Um orðheldni og einkavæðingu

Nýlega bárust fregnir af því að heilbrigðisráðherra ætlaði að stíga enn eitt skrefið í átt til einkavæðingar í heilbrigðiskerfinu. Og það þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar um að slíkt yrði ekki gert. Að þessu sinni er ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur, heil heilsugæslustöð með manni og mús verður boðin út til einkaaðila. Þetta form hefur rutt sér til rúms undanfarin ár undir stjórn Framsóknarmanna í heilbrigðisráðuneytinu. Áður hafa aldraðir verið boðnir út, nú er röðin komin að heilli heilsugæslustöð í Salahverfi í Kópavogi.

Engin rök mæla fyrir því að ráðist verði í þetta breytta rekstrarform. Ekki er sparnaður af þessu, síður en svo. Til þess að hægt sé að bjóða út heila heilsugæslustöð þarf að vinna útboðsgögn sem gera grein fyrir andvirði allra tóla og tækja, allt niður í smæsta plástur. Vinnuframlag verður að meta til fulls og áætlanir um aðsókn og þjónustu. Þetta kostar gríðarlegan undirbúning og mikla fjármuni. Eftir að stöðin er komin í gagnið er það síðan lagt á herðar Landlæknisembættisins að hafa eftirlit með henni og því að rekstraraðilar standi við gerða samninga.

Það er því ljóst að ekki eru kostnaðarleg rök að baki þessu breytta rekstarformi. Þjónustan verður síður en svo skilvirkari, enda sinna menn sjúku fólki yfirleitt á svipaðan máta sama hver rekur vinnustað þeirra. Stjórnendur Heilsugæslunnar í Reykjavík voru sammála um það á síðasta kjörtímabil að núverandi rekstrarform, þ.e. að ríkið ætti og ræki heilsugæslustöðvar, væri hentugast, bæði kostnaðarlega og faglega. Allt annað mál er eignarhald á því húsnæði sem heilsugæslustöðvarnar eru staðsettar í. Á síðustu árum hefur færst í vöxt að heilsugæslan leigi húsnæði af einkaaðilum til langs tíma. Það hefur hins vegar engin áhrif á rekstur sjálfrar heilsugæslunnar.

Og þar er komið að kjarna málsins. Rekstur heilsugæslustöðva á fyrst og fremst að vera miðaður við þarfir sjúklinga. Einkaaðilar stunda rekstur til að ná hagnaði. Til þess að ná hagnaði af einni heilsugæslustöð umfram aðra þarf annaðhvort að bjóða upp á öðruvísi þjónustu þar eða auka framlög til hennar. Hingað til hefur það ekki verið vandamál í heilsugæslunni að hún hafi skilað rekstrarafgangi sem einkaaðilar gætu sóst eftir. Þvert á móti hefur framlag ríkisins ekki dugað fyrir rekstrinum og hann því skilað tapi. Enginn einkaaðili sækist eftir slíkum rekstri nema að forsendur breytist til muna, annaðhvort þá með breyttri þjónustu eða auknum fjárframlögum.

Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra hefur nú gengið á bak orða sinna um að ekki verði farið út í frekari einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu á meðan hann situr í ráðherrastóli. Það breytir engu þó að hann fari út í þá vafasömu orðsifjafræði að einkarekstur sé ekki það sama og einkavæðing. Það sýnir kannski enn frekar hversu lágt ráðherrann metur orð og orðheldni.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.