Sögubrot af Tyrkja I: Sükrü Tunar.

Greinin sem hér fer á eftir hefur beðið birtingar á Múrnum um allnokkurt skeið. Ekki þótti þó rétt að birta hana fyrr en að kjaradeila tónlistarkennara við viðsemjendur sína væri til lykta leidd. Fræðsla um tónlistarsögu og þá sérstaklega tónlist framandi þjóða er snar þáttur í starfi tónlistarkennara og síst hefði ritstjórn Múrsins viljað gerast aðili að verkfallsbroti.

Tyrknesk tónlist hefur ekki farið víða á síðustu árum. Það eru helst útgáfur sem sérhæfa sig í svokallaðri heimstónlist sem hafa breitt út þá tónlistarmenningu sem ríkjandi er í Tyrklandi og öðrum lítt þekktum tónlistarheimum. Hér miðast að sjálfsögðu allt við vestrænt sjónarhorn, margir af þeim listamönnum sem eru lítt þekktir á Vesturlöndum eru goðumlíkir í huga stórs hluta mannkyns og eiga jafnvel fleiri aðdáendur en vestræn poppgoð. Það er hins vegar ekki óeðlilegt að tónlistarumfjöllun á Vesturlöndum taki mið af því sem þekkt er þar og er það ekki bundið við tónlist, mannkynssaga sú sem kennd er t.d. hér á landi er skrifuð út frá forsendum Vesturlanda. Þannig kynnast nemendur fjarlægum löndum eingöngu í gegnum þau tengsl sem mynduðust þegar Vesturlandabúar gerðu víðreist um heiminn og komust að því að fleira fólk var þar en þeir sjálfir.

Þannig hefur tyrknesk tónlist á síðustu áratugum verið Vesturlandabúum lokuð bók, óspiluð plata. Því var hins vegar ekki alltaf svo farið, síður en svo. Á árunum á milli stríða varð mikil gerjun í tyrknesku tónlistarlífi, ekki síst fyrir vestræn áhrif. Istanbúl varð vagga nýrrar tónlistarhefðar þar sem hefðbundinni tyrkneskri tónlist var blandað saman við vestræna tónlistarhefð. Borgin var á þessum árum sannkölluð heimsborg, viðleitni Atatürks til að gera þjóðina vestræna var í hámarki. Úr varð suðupottur menningaráhrifa sem skilaði af sér sérstökum tónlistarbixímat þar sem öllu ægði saman.

Þessi þróun hófst þó ekki með Atatürk heldur á hún uppruna sinn að rekja til umbótahreyfingarinnar tanzimat á 19. öldinni sem freistaðist til að gera gagngerar umbætur á hinu hnignandi veldi Ottómana. Í Istanbúl mættust hefðbundin hirðtónlist Ottómanveldisins og tyrknesk sveitatónlist og úr varð sérstök tónlistartegund, fasil. Fasil var léttari en hefðbundin tyrknesk tónlist og auðmeltari hinni ungu kynslóð án þess þó að slegið væri af menningarlegum kröfum elítunnar. Við lok 19. aldarinnar ágerðust vestræn áhrif í höfuðborginni og höfðu áhrif á tyrkneskt tónlistarlíf. Stefna Kemals Atatürks að gera Tyrkland að vestænu ríki var svo síðasta stykkið í hið fjölþjóðlega tónlistarmenningarpúsl sem einkenndi fyrri helming 20. aldarinnar í Tyrklandi.

Ein af goðsögnunum í tyrkneskri tónlist er Sükrü Tunar, tónskáld og klarinettleikari, en hann var upp á sitt besta á þessum árum. Hann var sígauni og fæddist árið 1907 og ánetjaðist ungur tónlistargyðjunni þegar hann eignaðist tinflautu í æsku. Klarinettið varð aðalhljóðfæri hans, þó hann léki einnig á saxófón. Þau hljóðfæri eru náskyld og kannski enn frekar í Tyrklandi, en sem alkunna er nota Tyrkir annað klarinett en Vesturlandabúar. Það er í G í stað hins vestræna sem er í bes og er talsvert lengra. Líkindin á milli tyrkneska klarinettsins og sópransaxófóns eru því mun meiri en á milli saxófónsins og hins vestræna klarinetts.

Á uppvaxtarárum Sükrü var notkun klarinetts bundin við Mether, tyrkneska hertónlist. Sükrü kynntist klarinettuleik 7 ára gamall þegar hermaður sem fjölskyldan þekkti kenndi honum að leika á hljóðfærið. Sükrü stóð í strögli við foreldra sína sem vildu að hann léki á fiðlu, sem var vinsælasta hljóðfæri þess tíma, en hann hafði betur og fékk sitt klarinett.

Sükrü breytti tyrknesku tónlistarlífi og gerði klarinettið að algengu hljóðfæri. Tvítugur fékk hann stöðu í útvarpshljómsveit, fyrstur klarinettleikara til að nota hljóðfærið opinberlega í annarri tónlist en Mether. Stjórnandi hljómsveitarinnar Mesoud Cemil Bey, sonur hins víðfræga Tanburi Cemil Bey, hreifst af leik Sükrü og réð hann til starfans. Sükrü stældi fiðluna í leik sínum og lék afar mjúklega á klarinettið.

Árið 1928 samdi Sükrü fyrsta smellinn sinn, Geçti muhabbet demi, asla gönül. Það varð aðeins fyrsti smellurinn af mörgum og á næstu áratugum varð hann einn af vinsælustu tónlistarmönnum Tyrklands, ekki síst sem hljómsveitarstjóri Zeki Müren, sem nefndur hefur verið fyrsta ofurstjarna Tyrklands.

Sükrü var af sumum gagnrýndur fyrir of persónulega túlkun á hefðbundinni tyrkneskri tónlist, en hylltur af öðrum. Sükrü breytti tyrkneskri tónlistarsögu og vegna hans heyrist klarinettleikur nú mun víðar en í hefðbundinni Mether tónlist. Hann var fyrsti sígauninn sem braut sér leið inn í hefðbundið tyrkneskt tónlistarlíf og opnaði dyrnar fyrir fjöldann allan af sporgöngumönnum. Hann er þekktur fyrir lög sín eins og Hüzzam taksim, Suzinak taksim, Karsilama og Çifte Telli, en tvö þau síðarnefndu eru sígaunadansar og mjög vinsæl í útsetningu Sükrüs hjá magadönsurum.

Sükrü Tunar var alla tíð hógvær maður þrátt fyrir frægð sína. Hann hlaut óskadauðdaga hvers tónlistarmanns, fékk hjartaáfall á sviði þar sem hann lék með Zeki Müren, þann 17. ágúst 1962.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.