Stefnir í frekari árásir?

Nýjustu fregnir frá Afganistan herma að hernaður Bandaríkjanna og Bretlands hafi gengið Talibönum mjög nærri. Talibanar hafa hörfað frá stærstum hluta þeirra svæða sem þeir réðu yfir og ráða nú aðeins um 1/3 af landinu. Norðurbandalagið ræður yfir 2/3 landsins, þ.m.t. höfuðborginni Kabúl. Ekki virðast atburðir síðustu daga gefa tilefni til mikillar bjartsýni um framtíð landsins. Það er líkt og hinar vestrænu þjóðir sem hófu árás á landið hafi ekki hugsað málið til enda áður en af stað var farið.

Það hefur þó ekki dregið úr árásargleði Bandaríkjamanna og nú er svo komið að þeir eru farnir að beina sjónum sínum að fleiri ríkjum. Hefur þar með ræst spá margra sem vöruðu við því að farið jafngeist og raun bar vitni í Afganistan. Slík hvatvísi gæti orðið til þess að til jafnfljótfærnislegra aðgerða yrði gripið víðar. Og nú hefur Bush Bandaríkjaforseti ámálgað það að víðar gæti þurft að fara með hernaði og fleiri bandarískir ráðamenn hafa tekið í sama streng.

Raunin virðist sú að bandaríska stjórnin skiptist í tvær fylkingar, þá sem vilja fara fram með fullri hörku gegn löndum sem grunuð eru um aðstoð við hryðjuverkamenn eða að hafa unnið að framleiðslu sýklavopna og þá sem eru andvígir því. Colin Powell hefur farið fyrir síðastnefnda hópnum en nægir eru til að tala fyrir fyrra sjónarmiðinu, Donald Rumsfeld, Condoleezza Rice, Paul Wolfowitz; að ógleymdum Bush forseta.

Þessi hópur hefur einkum beint spjótum sínum að Írak, en Bandaríkjamenn halda því fram að síðan vopnaeftirliti SÞ þar var hætt árið 1998 hafi Írakar unnið að framleiðslu sýklavopna með leynd. Á nýlegri vopnaráðstefnu í Genf juku Bandaríkjamenn þrýsting á Íraksstjórn með því að saka þá opinberlega um framleiðslu sýklavopna. Írak var þó ekki eina landið sem var nefnt, því Bandaríkjamenn hafa einnig beint spjótum sínum að Norður-Kóreu, Súdan, Líbíu og Sýrlandi. Til hvaða aðgerða verður gripið gegn þessum löndum er þó ekki enn ljóst.

Þessi ummæli verða hins vegar að skoðast í ljósi orða Bush forseta um að stríðinu gegn hryðjuverkamönnum yrði engan veginn lokið þó tækist að vinna fullan sigur í Afganistan. Bandaríkjamenn hafa gefið það út að starfsemi Al Kaída hryðjuverkasamtakanna dreifist til u.þ.b. 60 landa og hana þurfi að uppræta með öllu. Ljóst er að flest, ef ekki öll, þau ríki sem Bandaríkjamenn saka nú um sýklavopnaframleiðslu eru á meðal þessara 60 landa. Það eru því heldur uggvænlegar horfur í friðarmálum.

Bandaríkjamenn gerðu árás á Afganistan undir þeim formerkjum að þeir væru að verja hendur sínar. Landið hefði fullan rétt til sjálfsvarnar og því gætu þeir hafið loftárásir á Afganistan án þess að spyrja kóng eða prest. Al Kaída eru grunuð um hryðjuverkin í Bandaríkjunum þann 11. september og þess vegna er það hluti þess "sjálfsvarnarstríðs" sem Bandaríkin há nú að uppræta starfsemi þeirra. Með sömu rökum geta Bandaríkin því hæglega hafið árásir á þau lönd sem þau skilgreina sem griðarstað hryðjuverkamanna. Fyrst leyfilegt er að verja hendur sínar á einum stað hlýtur það að vera leyfilegt á öðrum.

Ef allt fer á versta veg er því útlit fyrir að Bandaríkin geri árásir á fleiri ríki undir formerkjum "sjálfsvarnarstríðs". Það verður erfitt fyrir þá sem studdu aðgerðirnar í Afganistan með þeim rökum að þar væru Bandaríkjamenn að verja hendur sínar að standa gegn slíkum átökum. Betur hefði verið ef menn hefðu gripið til skynsamlegri aðgerða til að uppræta hryðjuverkaógnina. Oft er erfitt að hemja ofbeldið þegar einu sinni hefur verið gripið til þess.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.