Kaupmenn knýja fram umhverfisspjöll

Sú var tíðin að í miðbæ Reykjavíkur var göngugata. Austurstræti var þá lokað fyrir bílaumferð frá Lækjargötu að Pósthússtræti og þar réðu gangandi vegfarendur ríkjum. Göngugötur þekkjast víðast hvar í höfuðborgum, enda ólíkt þægilegra að athafna sig í hjarta þeirra þegar ekki þarf að gæta að bílaumferð. Kaupmenn í miðbænum fundu því hins vegar margt til foráttu að þessi götuspotti væri helgaður gangandi vegfarendum, töldu að það hamlaði mjög viðskiptum þeirra. Við kröfum þeirra var orðið og Austurstræti opnað fyrir bílaumferð í tilraunaskyni. Þar var sett upp forláta hlið svo hægt væri að loka fyrir bílaumferð annað slagið. Það hlið hefur lítið verið notað og enn stendur tilraunin yfir svo erfitt virðist að komast að niðurstöðum.

Fyrir nokkrum árum var gerð önnur tilraun í þá átt að takmarka bílaumferð í miðbænum. Í þetta skiptið var lokað fyrir umferð bíla í gegnum Hafnarstæti. Við austurendann var komið upp hindrun, þannig að gatan varð botlangi. Hún var hins vegar ekki gerð að göngugötu. Þetta vakti mikla reiði hjá kaupmönnum og gripu þeir jafnvel til þess óyndisúrræðis að rífa niður bráðabirgðartálma og brjóta þannig landslög. En borgaryfirvöld stóðu hörð á sínu, meiri hagsmunir þóttu í húfi en þeir sem kaupmenn stóðu fyrir. Síðastliðinn þriðjudag samþykktu borgaryfirvöld hins vegar að opna fyrir umferð til austurs á ný, í tilraunaskyni.

Þeir hagsmunir sem þóttu svo mikilvægir þegar götunni var lokað eru enn fyrir hendi. Það er því ekki úr vegi að rifja upp rökin fyrir lokuninni. Talið var að umferð um Hverfisgötu væri of mikil á álagstímum og lokunin myndi draga úr henni. Miðstöð strætisvagna í miðbænum er við Hafnarstæti og óheft bílaumferð varð til þess að illa gekk að halda áætlun hjá strætisvögnunum. Bílar sem stóðu í biðröð á götunni eftir því að komast upp Hverfisgötu sköpuðu ákveðna hættu og menguðu einnig ótæpilega, vegfarendum og strætisvagnafarþegum til mikils ama.

Borgarverkfræðingur lýsir því yfir í umsögn sinni um tillöguna nú að öll þessi rök séu enn fyrir hendi og stjórn Strætó bs. lagðist gegn tillögunni. Nú þykja hagsmunir kaupmanna hins vegar vega þyngra, en þeir halda því fram að jólaverslun þeirra muni bíða hnekki ef gatan verði ekki opnuð fyrir bílaumferð. Það skýtur skökku við að borgaryfirvöld skuli hafa skipt um skoðun í þessu efni, meti nú hagnað miðbæjarkaupmanna meira en umferðaröryggi og loftgæði í miðborginni.

Sérstaklega er það athyglisvert ef rýnt er í Staðardagskrá 21, umhverfisáætlun Reykjavíkurborgar. Þar er farið fögrum orðum fyrirætlanir borgarinnar í umhverfismálum, en borgaryfirvöld ætla sér að gera borgina að "vistvænustu höfuðborg Norðurlanda". Umferð skipar stóran sess í þeim áætlunum, enda er loftmengun af völdum hennar mikil. Samkvæmt Staðardagskrá 21 er ætlunin að taka sig á í umferðarmálum og "efla markvisst almenningssamgöngur á kostnað einkabílsins". Við umræður um Staðardagskrána kom fram að það var fullur hugur borgaryfirvalda að stuðla að þessu, m.a. með því að veita strætisvögnum forgang í umferðinni.

Það er því undarlegt að sama ár og Staðardagskrá 21 er samþykkt með metnaðarfullum áætlunum um umhverfismál borgarinnar, skuli þeim markmiðum sem þar voru sett, kastað fyrir róða vegna meintra hagsmuna miðbæjarkaupmanna. Ekki er bjart framundan í umhverfismálum ef ekki þarf stærri þrýstihóp en kaupmenn í miðbænum til að fá borgaryfirvöld til að falla frá áætlunum sínum. Vonandi mun þessi tilraun í Hafnarstræti hins vegar ekki standa jafn lengi og sú í Austurstræti.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.