Að tryggja hjá sjálfum sér

Margt hefur breyst í heiminum eftir að vestrænir ráðamenn áttuðu sig á því að ekki var öllum í heiminum vel við stjórnarstefnu þeirra og jafnvel væri til fólk sem væri tilbúið til hryðjuverka vegna hennar. Þetta gerðist líkt og allir vita þann 11. september árið 2001 og síðan þá hafa vestrænir stjórnendur, hvort heldur sem er fyrirtækja eða ríkja, þurft að breyta stjórnunarháttum sínum. Þetta á t.a.m. við um tryggingarfélög sem hækkað hafa iðgjöld sín í samræmi við það mat að áhætta á tjóni af völdum hryðjuverka hafi aukist.

Þetta hefur mörgum þótt súrt í broti og hefur þetta komið illa við pyngju margra fyrirtækja. Tryggingar eru nauðsynlegur hluti rekstrarkostnaðar hvers fyrirtækis og eins og allir vita tryggir maður ekki eftir á. Hingað til hefur hins vegar engin lausn fundist á þessum aukna kostnaði við tryggingar. Fyrirtæki hafa þurft að bera hann þegjandi og hljóðalaust, líkt og almennningur þegar iðjgjöld á tryggingum til hans hækka.

Nýlega bárust hins vegar fregnir af því að eitt stærsta fyrirtæki landsins, Landsvirkjun, hefði komið með krók á móti bragði. Landsvirkjun hefur borið mikinn kostnað af auknum iðgjöldum síðustu ára. Áður kostaði það fyritækið um 50 milljónir á ári að tryggja raforkumannvirki sín, en nú er sú tala komin í u.þ.b. 150 milljónir. Þrátt fyrir að Landsvirkjun sé vel rekið fyrirtæki sem skilar miklum hagnaði og þrátt fyrir að fyrirtækið sé nú að fara að leggja í stærstu framkvæmd Íslandssögunnar með virkjun við Kárahnjúka sem á að skila því gríðarlegum fjármunum – þrátt fyrir allt þetta sjá það allir í hendi sér að Landsvirkjun getur ekki borið þennan aukna kostnað til lengdar.

Í því skyni hafa stjórnendur fyrirtækisins lagt til nýstárlega leið til sparnaðar. Hún er einfaldlega sú að stofna eigið tryggingafélag. Í fyrstu gætu ýmsir spurt sig hvað sparast við það, eru iðgjöld ekki miðuð við áhættumat? En forráðamenn Landsvirkjunar sjá lengra en svo. Þeir vita sem er að þeirra eigið tryggingafélag mundi aldrei rukka fyrirtækið um sömu iðgjöld og óhlutbundnir aðilar gera. Hægt væri líka um vik með að lækka iðgjöld og veita ýmsa afslætti. Stjórnendur Landsvirkjunar telja þannig að iðgjaldahækkun undangenginna ára sé ekki í tengslum við aukna áhættu.

Þessar fréttir vekja upp nokkrar hugleiðingar. Eðli trygginga er slíkt að maður borgar öðrum fyrir að bera mögulegan skaða ef tjón hlýst. Í því skyni eru borguð iðgjöld og eru þau reiknuð út í tengslum við líkur á því að tjón verði á þeirri eign sem tryggð er. Hvernig þetta virkar ef Landsvirkjun tryggir hjá sjálfri sér er ekki alveg jafnaugljóst. Ef tjón verður á eignum Landsvirkjunar þá ber hið nýstofnaða tryggingafélag í eigu Landsvirkjunar skaðann og þar með Landsvirkjun sjálf. Í fljótu bragði gæti því virst sem það að stofna eigið tryggingafélag sé eingöngu fínt hugtak yfir það að hætta að tryggja.

Annað sem vekur athygli er það mat stjórnenda Landsvirkjunar að iðgjaldahækkun vegna meiri ógnar af hryðjuverkum sé ekki réttmæt. Gengur stjórnin þar með til liðs við þann fjölda mótmælenda sem segir ógnina af hryðjuverkum ofmetna og þær umfangsmiklu aðgerðir sem í gangi eru gegn hryðjuverkum séu í engu samræmi við raunverulega ógn. Vart mun líða á löngu þar til stjórn Landsvirkjunar mótmælir fyrirhugaðri innrás í Írak, enda séu þar á ferð óréttmætar aðgerðir gegn meintri hryðjuverkaógn sem eru í engu samræmi við tilefnið.

Ef þessi tilraun Landsvirkjunar gengur upp ætti það hins vegar að hvetja fyrirtæki og jafnvel einstaklinga til að feta í fótspor Landsvirkjunar. Vart líður þá á löngu þar til menn fara að tryggja íbúðir sínar og bifreiðar hjá sjálfum sér, enda yfirleitt þægilegra að eiga við sjálfan sig í samningum um iðgjöld og greiðsludreifingu – um það vitna greiðslukortareikningar landsmanna um hver mánaðarmót. Fari svo hefur Landsvirkjun sannarlega hrint af stað lofsverðu framtaki þar sem óþarfa milliliðir eru lagðir af á milli þess sem verður fyrir tjóni og þess sem greiðir fyrir það. Allt verður sameinað í eina hluthafa tryggingafélagsins.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.