Enn ein náttúruperlan í hættu

Flestir þeir sem lagt hafa leið sína í Héðinsfjörð munu sammála um það að fegurri fjörð getur vart að líta. Héðinsfjörður, sem liggur á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar, hefur staðið í eyði síðan árið 1951 en í upphafi 20. aldar bjuggu um 50 manns þar á fimm bæjum. Fjörðurinn er vinsæll áningarstaður ferðamanna, silungsveiði er þar góð, berjaland er þar geysigott og nýta Siglfirðingar sér það mjög. Göngumenn á þar oft og tíðum og líkt og segir á upplýsingavef Siglufjarðarbæjar er fjörðurinn sagður "mjög fagur á góðum degi og hin einstæða ásýnd eyðifjarðarins lætur engan ósnortinn."

Svo virðist hins vegar sem ásýnd eyðifjarðarins hafi látið einhverja ósnortna, í það minnsta eru menn nú í óðaönn að skipuleggja eyðileggingu þeirrar ásýndar. Fyrirhuguð göng frá Siglufirði yfir í Héðinsfjörð og síðan áfram yfir í Ólafsfjörð munu eyðileggja Héðinsfjörð. Þar fer einstakt landsvæði. Nálægð Héðinsfjarðar við Siglufjörð og Ólafsfjörð gerir það að verkum að fjörðurinn býður upp á einstaka möguleika sem ferðamannasvæði. Þar er fjölbreytt fuglalíf og margt við að vera. Fáir ferðamenn munu hins vegar fást til þess að dvelja við þjóðvegi í frístundum sínum.

Svo virðist sem núverandi ríkisstjórn meti náttúrverðmæti neðar öllu. Í fyrirætlunum ráðamanna um Kárahnjúkavirkjun eru þau verðmætu landsvæði sem þar verður sökkt undir vatn ekki metin til krónu. Hið sama má segja um Héðinsfjörð. Vissulega mun það gagnast Siglfirðingum að geta skotist til Akureyrar á skemmri tíma en áður. Þegar undirritaður bjó á Siglufirði þótti hins vegar ekki tiltökumál að skreppa til Akureyrar og gjarnan gerð dagsferð úr því. Þeir 1500 íbúar sem nú byggja Siglufjörð þurfa hins vegar að eyðileggja Héðinsfjörð til að sinna erindum sínum.

Vel má vera að framkvæmdin sé þjóðhagslega hagkvæm og vissulega mun hún nýtast Siglfirðingum. Kannski verður hún til þess að auka strauminn til fjarðarins frekar en frá honum, en á árum undirritaðs á Dalvík mátti glöggt finna að straumurinn lá frekar frá Siglufirði. Byggðamál eru vissulega vandamál og einhverjar lausnir þarf að finna á þeim. Betri samgöngur skipta miklu máli og þannig munu fyrirhuguð Héðinsfjarðargöng klárlega nýtast Siglfirðingum. Það vantar hins vegar algjörlega að menn geri upp við sig hvort rétt sé að fórna dýrmætum náttúruperlum til þess.

Göngin í gegnum Héðinsfjörð snerta vissulega Siglfirðinga öðrum fremur. Þau eru hins vegar einnig málefni allrar þjóðarinnar, enda eigum við öll tilkall til náttúruperlna landsins. Á síðustu árum hefur allt borið að sama brunni, náttúran hefur fengið minna vægi. Það skýtur skökku við á tímum sjálfbærrar þróunar þar sem náttúran á alltaf að njóta vafans. Það verður því að biðja um að náttúra Héðinsfjarðar og þeir möguleikar sem nýting hennar felur í sér séu vandlega ígrundaðir áður fjörðurinn verður eyðilagður.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.