Friðarverðlaun á villigötum

Friðarverðlaun Nóbels verða afhent í dag. Að þessu sinni er það Jimmy Carter, fyrrum Bandaríkjaforseti, sem hlýtur verðlaunin. Margt misjafnt má segja um Carter og hann hefur löngum verið talinn heldur litlaus forseti. Síðustu árin hefur hann hins vegar sinnt friðarviðræðum og komið að ýmsum deilum sem samningamaður. Svo virðist hins vegar sem með því að tala fyrir friðsamlegum lausnum eftir að hann komst úr ábyrgðarstöðu, þurrkist út þær aðgerðir sem hann stóð fyrir í forsetatíð sinni.

Breska blaðið The Guardian fjallar um sögu Nóbelsverðlaunanna í pistli síðastliðinn laugardag. Þar kemur fram að svo að segja frá upphafi friðarverðlaunanna, þau fyrstu voru veitt árið 1900, hafa ýmsar tilnefningar komið fram sem orka tvímælis. Árið 1906 fékk Theodore Roosevelt þau t.a.m., en hann fór aldrei í grafgötur með aðdáun sína á stríði. Árið 1938 gat nefndin ekki komið sér saman um hvor ætti að fá verðlaunin, Gandhi eða Hitler, og því var ákveðið að veita Flóttamannastofnun Nansens þau. Það er því misjafn sauður í friðarverðlaunafénu.

Jimmy Carter þykir kannski meinlaus og sannast sagna hefur hann síðastliðin ár varla sést í fjölmiðlum öðruvísi en að tala fyrir friði. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að þegar hann var í þeirri stöðu að geta vélað um málin, stóð hann fyrir mörgum vægast sagt vafasömum aðgerðum. Hann studdi t.a.m. ætíð Kontraskæruliða í Nicaragua, dældi í þá fé og veitti þeim þjálfun hjá bandarískum hermönnum. Árið 1980 sendi hann Richard Holbrooke til S-Kóreu og studdi hann baráttu stjórnvalda þar gegn verkamönnum og námsmönnum sem kröfðust lýðræðis. Um þrjúþúsund manns létust þegar herinn barði mótmælin niður með stuðningi Bandaríkjanna.

Carter kom líka að málum í Afghanistan. Það var með hans heimild sem CIA stóð fyrir leynilegum aðgerðum þar. Upp úr henni varð uppreisn múslima, mojahedin, að veruleika og samskiptum var komið á við Sádi-Araba sem studdu baráttuna með vopnum, herliði og peningum, m.a. undir stjórn Osama bin Laden. Eftir að Víetnamar sigruðu Rauðu Khmerana í stríði, flýðu Pol Pot og hans menn til Tælands. Þar vígvæddu Bandaríkin undir stjórn Carters þá á ný og gerðu þeim þannig kleift að standa fyrir einum mestu fjöldamorðum sögunnar. Eftir að her Indónesíu hernam Austur-Tímor naut hann stuðnings Bandaríkjamanna undir stjórn Carters. Þar voru framin skelfileg fjöldamorð. Carter sjálfur var síðan í fararbroddi baráttu fyrir því að fá William Calley, foringja í bandaríska hernum, leystan úr haldi. Sá var dæmdur fyrir hin skelfilegu fjöldamorð Bandaríkjamanna í My Lai í Víetnam.

Það er því af nógu að taka til að gagnrýna valið á Carter sem friðarverðlaunahafa og umhugsunarvert hvers vegna hann verður fyrir valinu. Það er ekki óeðlilegt að álykta sem svo að andstaða hans við hernaðaraðgerðir í Írak hafi eitthvað með valið að segja. Í það minnsta hlýtur Björn Bjarnason að vera miður sín yfir verðlaunaveitingunni, enda hefur hann ásakað Steingrím J. Sigfússon og aðra þá sem ekki vilja varpa sprengjum á Íraka um að styðja Saddam Hussein. Jimmy Carter fyllir klárlega þann flokk. Sú staðreynd að nefndin íhugaði að veita George W. Bush og Tony Blair verðlaunin sameiginlega bendir þó ekki til þess að andstaðan við innrás í Írak hafi ráðið miklu við valið á Carter.

Það er hins vegar tími til kominn að menn endurskoði friðarverðlaun Nóbels. Til hvers er verið að veita þau? Á að veita þau fólki sem vegna stöðu sinnar er áberandi á heimsvísu og gerir eitthvað sem má tengja baráttunni fyrir friði? Eða á að veita þau sönnum baráttumönnum sem helga líf sitt baráttunni fyrir friði? Hvort eru þetta almannatengslaverðlaun eða friðarverðlaun?

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.