Haukþing á bergi

Í erfikvæði sem Jónas Hallgrímsson orti um Bjarna Thorarensen harmaði hann að Bjarni hefði ekki lifað það að sjá Alþingi endurreist á Þingvöllum sem "haukþing á bergi". Þess í stað hefði amtmaðurinn þurft að horfa upp á "hrafnaþing kolsvart í holti" eftir að Reykjavík varð fyrir valinu sem þingstaður. Jónas útskýrði ekki frekar hvað hann átti við með haukþinginu, enda óþarfi því auðvelt er að sjá hina frjálsu hauka fyrir sér á hinum fornu Þingvöllum. Það er hins vegar öruggt að Jónas sá ekki fyrir sér þá samkundu sem daglega fer fram í höfuðborg Bandaríkjanna, þar sem annars konar haukar voma yfir hverju skrefi ríkisstjórnar Íraks í von um að hún misstígi sig svo að langþráð blóðbaðið geti hafist.

Ekki þurfti lengi að bíða eftir sönnun þess að Bandaríkjastjórn skilur hlutina öðrum skilningi en aðrar þjóðir þegar kemur að málefnum Íraks. Varla höfðu Írakar fyrr gengist undir skilmála ályktunar Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um vopnaeftirlit en haukarnir í Washington lýstu því yfir að þeir hefðu miklar efasemdir um að Hans Blix, sem fer fyrir liði vopnaeftirlitsmanna, réði við það hlutverk sem honum væri ætlað í Bagdad. Verkefni Blix var ekki hafið þegar bandarískir ráðamenn, sem ættu að vera hvað ánægðastir með ferð hans til Íraks, höfðu grafið undan því trausti sem honum er nauðsynlegt til að sinna starfi sínu. Ástæða þess er einfaldlega sú að Bandaríkjastjórn vill hafa vaðið fyrir neðan sig komi nú í ljós að Írakar hafi ekki þróað efnavopn. Þá er einfaldlega hægt að segja "þetta sögðum við alltaf, Blix var ekki treystandi" og hefja sínar árásir.

Blix hafði verið einn dag í Írak þegar Írakar skutu á flugvélar Breta og Bandaríkjanna yfir flugbannssvæðum í suðurhluta landsins. Þetta eru ekki óalgengir atburðir í Írak, enda hafa Bretar og Bandaríkjamenn gert svo að segja daglegar loftárásir á landið síðustu árin. Nú ber hins vegar svo við að Bandaríkjamenn líta á þetta sem skilyrðislaust brot á samþykkt Öryggisráðsins. Erfitt er að koma þessu heim og saman, enda deila fáir þessari skoðun Bandaríkjastjórnar. Í það minnsta hefur engin ríkisstjórn sem á fastafulltrúa í Öryggisráðinu tekið undir þetta sjónarmið. Það má líka segja að með þessu hafi Írakar ekki verið að fela vopn sín, síður en svo, erfitt er að finna meiri opinberun á vopnum en þá að nota þau.

Það er hins vegar ljóst á öllu framferði Bandaríkjamanna eftir margra mánaða þref um vopnaeftirlit í Írak að niðurstaða þess skiptir þá litlu. Geti þeir ekki þvingað bandalagsþjóðir sínar til árása á Írak eftir "brot" gegn samþykkt Öryggisráðsins, bíða þeir einungis eftir niðurstöðum eftirlitsins. Séu þær niðurstöður þeim ekki að skapi verður látið sverfa til stáls. Og þá munu þúsundir falla enn á ný til þess að fullnægja hagsmunum Bandaríkjamanna í fjarlægum heimshlutum. Því um það snýst málið og ríkisstjórn Íslands hefur staðið dyggan vörð um þá hagsmuni.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.