Jólabókin í ár – Tilnefningar sex alvalda

Undanfarin hafa aðilar af ýmsu tagi (DV, bókaútgefendur) veitt bókmenntaverðlaun af ýmsu tagi. Er samkenni á þeim að „bókmenntirnar“ hafa verið metnar af þröngum hópi sérfræðinga, jafnvel af svokölluðum „bókmenntaeinvöldum“, en alþýðu manna hefur ekki verið gefinn neinn kostur að hafa áhrif á valið. Nú eiga lesendur Múrsins hins vegar kost á því að velja sjálfir jólabók ársins í ár, en alvaldar Múrsins hafa tilnefnt sex forvitnilegar bækur til að velja á milli.

Kosningin fer fram með einföldum hætti, sent er bréf á ritstjorn@murinn.is, þar sem fram kemur hvaða bók verður fyrir valinu. Póstkosningin verður að sjálfsögðu lýðræðisleg, en stalínistar mega hins vegar klappa fyrir verðlaunabókinni heima hjá sér. Þeir sem þykjast vita betur en alvaldar Múrsins mega meira að segja koma með sínar eigin tilnefningar (enda lýðræðið í öndvegi) og verður þeirra bóka getið sem þykja fá óvenju margar tilnefningar (eða óeðlilega margar).

Jólabækurnar sem alvaldarnir sex hafa tilnefnt til bókmenntaverðlauna Múrsins í ár eru:

1. „Steinn Steinarr. – Leit að ævi skálds – seinna bindi“ eftir Gylfa Gröndal. Útgefandi: JPV-forlag.

Rökstuðningur: Gylfi Gröndal er misskilinn snillingur á sviði íslenskra bókmennta. Að klippa til kafla eftir fjöldann allan af öðrum höfundum og líma saman í læsilegan heildartexta er ekki heiglum hent!

Tilnefnd af Kolbeini Óttarssyni Proppé.

2. „Rafeindatækni í 150 ár og þættir úr sögu rafeindavirkja” eftir Þorstein Óskarsson. Útgefandi: Rafiðnaðarsambandið.

Rökstuðningur: Án rafeindatækninnar kynnum við ekki neitt, gætum ekki neitt og værum ekki neitt. Og það sem meira er – okkur myndi sennilega leiðast líka og vera kalt. Rafiðnaðarsambandið á heiður skilinn fyrir þetta merka framtak á sviði tæknisögu.

Tilnefnd af Stefáni Pálssyni.

3. „Ofvitinn“ eftir Þórberg Þórðarson. Útgefandi: Mál og menning (kilja).

Umsögn: Bók sem er í hópi 5-10 mestu ritverka 20. aldar og stendur. Merkileg sálfræðistúdía, sem fjallar um leit einstaklingsins að samastað í tilverunni, en er jafnframt óborganlega fyndin. Er nú komin út í kilju eftir að hafa verið lengi ófáanleg. Einkennilegt má teljast að útgefandinn skuli ekki gera meira af því að koma þessum höfundi á framfæri, t.d. með því að standa fyrir þýðingum á henni og útgáfu erlendis.

Tilnefnd af Sverri Jakobssyni.

4. „The Control Revolution“ eftir James R. Beniger Útgefandi: Harvard University Press.

Rökstuðningur: Iðnbyltingin gerbreytti ekki einungis atvinnulífi Vesturlanda heldur riðlaði hún einnig taumhaldi ráðandi afla á almúgafólki. Næsta bylting var stjórnunarbyltingin sem Beniger skrifar um. Hefði hún ekki orðið væri auðvitað engu hægt að stjórna og þá væru engin stjórnmál og þá væri ekkert gaman að gefa út pólitískt vefrit. Þá væri Hjálmar Árnason að vísu mun sjaldnar í fjölmiðlum en það er önnur saga.

Tilnefnd af Steinþóri Heiðarssyni.

5. „Fram í sviðsljósið. Endurminningar Halldórs G. Björnssonar“ eftir Björn Inga Hrafnsson. Útgefandi: Mál og menning.

Rökstuðningur: Stórskemmtileg og fróðleg bók. Sagnaritara tekst með einstæðu hispursleysi og innsæi að segja sögu "silfurrefsins" á þann hátt að menn setur hljóða við lesturinn. Það er ekki algengt.

Tilnefnd af Páli Hilmarssyni.

6. Þegar Brandur litli týndist eftir Sven Nordqvist. Þýðandi: Þorsteinn frá Hamri. Útgefandi: Mál og menning.

Rökstuðningur: Ef menn vilja bækur um dramatíska atburði, fullar af lífi, gáska en um leið ugg, ógn, tilvistarvanda og spennu er þetta bókin í ár. Hún er einnig myndrænni en flestar aðrar bækur ársins. Kötturinn Brandur er ein geðþekkasta söguhetja sem hægt er að hugsa sér. Hann hefði þó mátt heita Bónus eða Goði eða eitthvað þessháttar á íslensku.

Tilnefnd af Ármanni Jakobssyni.

Ritstjórn óskar lesendum góðrar skemmtunar við valið.

áj/kóp/ph/sh/sj/sp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.