Að brjóta odd af oflæti sínu

Þessa dagana er um fátt meira skrafað en fyrirhugað stríð Bandaríkjanna í Írak. Stríðsvilji bandarískra ráðamanna hefur lengi legið fyrir og nú virðist sem þolinmæði þeirra sé á þrotum og þeir vilji fá sitt stríð og engar refjar. Hingað til hefur verið hægt að tala um gjá á milli Evrópu og Bandaríkjanna í afstöðunni til stríðs í Írak. Þó svo að helstu taglhnýtingar Bandaríkjamanna, Bretar, hafi stutt stríðið með ráðum og dáð, þá hafa flestallar Evrópuþjóðir verið með aðrar áherslur.

Þessi afstaða virðist hægt og rólega vera að breytast. Á dögunum skrifuðu hægrisinnaðir forsætisráðherrar átta Evrópuríkja undir bréf til stuðnings stefnu Bandaríkjamanna í Írak. Á miðvikudaginn bárust síðan fregnir af því að tíu Austur-Evrópuríki, Vilníushópurinn svokallaði, hefðu sent frá sér stuðningsyfirlýsingu við stríð í Írak. Gengu forsvarsmenn þessara ríkja jafnvel svo langt að lýsa yfir vilja sínum til þátttöku í stríðinu.

Ljóst er að Bandríkjastjórn er hægt og rólega að takast að þvinga æ fleiri ríki til stuðnings við sig. “Ef þú ert ekki með okkur ertu á móti okkur” sagði Bush forseti og æ fleiri ráðamenn virðast gera sér grein fyrir því hvað sú fullyrðing þýðir. Austur-Evrópuríkin ganga hvað lengst í sínum stuðningi, enda hafa þau mestra hagsmuna að gæta. Mörg þeirra hafa sótt um aðild að NATO eða eru þegar orðnir aðilar og ljóst er að stuðningur stórveldisins Bandaríkjanna skiptir þessi ríki gríðarlegu máli.

Ríkisútvarpið flutti frétt af yfirlýsingu Vilníushópsins á dögunum. Í lok fréttarinnar blandaði fréttamaðurinn eigin hugleiðingum við hugleiðingar fréttaskýrenda Daily Telegraph. Virðast fréttaskýrendurnir sammála um þá staðreynd að Frakkland og Þýskaland séu að einangrast í afstöðu sinni gegn stríði í Írak. Sérkennileg var hins vegar ályktun fréttamannsins í lok fréttarinnar: “Búist er við því að stjórnvöld í París brjóti odd af oflæti sínu fyrr en síðar og fylki sér undir merki stríðsríkjanna. Sömu sögu sé að segja um Hollendinga og Grikki en þeir fara með forystu í Evrópusambandinu um þessar mundir. Þá sitja Þjóðverjar eftir í fámennum hópi stríðsandstæðinga í röðum NATO-og Evrópusambandsríkja, hugsanlega einir síns liðs.”

Ekki er ljóst hvað fréttamaðurinn hefur fyrir sér í mögulegri breytingu á afstöðu Frakka, Grikkja og Hollendinga. Sérkennilegust er þó sú ályktun hans að forsvarsmenn þessara ríkja muni “brjóta odd af oflæti sínu” og láta af andstöðu sinni við stríð. Af þessum orðum fréttamannsins verður ekki annað skilið en að nú ættu leiðtogar þessara ríkja að hætta þvergirðingshætti sínum og fara að styðja Bandaríkjamenn eins og allir aðrir.

Þessar hugleiðingar koma í kjölfar frétta um Gallup-könnun sem gerð var í flestöllum vestrænum ríkjum. Í henni kom fram að yfirgnæfandi andstaða er við innrás í Írak í öllum vestrænum ríkjum, að Bandaríkjunum og Ástralíu undanskildum. Það er því ljóst að almenningur í Evrópu er á móti stríði Bandaríkjanna í Írak, hvort sem það yrði með stuðningi Sameinuðu þjóðanna eða ekki. Það vekur svo óneitanlega spurningar um lýðræðið í Evrópu nútímans sem virðist þrífst í skjóli, eða öllu heldur í skugga, bandarískrar heimsvaldastefnu. Nú þegar hafa þúsundir breskra hermanna verið sendar á vígvöllinn þrátt fyrir að megin þorri almennings í Bretlandi hafi lýst yfir andstöðu sinni við stríðið í áðurnefndum skoðanakönnunum eins og annars staðar í Evrópu. Hvernig fréttamaður Ríkisútvarpsins getur spáð því að leiðtogar nokkurra ríkja muni “brjóta odd af oflæti sínu” í kjölfar slíkra niðurstaðna er hins vegar í meira lagi sérkennilegt.

Ef einhverjir ættu að brjóta odd af oflæti sínu þá eru það Bandaríkjamenn. Þráhyggja þarlendra stjórnvalda gagnvart Írak og Saddam Hussein er slík að þeir eru komnir í þá aðstöðu að stríð er óumflýjanlegt. Nær væri að þeir létu af þvergirðingshætti sínum en leiðtogar Evrópuríkja sem fylgja skynsemi og vilja þjóða sinna í sinni afstöðu. Því þótt leiðtogar tíu Austur-Evrópuríkja hafi nú kysst vöndinn og lýst yfir vilja til þátttöku í drápum á Írökum, þá eru þegnar þeirra á öðru máli. Oflætið er því einhliða í þessu máli, það býr hjá Bandaríkjunum og stuðningsmönnum þeirra.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.