Slæm tíðindi frá Ísrael

Um þessar mundir horfir heldur ófriðlega til í heimsmálum. Stríðsvilji George W. Bush forseta Bandaríkjanna er ótvíræður og nýtur hann til þess, að því virðist, ótakmarkaðs stuðnings Tony Blair. Nýlegt bréf forsætisráðherra átta Evrópuríkja þar sem skilyrðislausum stuðningi er heitið við stefnu Bandaríkjanna, gerir horfur enn ófriðvænlegri. Það staðfestir ágreining innan Evrópusambandsins um utanríkisstefnu um leið og það er sorglegur vitnisburður fyrrum friðarsinnanum Vaclav Havel. Í upphafi vikunnar bárust einnig fregnir af því að hryðjuverkamaðurinn Ariel Sharon og flokkur hans hefðu unnið stórsigur í kosningum til ísrelska þingsins.

Sigur Likudbandalagsins gerir að engu þá veiku von sem kviknað hafði í brjóstum friðelskandi fólks, að með kosningunum í Ísrael væri hægt að feta af vegi ofbeldis. Verkamannaflokkurinn bauð fram til þings með þá skýru stefnu að boða tafarlaust til friðarviðræðna við Palestínumenn. Sú hugmyndafræði hlaut því miður ekki hljómgrunn og Ísraelar kusu ofbeldisstjórn Sharons yfir sig enn á ný.

Sharon hefur þegar sýnt hvað í honum býr. Hann er tilbúinn til þess að grípa til óhæfuverka, líkt og dæmin sanna. Stefna stjórnar hans hefur verið beint upp úr gamla testamentinu, auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. Raunar má segja að Ísrael sé bókstafstrúarríki í þeim skilningi að þessi boðskapur ræður utanríkisstefnu landsins, en gamla testamentið er helgirit í augum Gyðinga. Ísraelsstjórn hefur þannig rekið hreinræktaða hefndarstefnu þar sem öllum árásum er grimmilega svarað. Skiptir þá engu hverjir verða fyrir hefndaraðgerðunum, tilgangur þeirra er ekki síst að fæla hryðjuverkamenn frá frekari aðgerðum. Þetta er vonlaus stefna frá upphafi, enda hafa hryðjuverkamenn sýnt það og sannað að þeir telja mannslífum vel fórnandi fyrir málstaðinn.

Stjórn Sharons hefur einnig gjörsamlega kippt fótunum undan efnahag Palestínumanna og með því aukið á eymd þeirra. Markaðir eru jafnaðir við jörðu, aðdrættir eru gerðir ómögulegir og eigur Palesínumanna í Ísrael eru frystar eða þjóðnýttar. Þannig hafa Ísraelsmenn markvisst reynt að brjóta niður alla innviði palestínsks samfélags. Í því skyni hafa þeir beitt efnahagsaðgerðum, jarðýtum og skriðdrekum jöfnum höndum. Vegir eru grafnir í sundur til að torvelda samgöngur, landamærum lokað og skotið er á sjúkrahús. Hverjum manni má vera ljóst að stríðsástand ríkir í Palestínu með tilheyrandi hörmungum fyrir saklaust fólk.

Utanríkisstefna Bandaríkjanna hefur hins vegar orðið til þessa að sjónir heimsins hafa ekki beinst að hörmungunum í Palestínu. Með þráhyggju sinni gagnvart Íraksforseta hefur George W. Bush gefið Sharon nokkuð frjálsar hendur í morðæði sínu í Palestínu. Bandaríkjamenn styðja Ísrael með ráðum og dáð, þrátt fyrir að þar á bæ hafi menn gerst sekir um flest það sem Saddam Hussein er sakaður um. Ísrael hefur sannanlega komið sér upp gereyðingarvopnum í trássi við alþjóðasáttmála, en talið er að Ísrael eigi meiri kjarnorkuvopnabyrgðir en Indland og Pakistan til samans. Ísrael hefur hundsað ályktanir Sameinuðu þjóðanna um Palestínu og sýnt þegnum sínum fádæma ódæðuskap. Ekkert af þessu hefur hins vegar áhrif á utanríkisstefnu Bandaríkjanna, eða taglhnýtinga þeirra, Breta.

Það er ljóst að úrslit kosninganna fyrr í vikunni eru gríðarleg vonbrigði. Sharon hefur þegar hafnað friðarviðræðum við Arafat og gefið tóninn fyrir stefnu tilvonandi stjórnar. Verkamannaflokkurinn veit ekki í hvorn fótinn hann á að stíga, en hefur þó boðað öfluga andstöðu frá vinstri. Eftir fylgishrun hans á leiðtogi hans, Amram Mitzra, hins vegar erfitt uppdráttar.

Það ætti hverjum manni að vera ljóst að stefna ofbeldis og átaka hefur boðið skipbrot í Ísrael. Á meðan stríðsæsingamenn líkt og Sharon og Bush véla um, er þó ekki líklegt að þau augljósu sannindi nái eyrum ráðamanna.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.