Hvað ef …

Það er til siðs á Múrnum að hefja reglulega nýja greinaflokka. Margir þeirra lifa við góðan orðstír en aðrir deyja drottni sínum eftir fáar greinar, sumir lifa aldrei lengur en eina grein og uppfylla því trauðla skilyrði greinaflokka. Allt um það er hér gerð enn ein tilraunin til að hefja greinaflokk, enda augljóst hagræði í því að þurfa ekki að finna nýtt viðfangsefni í hvert skipti sem ráðist er í það vandasama verk að rita grein á Múrinn. Þetta hafa sumir ritstjórnarmeðlimir nýtt sér öðrum fremur.

Í sagnfræðinni er til undirgrein sem gæti kallast "Hvað ef – saga". Hún gengur út á það að skrifa söguna í þáskildagatíð, sumsé ekki greina frá því sem hefur gerst, heldur því sem gæti hafa gerst ef einhverjir atburðir hefðu orðið öðruvísi en þeir urðu. Þar sem Múrinn aðhyllist sögulega afstæðishyggju og viðurkennir fáar sem engar staðreyndir, er ekki seinna vænna en að einhenda sér í það verka að skrifa hvaðefsöguna og hefst hún á fyrri hluta 19. aldar.

Eftir margra alda stórveldisskeið var svo komið fyrir Noregi að landið laut stjórn Danakonungs. Norðmenn eru eins og alþjóð veit, syngjandi glatt fólk, en það fór ekki vel í þá að lúta stjórn nágranna sinna. Hugguðu þó margir sig við þá staðreynd að í það minnsta voru það Danir sem réðu lendum þeirra, ekki þeirra næstu nágrannar Svíar. Sú huggun varð skammvinn því árið 1814 færðist Noregur undir yfirráðasvæði Svíakonungs. Hér eru á ferð fullyrðingar sem ýmsir myndu kalla staðreyndir og hvaðefsagan ekki farin að láta til sína taka.

Þegar Svíar tóku yfir stjórn Noregs gleymdist hins vegar að Danir áttu aðrar lendur sem hefðu átt að fylgja með í kaupunum. Ef Svíar hefðu munað eftir Íslandi þetta örlagaríka ár, er eins víst og að staðreyndir eru ekki til, að Ísland hefði færst undir vald Svíakonungs. Hvað ef það hefði gerst?

Augljóslega hefði margt farið á annan veg hér á landi. Varla hefðu Svíar verið jafnörlátir á sjálfsstjórn og Danir og erfitt er að sjá að Íslendingar hefðu öðlast sjálfstæði. Svíþjóð var ekki hernumin í seinni heimsstyrjöldinni þannig að Íslendingar hefðu ekki getað laumast undan stjórn þeirra á meðan þeir sátu fangnir heima við. Áhugavert er að velta því fyrir sér hvað hefði gerst í seinni heimsstyrjöldinni ef Ísland hefði verið hluti af hinni hlutlausu Svíþjóð. Hefðu bandamenn engu að síður hernumið landið og brotið þannig gegn hlutleysi Svía? Eða Þjóðverjar? Hefðu Svíar dregist inn í átökin og látið hlutleysi sitt fyrir róða?

Þetta eru í sjálfu sér áhugaverðar spurningar og verður þeim seint svarað. Borðliggjandi er hins vegar að ef Svíar hefðu munað eftir Íslendingum árið 1814 hefði greinaflokkurinn "Merki Svíar" aldrei orðið til hér á Múrnum. Við hefðum hins vegar haft nóg af merkilegum löndum okkar til að velta okkur upp úr, bæði Abba og Frú Pettersson. Við ættum íþróttamenn á heimsmælikvarða og væri nokk sama hvernig Stoke gengi í boltanum, hvað þá Brentford, að ekki sé talað um Hibernian í skosku deildinni. Við kynnum þjóðsönginn okkar og íklæddumst gulu og bláu við öll tækifæri, jafnvel bláum bleiserjökkum með gyllta hnappa — og ættum auðvitað Volvoregnhlíf.

Augljóst er að margir myndu betur sætta sig við þá heimsmynd sem hér hefur verið dregin upp en þá sem við okkur blasir á Íslandi í nú, þó ekki væri nema vegna þeirrar staðreyndar að Samfylkingin hefði aldrei orðið til. Þess í stað gætum við lesið Sjöwall og Wahlö á frummálinu, að ekki sé nú minnst á Astrid Lindgren. Mögulegt er jafnvel að við kynnum fleiri Norðurlandamál en okkar eigið. Möguleikarnir eru óþrjótandi og er það einn helsti kosturinn við hvaðefsöguna, ímyndunaraflið ræður ferðinni.

Nú er að sjá hvort þessi grein er upphafið að greinaflokki eða hvort um hana verður skrifuð hvaðefsöguleg grein þar sem því verður velt upp hvað gerst hefði ef greinaflokkur hefði orðið til.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.