Framtíð Reykjavíkurlistans

Sú óvænta staða er nú uppi í borgarmálum að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur boðað þingframboð fyrir Samfylkinguna. Hún hefur tilkynnt að hún hyggist sitja áfram sem borgarstjóri en fyrir liggur að hún nýtur aðeins trausts eins af þeim þremur flokkum sem standa að Reykjavíkurlistanum. Það merkir að Ingibjörg Sólrún verður ekki borgarstjóri mikið lengur. Yfirlýsing borgarfulltrúa Framsóknarflokks og Vinstrigrænna tekur af öll tvímæli um að hún hefur ekki lengur meirihlutastuðning í borgarstjórn.

Lengi mætti deila um orð og efndir Ingibjargar Sólrúnar og þá leið sem hún valdi til að skipta um vettvang. Ef horft er til framtíðar er aðalatriðið hins vegar það sem Stefán Jón Hafstein sagði í DV í gær: Reykjavíkurlistinn er ekki Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Reykjavíkurlistasamstarfið mun lifa þó að hún hverfi yfir á annan vettvang.

Vitaskuld hefur trúnaðarsamband flokkanna þriggja beðið nokkurn hnekki seinustu daga en þann skaða má vel bæta. Samstaða flokkanna í borgarmálum er óbreytt og a.m.k. tveir þeirra hafa lýst yfir vilja til að halda áfram samstarfinu þó að skipta þurfi um borgarstjóra. Viðræður næstu daga hljóta að snúast um áframhaldandi samstarf. Óskandi væri að þær gengju hratt og vel.

Því verður ekki trúað að Samfylkingin kjósi nú að splundra samstarfinu vegna hagsmuna einnar persónu sem talar nú eins og það fari saman að vera sameiningartákn þessa samstarfs þriggja flokka, en berjast um leið gegn tveimur þeirra á landsvísu. Allir sjá að þetta er með öllu ósamrýmanlegt. Það getur ekki gilt það sama um leiðtoga slíks samstarfs og hvern óbreyttan borgarfulltrúa eða varaborgarfulltrúa. Eina lausnin er auðvitað að Ingibjörg Sólrún taki hagsmuni Reykjavíkurlistans og Reykvíkinga fram yfir eigin hagsmuni, leysi hnútinn og segi af sér sem borgarstjóri.

Hátt í 60% Reykvíkinga greiddi Reykjavíkurlistanum atkvæði sitt í kosningum í vor. Fráleitt er að halda því fram að meðal þessa fjölda finnist enginn hæfur arftaki Ingibjargar Sólrúnar. Þó að ekki sé deilt um hæfileika hennar væri persónudýrkun af því tagi yfirgengileg og ekki í takt við hugsjónir vinstrimanna. Maður kemur í manns stað og nú skiptir mestu að treysta stoðirnar og að flokkarnir þrír gangi hratt og vel í það verk að finna nýjan borgarstjóra.

Reykjavíkurlistinn snýst ekki og snerist aldrei um eina persónu. Hann snýst um hugsjónir meirihluta Reykvíkinga og auðvitað lifir hann áfram þó að Ingibjörg Sólrún hafi kosið að hasla sér völl á öðrum vettvangi.

áj/kj/kóp/ph/sp/sh/sj

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.