Um Hafstein og Hussein

Mikið er rætt og ritað þessa dagana um mögulega nauðsyn þess að ráðast inn í Írak. Fáir velkjast í vafa um löngun Bush Bandaríkjaforseta til innrásar og víst er að Tony Blair er honum ekki eftirbátur í stríðsæsingnum. Nýlega skiluðu Írakar skýrslu um vopnaframleiðslu sína og -eign til Sameinuðu þjóðanna. Að kröfu Bandaríkjanna fengu kjarnorkuveldin fimm skýrsluna ein til yfirlestrar og á yfirlýsingum Bush og Blairs þessa dagana er ljóst hvers vegna það var. Enginn getur hrakið þær fullyrðingar að skýrslan gefi tilefni til árásar þegar hún hefur ekki enn verið birt opinberlega.

Víða um heim sitja menn nú á rökstólum og vega og meta kosti innrásar. Einn slíkur er Hafsteinn Þór Hauksson sem skrifar á vefrit ungra sjálfstæðismanna, Frelsi. Í nýlegri grein veltir hann upp þeirri spurningu hvort nauðsynlegt sé að ráðast á Írak. Hafsteinn gerir, með kaldri nákvæmri vísindamannsins, grein fyrir þeim markmiðum sem ætlunin er að ná með innrás. Það er raunar umhugsunarefni að menn geta setið kaldir og yfirvegaðir og reiknað út nauðsyn þess að drepa fjölda manns í fjarlægum heimshlutum.

Hafsteinn telur að markmið með innrás í Írak séu tvö, afvopnun landsins og frelsun þess. Hinu fyrra telur hann einsýnt að ná megi án innrásar. Sameinuðu þjóðirnar verði að standa fast á sínu og sýna Saddam Hussein hver ræður, en það sé gerlegt. Hussein verði hins vegar að sýna “algera auðmýkt” til að markmiðinu sé náð. Það er sem sagt ekki nóg að Hussein opni allar sínar dyr og dyngjur, hann verður að sýna algera auðmýkt, væntanlega þá í kristilegum skilningi. Það er ekki beysinn grundvöllur utanríkisstefnu að fyrsta skilyrðið sé alger auðmýkt andstæðingsins.

Á grein Hafsteins er ekki annað að skilja en að innrás sé nauðsynleg til þess að frelsa Írak frá Saddam Hussein. Máli sínu til stuðnings telur hann upp fjölda þeirra óhæfuverka sem Hussein hefur sannarlega unnið. Í þeirri upptalningu er athyglisvert að sjá t.a.m. innrás í Íran. Að sögn Frelsispennans er hún dæmi um voðaverk Husseins sem nauðsynlegt er að koma í veg fyrir í framtíðinni með því að frelsa Íraka undan stjórn hans. Í því ljósi er ekki úr vegi að rifja það upp að sú innrás var gerð með fullum stuðningi Bandaríkjamanna. Bandarísk stjórnvöld studdu Hussein með vopnum og fjármagni og hvöttu hann óspart til frekari átaka við Írani. Raunar er augljóst að Saddam Hussein væri ekki við völd ef Bandaríkjamenn hefðu ekki stutt hann jafnrækilega og raun ber vitni.

Jafnframt telur Hafsteinn upp fjölda glæpa sem Hussein er áreiðanlega sekur um. Það er hins vegar meira en ljóst að hann er einungis einn af fjölmörgum harðstjórum heimsins. Þeir sem telja upp glæpi hans sem rök fyrir því að ráðast inn í Írak með öllu því mannfalli sem því fylgir, hljóta um leið að styðja slíkar innrásir í önnur lönd þar sem harðstjórar ráða ríkjum. Þá mega stjórnvöld í Kína, Sádi-Arabíu, Burma, Úsbekistan, Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Quatar og fleiri ríkjum fara að vara sig, sem og helsti stuðningsmaður Bandaríkjanna Musharraf í Pakistan. Hins vegar er ljóst að með slíkri utanríkispólitík er einungis verið að breikka þá gjá sem er á milli menningarheima. Þeir sem telja sig þess umkomna að gegna hlutverki alheimsdrottnara ættu ekki að vera hissa þegar þeir sem drottnað er yfir bregðast illa við.

Grein Hafsteins Þórs Haukssonar er hins vegar hefðbundin fyrir röksemdir þeirra sem vilja einfaldar lausnir á öllum málum. Hér eru á ferð nákvæmlega sömu rökin og höfð voru uppi þegar árás á Afganistan var rökstudd. Fyrir þá sem styðja slíkar lausnir, og er um leið sama þó fjöldi manns liggi eftir í valnum, væri hollt að kynna sér ástandið þar í landi um þessar mundir. Staða kvenna hefur ekkert batnað, sem þó var ein helsta röksemdin fyrir árás, og deilur í landinu hafa síst minnkað. En í svarthvítum heimi Frelsispennans og skoðanabræðra hans á ekki að gefa sér tíma til að rannsaka afleiðingar gjörða sinna. Þar vilja menn skjótar lausnir svo hægt sé að snúa sér að næsta vandamáli.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.