Af tvöföldu siðferði

George Robertson framkvæmdastjóri Nató færði Írökum og heimsbyggðinni allri jólaboðskap sinn í dag. Með honum staðfesti lávarðurinn endanlega stöðu bandalagsins gagnvart Bandaríkjunum. Robertson og félagar hans í Nató eru ekkert annað en skósveinar Bandaríkjanna og hafa þeir nú stigið skrefið til fulls í þeim efnum.

Það sem Robertson hafði helst fram að færa var sú skoðun hans að Nató bæri “siðferðileg skylda” til þess að styðja Bandaríkin í stríðsaðgerðum gegn Írak. Með þessum orðum sínum hefur lávarðurinn tekið af öll tvímæli um það að skynsemdarröddum innan bandalagsins mun ekki takast að hafa hemil á forsetanum stríðsóða í Washington. Til að breiða hulu sjálfsblekkingar yfir ummæli sín bætti Robertson síðan við að það yrði ekki George Bush sem myndi taka ákvörðun um að fara í stríð – þá ákvörðun tæki Saddam Hussein einn.

Nokkrum vandkvæðum er bundið að finna orðum framkvæmdastjórans stað í raunveruleikanum. Það er löngu ljóst að Bush forseti ætlar sér í stríð við Írak, hvað sem tautar og raular. Öllum tilslökunum af hálfu Íraka hefur verið mætt með nýjum skilyrðum, allt til þess að gera stríð óhjákvæmilegt. Yfirmenn vopnaeftirlitsins kvarta yfir framferði Bandaríkjanna, en vopnaeftirlitsmenn hafa ekki fundið snefil af þeim gríðarlegu efnavopnabirgðum sem Bush og Blair hafa fullyrt að finna megi í Írak.

Yfirmenn Bandaríkjahers hafa gefið út tilskipun til sinna manna um að vera búnir undir átök og herflutningar hafa þegar átt sér stað til að herinn sé reiðubúinn þegar kallið kemur. Hvernig Robertson lávarður kemst að því að stríðsátök í Írak séu ekki undir Bush komin er því umhugsunarvert. Það hefur verið ljóst síðan í haust að Bandaríkjamenn ætla sér að ráðast inn í landið.

Ummæli framkvæmdastjóra Nató koma á sama tíma og allir helstu trúarleiðtogar heims gefa frá sér yfirlýsingar þar sem óskað er eftir friði. Hinum kristnu leiðtogum Nató er hins vegar ekki friður í huga. Þeir ætla sér að knésetja Íraksforseta, án þess að skeyta nokkuð um þau fjöldamörgu saklausu mannslíf sem fara munu forgörðum í leiðinni. Það er jólaboðskapur Bush og Robertsons; hnefaréttur hins sterka mun ráða. Slíkt er siðferði leiðtoga hins vestræna heims í upphafi 21. aldarinnar.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.