Hið ljúfa líf láglaunafólksins

Að undanförnu hefur nokkuð verið rætt um stöðu þeirra lægstlaunuðu í þjóðfélaginu, þeirra sem lifa á lágmarkslaunum, örorku- og atvinnuleysisbótum, eða ellilífeyri. Svo virðist sem Pétur Blöndal alþingismaður, sem hefur tæpar fjögurhundruð þúsund krónur á mánuði fyrir störf sín á Alþingi, telji að þessi hópur hafi það ansi gott. Úr ræðustóli Alþingis upplýsti hann m.a. um fyrrum bónda sem nú væri kominn á eftirlaun og tækist ansi vel að lifa á u.þ.b. 90 þúsund krónum á mánuði og meira en það – hann leggði einnig fyrir af launum sínum.

Hvað Pétur Blöndal ætlast fyrir með óstaðfestum sögum af fólki sem safnar auðæfum á 90 þúsund króna mánaðarlaunum skal ósagt látið. Ljóst er að meinlætamenn þurfa ekki að eyða miklu fé. Stóumenn í Grikklandi eyddu t.a.m. litlu, tælenskir munkar borða ekkert sem þeim hefur ekki verið gefið og nunnur nútímans eyða ekki stórum upphæðum á bak við klausturveggina. Það er m.ö.o. tæknilegur möguleiki að útiloka sig frá mannlegu samfélagi og eyða litlu sem engu fé í einangrun sinni.

Þá er komið að kjarna málsins. Í umræðum um fátækt hér á landi virðast menn algjörlega hafa látið það undir höfuð leggjast að skilgreina fátæktina. Auðvelt er að grípa upphæðir úr lausu lofti og fullyrða að hægt sé að lifa sældarlífi fyrir þær. En hvað felst í því að vera fátækur? Félagsfræðingar hafa fjallað um fátækt og eins og gefur að skilja setja þeir enga verðmiða á mannsæmandi líf. Hins vegar telja þeir það fólk fátækt sem ekki getur tekið þátt í menningu eigin samfélags vegna fjárskorts.

Það gefur augaleið að samkvæmt þessari skilgreiningu er fátækt mismunandi eftir þeim löndum sem miðað er við. Menning margra ríkja samanstendur af því að fara á torgið eða kaffihúsið og sitja þar og spjalla um daginn og veginn. Ekki þarf mikið fé handbært til að taka þátt í þeirri menningu. Einnig eru til lönd þar sem menningin felst í viðburðum sem kalla á fjárútlát, leikhús- og bíóferðir, tónleika, myndlistarsýningar, öldrykkju á öldurhúsum, þátttöku í klúbbum o.s.frv.

Það er augljóst að Ísland tilheyrir síðarnefndu samfélagsgerðinni. Ef ætlunin er að taka þátt í menningu íslensks samfélags er nauðsynlegt að hafa fé á milli handanna. Staðreyndin er hins vegar sú að í góðæri Davíðs Oddsonar, Halldórs Ásgrímssonar og Péturs Blöndals, hefur æ stærri hópur verið útilokaður frá þátttöku í menningu samfélagsins. Sú þátttaka kostar sitt og þeir sem lifa á 90 þúsund krónum og hafa fyrir einhverjum öðrum að sjá en sjálfum sér, eiga nóg með að greiða fyrir húsnæði, mat ofan í sig og sína og föt utan á fjölskylduna. Hjá þessum hópum verður þátttakan í samfélaginu í lágmarki, hún einskorðast við það að afla tekna fjölskyldu sinni til handa.

Það má síðan færa rök fyrir því að leikhúsferðir og bíóferðir, áskrift að dagblöðum og sjónvarpsstöðvum, myndlistarsýningar og skemmtan ýmiss konar sé óþarfa pjatt. Nær væri fyrir fólk að sitja heima og leggja fyrir af 90 þúsund krónunum sínum. Þeir sem þannig tala eru hins vegar að boða stéttskipt samfélag þar sem hluti þess hefur efni á að taka þátt í menningunni en hinn hlutinn ekki, vegna fátæktar. Slíkt samfélag er hægt og rólega að skapast hér á landi og hafa stjórnvöld ekkert gert til að koma í veg fyrir þá þróun, síður en svo. Með aðgerðum sínum hefur ríkisstjórnin einmitt ýtt undir þessa þróun.

Það er nefnilega misskilningur hjá Pétri Blöndal að stór hópur landsmanna lifi hinu ljúfa lífi á lágmarkslaunum, taki fullan þátt í samfélaginu og menningu þess og leggi afganginn af 90 þúsund krónunum sínum fyrir. Staðreyndin er sú að Pétur og samstarfsmenn hans hafa búið til stóran hóp fátæks fólks sem ekki hefur efni á fullri þátttöku í samfélaginu. Verst af öllu er að Pétri finnst það fínt.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.