Gleymd kosningaloforð

Fyrir síðustu alþingiskosningar setti Framsóknarflokkurinn fram stefnuskrá og loforðalista undir kjörorðinu Fólk í fyrirrúmi. Voru þar settar fram hugmyndir um það hvernig Framsóknarflokkurinn ætlaði að láta velferð fólks skipta sig máli og loforð um hvernig fé yrði veitt til þess. Mátti af þessari stefnu flokksins skilja að nú yrði velferð einstaklinga metin ofar öðru, fjármunum yrði varið til að efla þau stoðkerfi sem að henni stuðla. Eftir kosningarnar var ljóst að endurnýjun yrði á samstarfi Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins við landstjórnina og við skiptingu ráðuneyta féllu Framsókn m.a. í skaut þau ráðuneyti sem hvað best hefðu átt að nýtast flokknum til að setja fólk í fyrirrúm, félagsmálaráðuneytið og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið.

Það hefðu því átt að vera hæg heimatökin fyrir Framsóknarflokkinn að koma loforðum sínum til framkvæmda. Nú, fjórum árum síðar, er ljóst að þau tækifæri hafa ekki verið nýtt. Raunar hefur Framsóknarflokkurinn stýrt þessum ráðuneytum í næstum átta ár þannig að nægur hefur tíminn verið til véla svo um í samfélaginu að fólk sé í fyrirrúmi. Staðreyndin er hins vegar sú að hjá Framsóknarflokknum eru malbik, stórframkvæmdir og einkavæðing í fyrirrúmi.

Í það minnsta er ljóst að börn og unglingar sem eiga við geðheilbrigðisvandamál að stríða eru fráleitt í fyrirrúmi hjá Framsóknarflokknum. Nýlega sendi stjórn Barnageðlæknafélags Íslands bréf til heilbrigðisráðherra og landlæknis þar sem ástandinu í geðheilbrigðismálum barna og unglinga var lýst. Samkvæmt áliti fagaðila ríkir neyðarástand í málaflokknum og ljóst að mikilla úrbóta er þörf.

Barna og unglingageðdeild Landsspítalans er að jafnaði yfirfull og það hefur orðið til þess að vista hefur þurft börn á fullorðinsgeðdeildum. Flestir hljóta að sjá hve alvarlegar afleiðingar slíkt getur haft í för með sér, enda líta læknar svo á að þar sé um neyðarúrræði að ræða. Ástandið í málaflokknum eftir átta ára stjórn Framsóknarflokksins er hins vegar þannig að ítrekað þarf að beita þessum neyðarúrræðum til þess að veita þó einhverja þjónustu. Sumarlokanir á geðdeildum bæta síðan gráu ofan á svart þar sem fjöldi fólks, margir hvergir ungir að árum, er án nokkurra úrræða með sín vandamál yfir sumartímann.

Á sama tíma guma ráðherrar og þingmenn flokksins sig af því að engir biðlistar séu eftir meðferðarúrræðum fyrir unglinga sem eiga við fíkniefnavanda að etja. Þetta er einfaldlega rangt eins og allir þeir sem þekkja málaflokkinn geta vitnað um. Verst er ástandið meðal ungra fíkniefnaneytenda sem eiga jafnframt við geðræn vandamál að stríða og líkt og ástandið er nú eru þeim flest sund lokuð. Biðlistar eftir langtímavistun í meðferð eru allt of langir og verður það til þess að miklu fleiri nýta sér skammtímaúrræði. Þau henta ekki öllum, fljótlega sækir í sama neyslufarið og þannig versnar ástandið eftir því sem úrbætur láta á sér standa.

Það væri sæmandi stjórnmálamönnum sem lofað hafa kjósendum því að setja fólk í fyrirrúm að bæta hið bráðasta úr þessum brýna vanda. Ekki verður séð að of mikið hafi búið að baki kosningaloforðum Framsóknarflokksins. Í það minnsta var ekki að sjá í nýlegum tillögum um 6,3 milljarða fjárveitingu til eflingar atvinnu að gert væri ráð fyrir því að efla heilbrigðisgeirann. Þar voru malbik, göng og brýr í fyrirrúmi. Svo langt sem það nær eru úrbætur í vegamálum hið besta mál. Eðlilegt hefði hins vegar verið að skipta þessum fjármunum þannig að þeir nýttust til úrbóta fyrir sem flesta geira samfélagsins. Þá hefði fólk verið haft í fyrirrúmi.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.