Stríðið sem alltaf gleymist

Atburðirnir í Afganistan hafa átt athygli hins vestræna fjölmiðlaheims óskipta undanfarið. Það hefur orðið til þess að öðrum átakasvæðum hefur lítill gaumur verið gefinn, þó að fyllsta ástæða sé til. Nægir að horfa til átaka Ísraela og Palestínumanna í því samhengi.

Fyrst eftir hryðjuverkin 11. september virtist Sharon og stjórn hans ætla sér að nýta ástandið til að láta kné fylgja kviði í baráttunni við Palestínumenn. Þeir hertu árásir sem aldrei fyrr, hertóku svæði og fóru um með eldi og brennisteini. Fljótlega kom þó í ljós að þessi sókn hentaði ekki stefnu Bandaríkjanna sem voru um þær mundir að blása til alþjóðlegrar samstöðu um fyrirhugaðar árásir þeirra á Afganistan. Þar var stuðningur Arabaheimsins nauðsynlegur og ekki gott innlegg í samningaviðræðurnar að pótintátar þeirra í Ísrael væru að murka lífið úr Palesínumönnum með bandarískri vopna- og efnahagsaðstoð á sama tíma.

Bandaríkjamenn settu því ofan í við Ísraela og eftir þvermóðskufullar yfirlýsingar Ísraela um að Bandaríkjamenn ættu ekkert með að skipta sér af þessu, drógu Ísraelar úr sókn sinni. Bandaríkjastjórn hefur hins vegar ekkert orðið ágengt í að koma á friði fyrir botni Miðjarðarhafs. Þrátt fyrir að hún hafi beitt Ísraela auknum þrýstingi, virðist hún ekki tilbúin til þess að stíga skrefið til fulls og knýja Ísraela til að fara eftir samþykktum Sameinuðu þjóðanna. Þess í stað slá Bandaríkjamenn á puttana á Ísraelum ef þeir ganga svo langt að jafnvel Bandaríkjamönnum ofbýður.

Að undanförnu hefur því ekkert þokast í friðarátt í Palestínu, þrátt fyrir að átök séu ekki jafnmikil þar og var fyrst eftir hryðjuverkin í Bandaríkjunum. Það er vandséð að nokkurn tímann takist að stilla þar til friðar á meðan stríðsglæpamaðurinn Ariel Sharon situr við völd. Hann heldur fast í þá kröfu sína að setjast ekki að samningaborði með Palestínumönnum fyrr en eftir sjö daga án ofbeldis af hálfu Palestínumanna.

Með þessu kemur hann í raun í veg fyrir samninga, því meðal Palestínumanna eru fjölmargir sem ekki vilja friðarsamninga. Þeim er í lófa lagið að sprengja sprengjur, eða skjóta á hermenn til að koma í veg fyrir að ofbeldislausa viku.

Ariel Sharon hefur ekki sýnt af sér neinn samningsvilja. Reglulega kallar hann Arafat glæpamann og hryðjuverkamann og sí og æ gerir hann ábyrgan fyrir ofbeldisverkum öfgasamtaka Palestínumanna. Það er álíka fáránlegt og að gera Clinton ábyrgan fyrir hryðjuverkaárásinni í Oklahoma, því vandfundinn er sá þjóðarleiðtogi sem hefur fulla stjórn á öllum þegnum sínum.

Ef Sharon stefndi í raun og veru að því að koma á friði, myndi hann gera sér grein fyrir því að eina leiðin til þess er að semja við Arafat. Arafat hefur sætt mikilli gagnrýni úr hópi Palestínumanna fyrir linkind í garð Ísraela. Í stað þess að viðurkenna að Arafat er eina vonin, hefur Sharon staðið fyrir loftárásum á embættisbústað Arafats og skrifstofur og Ísraelsher hefur myrt nána samstarfsmenn hans.

Eina vonin til friðsamlegs ástands fyrir botni Miðjarðarhafs eru friðarsamningar. Á sama hátt og í Norður-Írlandi þurfa ráðamenn að gera sér grein fyrir þessu og falla frá öfgafullri stefnu sinni. Ekki er nokkur möguleiki á því að Ísraelsmenn geti komið á friði með því að brjóta Palesínumenn á bak aftur og til hvers er þá barist?

Ef Bandaríkjastjórn hefði sömu áhyggjur af ástandi mannréttindamála í Palestínu og hún hefur í Afganistan væri fyrir löngu búið að knýja Ísraela til að láta af öfgastefnu sinni sem leiðir ekki til neins nema meira ofbeldis.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.