Hvað er skrök?

Að undanförnu hefur talsvert verið rætt og ritað um blaðamennsku og eðli fréttaflutnings á þessum fjölmiðli, og ekki að ósekju. Það er ekki síst fréttaflutningur Fréttablaðsins og Pressunnar sem hefur orðið tilefni skrifa á Múrnum. Raunar kveður svo rammt að þessu að maður hlýtur að velta eðli fréttamennsku fyrir sér. Hvenær verður eitthvað að frétt, hverjir eru trúverðugir heimildamenn, og fleira í þeim dúr.

Heimildamenn eru þekkt dæmi í blaðamennsku. Alla blaðamannatöffara dreymir um að koma upp um eitthvert hneykslismálið með aðstoð heimildarmanna í innstu röð ráðamanna. Síðan "Deap throat" sá þeim Woodward og Bernstein fyrir efni sem varð til þess að Nixon sagði af sér hefur blaðamenn um allan heim dreymt um að fylgja í kjölfarið. Það er ekkert óeðlilegt við það að blaðamenn leiti til ónafngreindra heimildarmanna, í sumum tilfellum getur það verið mikill kostur og leitt til þess að mál eru upplýst sem annars hefðu legið í láginni. Ótal myndir hafa verið gerðar um spennandi samskipti fréttamanna og uppljóstrara, nægir að nefna All the Presidents Men og The Insider þessu til staðfestingar.

Blákaldur raunveruleiki íslenskrar blaðamennsku er hins vegar nokkur annar en hinn reykmettaða Hollywood glansmynd. Stærsta hneykslismál síðari ára var sennilega málefni Árna Johnsen. Vissulega var spennandi að fylgjast með hverjum fréttamanninum á fætur öðrum í geymslurýmum ýmissa stofnana að handfjatla þakdúk, gangstéttarhellur og fleira og vissulega unnu fréttamenn þar gott og þarft verk. Þar bar hins vegar lítið á ónafngreindum heimildamönnum, þvert á móti kepptust menn hver um annan þveran við að koma fram í fjölmiðlum undir nafni og segja frá miður skemmtilegum samskiptum sínum við Árna Johnsen.

Draumur íslenskra fréttamanna um leynilega fundi á börum bæjarins (sem lesa má um í skáldsögum Hrafns Jökulssonar og Árna Þórarinssonar) þar sem umslög með upplýsingum skipta um eigendur, hefur hins vegar leitt menn út í ógöngur. Það er eðli góðra fréttamanna að sannreyna þær upplýsingar sem þeim berast áður en úr þeim eru skrifaðar fréttir. Þetta þekkja blaðamenn víðast hvar í heiminum, en þessi vitneskja virðist ekki hafa ratað á fjörur íslenskra blaðamanna, a.m.k. ekki þeirra sem starfa á Fréttablaðinu.

Þar virðist lenskan vera sú að hvaða kjaftasaga sem er í gangi og berst til eyrna blaðamanna ratar á fjölmiðla þeirra. Ekki er haft fyrir því að bera fréttir undir þá sem í hlut eiga og vandséð er að þær séu bornar undir þá sem best þekkja til mála. Þannig hafa t.d. reglulega verið birtar fréttir á þessum fjölmiðlum af gangi mála í viðræðum um Reykjavíkurlista, þar sem ónafngreindir heimildamenn vaða á súðum, spá í spilin, bera skoðanir upp á nafngreinda menn, segja til um hvatir þeirra og metnað í pólitík. Aldrei er haft fyrir því að bera málin undir þá sem í hlut eiga, hinir ónafngreindu fá að höggva í allar áttir í skjóli nafnleysis. Er von að menn spyrji sig að því hvort hér sé fréttamennska á ferð, er þetta ekki ósköp einfalt dæmi um kjaftasögur sem kjaftakerlingar af öllum kynjum segja sín á milli og einhverjar þeirra setja á prent?

Það leiðir hugann að öðru einkenni íslenskra blaðamanna, það að búa til fréttir. Fréttaflutningur af viðræðum Framsóknarflokksins, Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs er gott dæmi um þetta. Allir þeir sem hafa tekið þátt í viðræðunum hafa sagt sem er, að menn séu að ræða málin og engin niðurstaða hafi náðst enn. Það er hins vegar ekki frétt. Þá grípa fréttamenn til hinna ónafngreindu heimildarmanna sem virðast þekkja málin ofan í kjölinn, hver á sinn hátt. Þeir eru ekki í vandræðum með að tilkynna um gang mála, hvernig líkleg niðurstaða sé, hverjir ætli í framboð o.fl. Og af því að einn maður fabúlerar við annan mann sem vinnur á fjölmiðli, þá er komin frétt!

Þetta hefur sést trekk í trekk á Pressunni og í Fréttablaðinu, en fráleitt eru þeir einu fjölmiðlarnir sem hafa gert sig seka um slíkan barnaskap. Þannig hafa fréttamenn Rúv fallið í þessa gildru og búið til stórar fréttir um ekki neitt byggða á ónafngreindum heimildamönnum. Ekki er haft fyrir því fyrr en eftir á að bera þessar slúðursögur undir þá sem gerst þekkja, von fréttamannanna um að verða fyrstir með "skúbbið" vegna stórkostlegra tengsla sinna við innanbúðarmenn ber skynsemina og fréttamennskuna ofurliði. En slúðursaga verður ekki frétt þó hún sé sögð á opinberum vettvangi.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.