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfsstæðisflokksins verða hrundið.

Það er nefnilega ekki að skilja á Framsóknarmönnum þessa dagana að þeir hafi setið við völd í bráðum átta ár. Þeir tala líkt og flokkur sem barist hefur í stjórnarandstöðu en hefur metnaðarfulla kosningastefnu og góðar hugmyndir til að breyt því kerfi sem nú er fyrir hendi. Að þessu sinni býður Framsóknarflokkurinn fram undir kjörorðinu vinna, vöxtur, velferð og er þannig hættur að setja fólk í fyrirrúm líkt og stefnt var að fyrir fjórum árum. Það er ekki úr vegi að líta nánar á nokkur dæmi um þau mál sem flokkurinn ætlar að leggja á áherslu í þessum kosningum.

Framsóknarflokkurinn ætlar að efla þjónustu við geðfatlaða. Þar verður við ramman reip að draga enda hafa málefni geðfatlaðra komist á það stig undir stjórn Framsóknarflokksins að neyðarástand ríkir þar. Sérstaklega eig börn og unglingar sem eiga við geðræðn vandamál að stríða undir högg að sækja og hafa fagaðilar biðlað til heilbrigðisráðherra, framsóknarmannsins Jóns Kristjánssonar, að bæta úr því ófremdarástandi sem skapast hefur þar síðustu árin.

Framsóknarflokkurinn ætlar að hækka barnabætur. Hér er reyndar um endurunnið kosningaloforð að ræða, í breyttu formi þó. Fyrir fjórum árum ætlaði flokkurinn að berjast fyrir auknum stuðningi við barnafjölskyldur m.a. með tilkomu barnakorta. Þau hafa ekki enn séð dagsins ljós og reyndin er sú að barnabætur hafa minnkað að raungildi miðað við verðlag í tíð núverandi ríkisstjórnar og félagsmálaráðherra, framsóknarmannsins Páls Péturssonar.

Framsóknarflokkurinn vill afnema tóbak og áfengi út úr neysluverðsvísitölu. Fyrir þessu hefur þingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Þuríður Backman, barist um langt skeið. Framsóknarflokkurinn hefur lagt stein í götu þessa máls hingað til, en kannski sjá menn þar á bæ núna að þetta gæti farið vel ofan í kjósendur fyrir þessar kosningar, enda um mikið réttlætismál að ræða.

Framsóknarflokkurinn vill að auki hækka persónuafslátt, gera bætur almannatrygginga skattfrjálsar og ýmislegt fleira sem hann hefur á síðustu átta árum ýmist staðið gegn, eða ekki fundið sér tíma til að berjast fyrir.

Það verður spennandi að sjá fleiri loforð frá Framsóknarflokknum. Hann rís nú eins og fuglinn Fönix upp úr rústum fylgistaps síns, ómengaður af fyrr verkum í ríkisstjórn og lofar öllu fögru út og suður. Efalaust mun gefast frekara færi á þessum vettvangi, sem öðrum, til að fylgjast með þessari endurfæðingu flokksins.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.