Regnbogabarnið Smári

Á síðustu árum hefur umræða um einelti aukist mjög í þjóðfélaginu og er það vel. Einelti er fráleitt nýtt af nálinni en þjóðin hefur orðið æ meðvitaðri um skaðsemi þess og hversu mikið vandamál það er í samfélaginu. Einstaklingar standa oft eftir með brotna sjálfsmynd eftir áralangt einelti og það getur haft áhrif á líf þeirra til frambúðar. Það er því gleðiefni að frumkvöðlar líkt og Stefán Karl Stefánsson skuli fá hljómgrunn hjá þjóðinni með sinn þarfa málflutning gegn þessum vágesti. Í takt við aukna umræðu hafa æ fleiri stigið fram og lýst áhrifum eineltis á líf sitt. Nýjasta dæmið um slíka hugdirfsku er Smári Geirsson forseti bæjarstjórnar Fjarðarbyggðar.

Smári hefur að undanförnu komið fram í fjölmiðlum og lýst því hvernig náttúruverndarsinnar í Reykjavík hafa lagt hann í einelti undanfarna mánuði. Smári er, líkt og menn þekkja, einhver ötulasti baráttumaður fyrir því að ráðist verði í uppbyggingu álvers á Reyðarfirði með tilheyrandi virkjunum við Kárahnjúka til orkuöflunar. Smári hefur, að öðrum ólöstuðum, gengið manna lengst fram í báráttunni fyrir álverinu og virkjuninni. Í því skyni hefur hann ritað ótal greinar, komið fram í sjónvarps- og útvarpsþáttum og hefur verið tíður gestur í fréttatímum í umræðum um virkjanir.

Í þessum slag öllum hefur Smári oftar en ekki kveðið fast að orði, sakað andstæðinga sína um skammsýni, þvergirðingshátt, andstyggð á landsbyggðinni og sérstaka andstyggð á Austfirðingum. Í stuttu máli hefur gagnrýni Smára á andstæðinga virkjunar og álvers snúist um að þar fari lopapeysuklæddir Reykvíkingar sem ekki þekkja sanna innviði þjóðarinnar, þeir hugsi ekki um annað en atvinnuástand í borginni og sé sama um Austfirði – eingöngu ef þeir fá að þramma um hálendið við og við og koma við í sjoppu á Austfjörðum og fá sér pylsu, á milli þess sem þeir japla á hundasúrum og sötra fíflamjólk.

Smári hefur þannig ásamt mörgum öðrum virkjanasinnum gengið ötullega fram í þeirri viðleitni að grafa gjá á milli landsbyggðar og höfuðborgar og stillt þessu tvennu upp sem andstæðum. Nú ber svo við að Smári segist hafa orðið fyrir miklu aðkasti og jafnvel hótunum. Klárlega hlýtur hann að hafa kært það til lögreglu því ekki er hægt að líða mönnum að hóta andstæðingum sínum persónulega. Það er hins vegar það aðkast sem Smári hefur orðið fyrir sem helst leggst á sálina á honum þessa dagana.

Þannig hafa andstæðingar virkjana og álvers lagt Smára í einelti og raunar má skilja umkvartanir iðnaðarráðherra þess efnis að hún sé einnig fórnarlamb eineltis. Smári hefur þannig lýst því að hann megi varla heimsækja höfuðborgina lengur þá verði hann fyrir aðkasti – og vei honum ef hann stígur fæti á Austurvöll um leið og virkjanaandstæðingar mótmæla þar. Þá er voðinn vís. Þannig hafa náttúruverndarsinnar gert Smára Geirssyni lífið leitt og raunar má segja að ríkisstjórnin og Landsvirkjun hafi ekki farið varhluta af einelti þessu.

Það er ljóst að nú þarf að grípa í taumana. Fylgjendur álvers og virkjana hafa sýnt mikla sanngirni í sínum málflutningi. Þeir hafa flykkst umvörpum í félagsskap náttúruverndarsinna til þess að taka yfir lýðræðislega umræðu. Þeir hafa uppnefnt fólk sem er á öndverðum meiði við þá og sakað það um annarleg sjónarmið. Stjórnmálamenn á öndverðum meiði hafa þeir kallað hryðjuverkamenn, talibana og sitthvað fleira. En steininn tekur úr ef andstæðingar virkjana voga sér að láta Smára Geirsson heyra skoðanir sínar. Því einelti verður að ljúka.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.