Bókmenntakönnun Múrsins 2001: Til hamingju, Þórbergur!

Eins og lesendum Múrsins er í fersku minni ákvað Múrinn að hvetja til gáfulegrar bókmenntaumræðu í landinu með því að efna til bókmenntaverðlauna Múrsins. Var öllum lesendum frjálst að taka þátt í könnun um málið. Sex alvaldar tilnefndu bækurnar en lesendur máttu einnig koma með tilnefningar.

Er skemmst frá því að segja að viðbrögðin létu ekki á sér standa. Allir ljósleiðarar urðu rauðglóandi og Múrarar hafa verið að telja atkvæði vikum saman. Eins og venjulega lét hinn kraftmikli lesendahópur Múrsins ekki að sér hæða. Margir gáfu skít í tilnefningar alvaldanna og héldu fram því sem þeim sýndist. Aðrir kusu bæði bók sem hafði verið tilnefnd og tilnefndu fleiri sjálfir. Sumir kusu eina bók fjórum sinnum. Í stuttu máli var engin hemja á því hvað gerðist í þessu kjöri. Telst nú sannað að rafrænar kosningar þurfa alls ekki að vera á kostnað sérviskunnar.

Tilnefndar bækur voru sex: „Steinn Steinarr. – Leit að ævi skálds – seinna bindi“ eftir Gylfa Gröndal, „Rafeindatækni í 150 ár og þættir úr sögu rafeindavirkja” eftir Þorstein Óskarsson, „Ofvitinn“ eftir Þórberg Þórðarson,. „The Control Revolution“ eftir James R. Beniger, „Fram í sviðsljósið. Endurminningar Halldórs G. Björnssonar“ eftir Björn Inga Hrafnsson og „Þegar Brandur litli týndist“ eftir Sven Nordqvist. Keppni þessara bóka var jöfn og spennandi. Kötturinn Brandur tók fyrst í stað forystu í könnuninni en svo fóru aðrar bækur að koma sterkar inn.

Lesendur nýttu sér einnig svigrúm til að tilnefna fleiri bækur og rökstyðja valið. Meðal bóka sem hlutu tilnefningu voru:

„Anna“ eftir Guðberg Bergsson. Rökstuðningur: Þessa bók endurskrifaði Guðbergur Bergsson handa okkur því við vorum svo vitlaus þegar hún kom út fyrst að við gátum ekki skilið hana. Hvað á ég að gera við gömlu bókina sem ég á en er óendurskrifuð? Á ég að henda henni með leynd?

„Matur og drykkur“ eftir Helgu Sigurðardóttur. Rökstuðningur: Fyrst þarf maður nú að borða áður en maður fer að lesa (eða senda tölvupóst) og má segja að hún hafi virkilega fleytt mörgum yfir hungurmörkin í lífinu eftir heimaþjónustuna. Án hennar kynnum við ekkert, gætum ekkert og værum ekkert!

Sami lesandi tilnefndi einnig „Matreiðslubók fyrir makalausa kjallaraboruhokrara með eina hellu“ sem svipaða lífsbjörg á stundu neyðar. Hvorug þessara bóka kom raunar út í ár en þær teljast sígildar. Þótti þetta ekki jafn gróft brot á reglum keppninnar og hjá lesanda sem tilnefndi bók sem hann telur að koma muni út á næsta ári.

„Í hita kalda stríðsins“ eftir Björn Bjarnason. Rökstuðningur: Fjallar á snilldarlegan hátt um lífskreppu miðaldra pólitíkusar sem dreymdi um að verða utanríkisráðherra til að standa vörð um lýðræðið gagnvart ásókn kommúnista en missti af tækifærinu við hrun Sovétríkjanna.

„Ríki pabbi, fátæki pabbi“ eftir e-n Japana sem tilnefnandinn mundi ekki nafnið á og Múrarar því síður. Rökstuðningur: Höfundur ólst upp hjá tveimum feðrum, ríka pabba, sem kunni að fara með peninga og fátæka, sem kunni það ekki. Sýnir svo ekki verður um villst að fólk er bara fátækt vegna þess að það er vitleysingar og kann ekki með fé að fara.

"Fótboltasögur“ eftir Elísabeti Jökulsdóttur. Rökstuðningur: Bókin reynist ekki vera um fótbolta og bara skemmtileg.

"Harry Potter og eldbikarinn" eftir J.K. Rowling. Rökstuðningur: Sannkölluð handbók djöfladýrkandans! Loksins fær maður tækifæri til að kynna sér satanisma, galdrakukl og annað þvíumlíkt.

„Arnþrúður Karlsdóttir segir …“. Rökstuðningur: Þessi bók er einkum tilnefnd fyrir fagra kápumynd og smellinn og söluvænlegan titill. Fáir lesendur munu ósnortnir af lýsingum höfundar á miklu samsæri gegn bókarhöfundi og manni hennar innan Háskóla Íslands.

„Kötturinn með hattinn“ eftir Dr. Seuss. Rökstuðningur: Segja má að formbyltingunni sé endanlega lokið þegar Kötturinn með höttinn er orðinn af kettinum með hattinn í nýrri þýðingu Böðvars Guðmundssonar. Innrímið var helsta lýtið á þessari ágætu bók, nánast út í hatt á köflum og gott að börn framtíðarinnar munu ekki þurfa að alast upp við þann vágest. Ég hvet Böðvar til að gefa nú út að nýju sagnir um útlagann Hróa hatt. Þá er saga íþróttafélagsins Hatts á Egilsstöðum enn óskrifuð.

„Íslensk knattspyrna 2001" eftir Víði Sigurðsson. Rökstuðningur: Lesendur biðu spenntir eftir æsispennandi framhaldi ritsins Íslensk knattspyrna 2000 og er skemmt frá því að segja að Víðir bregst ekki aðdáendum sínum. Þó eru nokkrir lausir endar í bókinni, og er augljóst að von er á framhaldi. Þar sem Víðir er jafn fyrirsegjanlegur og Ólafur Jóhann í vali titla má giska á að hún muni heita Íslensk knattspyrna 2002.

„Afmæli Bubba“ eftir Diane Redmond. Rökstuðningur: Æsispennandi tryllir, sem fjallar um það hvort einhver muni óska Bubba til hamingju með afmælið eða ekki. Ómissandi fyrir verðandi sjálfstæðismenn og rokkaðdáendur.

"Dagbækur háskólastúdenta“ eftir Magnús Guðmundsson. Loksins, loksins fær maður tækifæri til að hnýsast í leynilegar dagbækur annarra. Afraksturinn er kannski ekki eins spennandi og maður átti von á, en hugmyndin er góð. Bók sem kallar á framhald.

Kjörstjórn átti í miklum vanda að greiða úr þessum tillögum sem flestar voru mun betri en tilnefningar alvaldanna. Þær komust hins vegar ekki í jafnmikið hámæli og fengu því oftast eitt atkvæði hver. Endanleg úrslit urðu því þau að Ofvitinn hlaut 15,5% atkvæða, Rafeindatækni í 150 ár hlaut 12,5%, Þegar Brandur litli týndist hlaut 10% atkvæða, The Control Revolution 8%, Steinn Steinar 5,5% og Fram í sviðsljósið hlaut aðeins 2%. Aðrar bækur hlutu alls 42% fylgi en 4,5% atkvæða voru auð eða ógild.

Múrinn lýsir því Ofvitann bók ársins 2001 og er það nokkuð afrek í ljósi þess að hér var á ferð endurútgáfa í kilju.

áj/kóp/ph/sp/sh/sj

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.