Ofsóttur minnihlutahópur

Oft er það nefnt sem dæmi um siðferðisstig samfélaga hversu vel komið er fram við smælingja þess. Búa þeir við sæmileg lífskjör, eru þeir studdir í gegnum lífið eða jafnvel ofsóttir og gert lífið leitt hvar sem þeir koma. Enginn þarf að velkjast í vafa um að víða er pottur brotinn í þessum málum hér á landi. Margir eiga vart til hnífs og skeiðar og geta ekki lifað við sómasamlegar aðstæður. Hér á landi eru þó ekki margir þjóðfélagshópar sem beinlínis eru ofsóttir og lagðir í einelti. Undantekningin á því er hinn ofsótti minnihlutahópur Framsóknarmenn.

Líkt og sjá mátti í bakþönkum Þráins Bertelssonar í Fréttablaðinu í gær er ekkert grín að vera Framsóknarmaður. Svo virðist sem hinir ólíklegustu menn geti tekið það upp hjá sjálfum sér að gagnrýna gerðir Framsóknarmanna, fátt sem þeir veita sjálfum sér er ógagnrýnt. Sérstaklega virðist formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs vera skæður í eineltinu. Steingrímur J. Sigfússon skirrist ekki við að tukta annan stjórnarflokkinn til með endalausum ásökunum um sérhagsmunagæslu og mun það fátítt í sögunni að stjórnvöld séu ofsótt jafn grimmilega af einum manni.

Þráinn þekkir það enda vel hversu mjög Framsóknarmenn eiga undir högg að sækja. Það virðist sama hverju þeir finna upp á, hvern þeir ráða sem seðlabankastjóra, hverja þeir æviráða á heiðurslaun listamanna, hverjum þeir selja banka þó þeir eigi ekki fyrir því; allt er þetta gagnrýnt og það smáatriði tekið með í reikninginn að þar séu Framsóknarmenn að hygla Framsóknarmönnum. Líkt og Þráinn bendir á er slíkt dæmi um úreltan hugsunarhátt. Í nútímaþjóðfélagi á ekki að gagnrýna fjármagnsstreymið, menn vita vel að það streymir þangað sem þess er mest þörf og allar tilraunir til að hafa áhrif á það eru óeðlileg afskipti hins opinbera.

Já, það er ekkert grín að vera Framsóknarmaður. Flokkurinn hefur setið í ríkisstjórn í tæp átta ár og síðan vogar stjórnarandstaðan sér að gagnrýna gjörðir hans. Svo virðist sem Framsóknarmenn geti hvergi óhultir vélað um hlutina án þess að þurfa að svara gagnrýni. Það er óþolandi að þess sé krafist af stjórnvöldum að þau standi ábyrgð gjörða sinna. Það eru ofsóknir og líkt og Þráinn Bertelsson bendir á jafnast þær fyllilega á við ofsóknir nasista á hendur Gyðingum. Þráinn virðist samsama sig mjög með Gyðingum enda leggur hann til merkingar á klæði Framsóknarmanna sem svipar mjög til Davíðsstjörnunnar sem Gyðingar þurftu að bera á yfirráðasvæði nasista. Það er gott að Þráinn er ekki eini maðurinn í heiminum sem þurft hefur að sæta ofsóknum og getur samsamað sig öðrum.

Ljóst er á öllu að aðgerða er þörf til að vernda Framsóknarmenn fyrir þessum skipulögðu ofsóknum. Það er spurning hvort nýstofnuð samtök gegn einelti geta ekki einbeitt sér að því verðuga verkefni að sjá til þess að Framsóknarmenn fái að vera í friði með sitt. Það er lágmarkskrafa.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.