Blöndælsk sjálfshjálp

Pétur Blöndal er maður einhamur. Fáu hefur hann áhuga á öðru en peningum og hvernig hægt sé að fjölga þeim í vösum þeirra sem eiga þá fyrir. Hann er þekktastur fyrir það að vera þveri þingmaðurinn í Sjálfstæðisflokknum, sá sem fer sínar eigin leiðir. Að vísu skiptir engu þó hann sé í mörgum grundvallaratriðum algerlega ósammála stefnu flokksins, hann fylgir honum að málum. En hann er þessi sem af og til er með einhvern derring. Og hlýtur mikið lof og virðingu fyrir. Svo er nú komið fyrir Sjálfstæðisflokknum að ekki þarf annað en að vera stundum ósammála forystunni til að hljóta dýrðarljóma fyrir.

Pétur er um þessar mundir í prófkjörsslag þar sem hann telur að stefna Sjálfstæðisflokksins sé svo góð að honum beri að berjast fyrir henni inni á þingi. Í þeim prófkjörsslag hefur hann lítið gert úr því að draga úr sérstöðu sinni í Sjálfstæðisflokknum, þvert á móti hefur hann frekar en hitt haldið henni á lofti. Til að mynda hefur hann lagt fram hugmyndir í skattamálum sem ganga þvert gegn þeirri stefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur fylgt þau bráðum tólf ár sem hann hefur stýrt fjármálaráðuneytinu.

Hugmyndir Péturs eru róttækar. Hann vill fella niður allan persónuafslátt og koma á flötum 18% tekjuskatti á alla. Þetta telur hann heillavænlegt skref fyrir íslenskt launafólk. Hugmyndin á bak við hærri skatta á hærri laun er sú að þeir sem hærri launin hafa megi missa stærri hluta af sínum launum til samneyslunnar, en þeir sem lægri launin hafa. Flatir skattar, oft nefndir nefskattar, taka ekkert tillit til þeirra launa sem viðkomandi hefur, allir greiða sömu upphæðina. Því lægri sem launin eru, því hærra hlutfall er skatturinn af heildarlaunum, því hærri laun því lægra hlutfall.

Leikir menn í skattafræðum hafa því oft haldið því fram að nefskattar gagnist hálaunafólki best. Pétur Blöndal er hins vegar lærður mjög í þessum efnum og veit betur. Hann fullyrðir nefnilega að flatur 18% tekjuskattur yrði til þess að hækka lægstu laun! Raunar er ótrúlegt að menn skuli ekki hafa séð þetta fyrr, því eins og Pétur bendir á verður þetta til þess að þeir sem verst kjörin hafa krefjast launauppbótar sem verður til þess að kjör þeirra batna. Því eins og allir vita þarf láglaunafólk ekki annað en að biðja um betri kjör og atvinnurekendur bregðast skjótt við.

Það er raunar synd að Pétur Blöndal skuli ekki helga sig verkalýðsbaráttu eða baráttumálum bótaþega. Ef hann aðeins gæti bent þessum aðilum á að sækja sér betri kjör þá yrði líf þeirra skárra. Svo hljóðar hin blöndælska sjálfshjálp, sæktu það sem þú átt inni og þér verður það umsvifalaust veitt. Það verður gaman að fylgjast með Pétri í þeim verkföllum og mótmælum sem munu verða þegar launafólk sækir uppbótina sína. Fremstur í flokki mun Pétur fara fyrir kröfugöngum, því hann veit sem er að það ber að veita fólki það sem það biður um. Ef verkalýðshreyfingin hefði bara áttað sig á þessu fyrr!

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.