Af vestfirskum þráa

Áramótin eru oftar en ekki tími sérkennilegra frétta og virðist sem svo að tími breytinga, hvar eitt ár hverfur og annað fæðist, virki einkennilega á suma. Þannig virðast margir verða fyrir nokkurs konar kaþarsis, fyrri syndir þeirra skolast burtu og eftir standa þeir ómengaðir af fyrri gjörðum, nýþvegnir á nýju ári. Einn þeirra sem virðist hafa gengið í gegnum kaþarsis þessi áramótin er Jón Baldvin Hannibalsson, sendiherra í Bandaríkjunum. Þeir sem eldri eru en tvævetur í pólitík muna glöggt sendiherravæðinguna miklu sem tröllreið íslenskri pólitík fyrir nokkrum árum. Hver af öðrum hurfu helstu forystumenn stjórnmálaflokkanna á braut, Þorsteinn Pálsson, Jón Baldvin Hannibalsson, Svavar Gestsson, svo dæmi séu nefnd. Engum kom til hugar að nokkur þeirra ætti eftir að snúa á ný í hringiðu stjórnmálanna, enda sendiherrastaðan yfirleitt upphaf að því að setjast í helgan stein.

Eftir að forystumenn Samfylkingarinnar áttuðu sig á því að ekki er nóg að segjast ætla að verða 40% flokkur til að verða 40% flokkur, fóru að heyrast raddir um að til nýrra ráða þyrfti að grípa til að vinna málstaðnum fylgi. Eftir að kjörfylgið, sem þó var langt undir væntingum, minnkaði í skoðanakönnunum og festist í ca. 15% urðu þessar raddir æ háværari. Samfylkingin þurfti eitthvað nýtt og ferskt til að snúa þessari þróun við. Menn létu eins og fjörutíu prósent fylgið væri fyrir hendi, það þyrfti bara rétta manninn til að sækja það. Og nú er sá maður fundinn í sendiherranum í Washington.

Jón Baldvin sjálfur virðist hafa heyrt þessar raddir alla leið yfir hafið, enda hafa aðdáendur hans á Kreml.is verið duglegir við að mæra hann í ræðu og riti, á milli þess sem þeir hafa notið aðstoðar hans við ýmis tækifæri. Þeir voru enda fremstir í flokki þeirra sem kvörtuðu yfir því að viðtal Hans Kristjáns Árnasonar við Jón Baldvin skyldi ekki hafa notið besta útsendingartíma á Stöð 2. Það er engum blöðum um það að fletta, Jón Baldvin Hannibalsson hefur verið í umræðunni að undanförnu, svo mikið að óvenjulegt verður að teljast um sendiherra þjóðarinnar. Þessi umræða virðist hafa slegið streng vonar í brjósti hans og aðdáenda hans, vonar um að tími endurlausnarans sé upp runninn; Messías sjálfur sé til jarðar kominn til að leiða fylgjendur sína til lýðhylli.

Þetta pólitíska kaþarsis Jóns Baldvins mátti glöggt sjá í nýlegu viðtali í Fréttablaðinu. Af Jóni, sem á sínum mektarárum í stjórnmálum var þekktur fyrir allt annað en hógværð og metnaðarleysi, bókstaflega skein lítillætið og metnaðarleysið fyrir eigin hönd. Vissulega er hann tilbúinn að gegna skyldu sinni hér á jörðu og leiða fylgjendur sína til betri heima, en einungis ef þeir trúa á hann. Þannig verða þeir að trúa nógu stíft á Jón til að falla að fótum hans og biðja endurkomu hans í íslensk stjórnmál á ný, þá mun Jón Baldvin Hannibalsson reiðubúinn til að leiða hjörðina til fyrirheitna fylgislandsins. Og nægir virðast tilbiðjendurnir vera, þó staðir forystumenn Samfylkingarinnar þráist við líkt og æðstu prestar Gyðingalands forðum og þekki ekki sinn vitjunartíma.

Eitthvað virðist þó bogið við þessa mögulegu helgisögu af endurkomu Jóns Baldvins Hannibalssonar í íslensk stjórnmál. Kannski er það vegna þess að undirritaður er ekki einn hinna trúuðu að í huga hans kemur fyrri ferill Jóns. Jón Baldvin Hannibalsson var vissulega stjórnmálamaður sem gustaði af, hafði munninn fyrir neðan nefið og gat verið mælskur og skemmtilegur. Engu að síður fleyttu þessir eiginleikar hans honum aldrei lengra en í formannsstól Alþýðuflokksins, flokks sem bjó við nokkuð stöðugt 12-15% fylgi. Og í formannstíð Jóns Baldvins hrundi fylgið af flokknum og fáum glæstum sigrum getur hann státað af. Fyrir utan það að hafa unnið kapphlaupið við kollega sinn Uffe Elleman Jensen um viðurkenningu sjálfstæðis Eystrasaltslandanna, er Jóns Baldvins helst minnst fyrir það að hafa, verandi yfirmaður tollgæslunnar, reynt að smygla kjöti inn til landsins. Helsta afrek hans er þó að hafa komið Davíð Oddssyni til valda þar sem Davíð situr enn, þó hann hafi skipt um hækju.

Það er því nokkuð erfitt að sjá fyrir sér hvernig Jón Baldvin Hannibalsson á að verða til þess að reisa Samfylkinguna úr ímynduðum rústum fylgisleysis síns. Fjörutíuprósent fylgið var eingöngu draumur um möguleika sameiginlegs framboðs vinstri manna í landinu. Af því framboði varð aldrei. Kannski er hugmyndin um Jón Baldvin eingöngu sönnun þess að fótgönguliðar Samfylkingarinnar hafa sætt sig við þessa staðreynd og sjá sem er að Samfylkingin verður aldrei stærri flokkur en Alþýðuflokkurinn gamli. Og ef svo er þá er líklega hið besta mál að hinn vestfirski þrái Jóns Baldvins, sem núverandi formaður Samfylkingarinnar mærir svo mjög, verði í stafni hins nýja Alþýðuflokks.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.