Edduverðlaun ársins 2001: Það sem kom ekki í sjónvarpinu!

Kvikmynd ársins: Óskabörn þjóðarinnar eftir Jóhann Sigmarsson.

Leyndarmál ársins: Sama. Hvergi nefnd á Edduhátíðinni.

Yfirlið ársins: Ingibjörg Pálma örugg með það.

Bjargvættur ársins: Jay Lane tapar naumlega fyrir Össuri Skarphéðinssyni (sjá næsta lið á undan).

Smáríki ársins: Lýðveldið Transdnéstría, sem liggur mitt á milli Rússlands og Moldavíu.

Eyríki ársins: Tuvalu.

Reikningshald ársins: Hið „opna“ bókhald Samfylkingarinnar, sem enn bólar ekkert á. Einnig mætti nefna bókhald Reykjavíkurborgar sem Inga Jóna virðist geta talað endalaust um.

Pólitískt morð ársins: Morðið á Birendra, konungi Nepal, í byrjun júní. Einnig mætti nefna morðið á Kabila, forseta í Kongó (lýðræðislega lýðveldinu) í janúar en allar aðstæður voru þó skuggalegri í Nepal.

Umhverfisverndari ársins: Davíð Oddsson sem fékk verðlaun frá Gorbasjoff fyrir vikið. Jafnar næstum því friðarverðlaunin hans Kissingers.

Sonur ársins: Joseph Kabila sem erfði embætti forseta í lýðræðislega lýðveldinu (hann tekur við titlinum af Basjar Assad sem erfði forsetaembætti í fyrra).

Flóttamaður ársins: Fernando de la Rua, fráfarandi forseti Argentínu (tekur við titlinum af Fujimori, fv. forseta nágrannaríkisins Perú).

Trúlofun ársins: Ólafur Ragnar og Dorrit, annað árið í röð.

Fyrrverandi kóngur ársins: Símon Búlgaríukóngur sem vann frækinn sigur í þingkosningum, með því að lofa hröðum efnahagsbata. Batinn lét þó bíða eftir sér. Hinn elliæri konungur Afganistan er í öðru sæti, komst aldrei alla leið á tindinn aftur.

Sigurvegari ársins: Magnús Guðmundsson (fyrir bókina um sigurvegarann).

Maður ársins hjá DV: Það hlýtur að vera Árni Sigfússon sem var tekinn í tvö viðtöl í sama áramótablaðinu.

Doktorsritgerð ársins: Hér stendur valið á milli bókar dr. Hannesar um það hvernig Íslendingar geti orðið ríkasta þjóð í heimi og rokksögu dr. Gunna sem mun hafa verið full af myndum.

Bítill ársins: George Harrison sem féll frá. Er nú betri helmingur bítlanna horfinn.

Bítlahárgreiðsla ársins: Junichiro Koizumi, nýr forsætisráðherra Japans, er augljóslega sigurvegari í þessum flokki.

Bók ársins: Svarið við því kemur síðan þegar kosningu um bókmenntaverðlaun Múrsins lýkur.

Umburðarlyndi ársins: Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins voru gerð hróp að Ólafi F. Magnússyni og hann kallaður Talibani af því að hann er á móti Kárahnjúkavirkjun.

Talibani ársins: Ólafur F. Magnússon erfði þann titil af Steingrími J.

Tyrki ársins: Sükrü Tunar (sjá grein á Múrnum 30. nóvember).

Frjálshyggjumaður ársins: Michael Portillo tók sjensinn og hélt að frjálshyggja væri það sama og frjálslyndi.

Bókabrenna ársins: Þegar ofstækismenn í New Mexico brenndu bækurnar um Harry Potter.

Mannrán ársins: Þegar Milosevic fv. Júgóslavíuforseta var rænt úr fangelsi í Serbíu og fluttur til Haag vegna þess að stjórnvöld þar nenntu ekki að bíða eftir að dómstólar úrskurðuðu um málið.

Brúðkaup ársins: Þegar norski prinsinn gekk að eiga einstæða móður í beinni útsendingu.

Fangauppreisn ársins: Þegar fangar í Brasilíu tóku 8000 manns í gíslingu. Tólf manns féllu, enda Bandaríkjaher hvergi nærri með sprengjuflugvélar sínar.

Mótmæli ársins: Óeirðirnar í Gautaborg í júní, þegar lögregla þar í landi skaut á mótmælendur í fyrsta sinn í 70 ár.

Veira ársins: Miltisbrandur.

Afsökun ársins: Símon Peres er kallaður utanríkisráðherra í Ísrael og ber ábyrgð á ógeðfelldri stefnu Sharons án þess að fá rönd við reist.

"Mistök" ársins: Bandaríkjamenn sprengja birgðageymslu Rauða Krossins í Kabúl. Eftir sprenginguna mátti enn greina leifar krossins á þaki byggingarinnar þannig að Bandaríkjamenn gerður þegar í stað aðra árás.

Umræður ársins: Umræður um fjáraukalög á þingi. Þau voru afgreidd með sóma og sann í þriðju umræðu án þess að nokkur á þingi vissi hvernig þau kæmu til með að líta út.

Fréttamaður ársins: Ólafur Sigurðsson. Dvaldi í góðu yfirlæti í boði Ísraelsstjórnar og sendi út hverja fréttina á fætur annarri þar sem ísraelskir ráðamenn skýrðu sín sjónarmið óáreittir af aröbum eða þeirra málstað. Ólafur lendir einnig í öðru sæti fyrir stórkostlega fréttaskýringu af ástandinu í Kúbu þar sem glögglega kom í ljós að nestor fréttastofu sjónvarpsins í erlendum fréttum hefur aldrei heyrt á Helms-Burton lögin minnst.

Hjálparstofnun ársins: Ríkisstjórn Íslands. Byrjaði árið á því að berja á öryrkjum, lauk því með því að berja á sjúklingum.

Besta partí ársins: Landsfundur Samfylkingarinnar. Áttahundruð manns mættu til að klappa fyrir forystunni á setningunni.

Versta partí ársins: Landsfundur Samfylkingarinnar. Eftir húllumhæið á setningunni kom í ljós að partíið var ekki eins skemmtilegt og menn héldu. Rétt um hundrað manns þoldu nógu lengi við til að kjósa í formannskjöri.

Mark ársins: Sóknarmarkið sem smábátasjómönnum var úthlutað í ýsu og steinbít til að bæta þeim upp kvótasetninguna en það var svo tekið af þeim aftur til að koma til móts við þá sjálfa að mati ráðherra.

Spádómur ársins: Spá vefritsins Kremlar um víðtæka siðbót og hreinsanir í íslenskum stjórnmálum. Minnti á auglýsingu, sem hengd var upp í Kaupmannahöfn á fyrri hluta 19. aldar þar sem sagði að byltingin hæfist á morgun klukkan tvö.

Messías ársins: Jón Baldvin Hannibalsson. Æ stærri hópur hægri krata bíður komu hans í ofvæni og mun hann leiða þjóð Samfylkingarinnar til fyrirheitna fylgislandsins.

Fanganýlenda ársins: Ástralía fær titilinn fyrir að hafa orðið svo fín á tvö hundruð árum að engir innflytjendur mega lengur stíga þar fæti.

Refsing ársins: Þegar Osama Bin Laden var útilokaður frá því að koma á Highbury að horfa á Arsenal, uppáhaldsliðið sitt. Maður þarf að vera harður við þessa hryðjuverkamenn.

Þjóðleikhús ársins: Málefni Árna Johnsens.

Siðapostuli ársins: Gísli S. Einarsson (Gísli Mússó) í ofannefndu leikriti.

Steinríkur ársins: Þarf að nefna hann?

áj/kóp/sh/sj

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.