Metum tónlistarkennara að verðleikum

Tónlistarkennarar hafa nú verið í verkfalli í mánuð og ekkert útlit fyrir að það sé senn á enda. Samningaviðræður í heilan mánuð hafa ekki skilað neinum árangri. Það er umhugsunarefni hvers vegna svo er í pottinn búið. Vissulega hefur launanefnd sveitarfélaganna boðið tónlistarkennurum umtalsverðar hækkanir og ef hér væri um afmarkaða stétt að ræða, ótengda öðrum, þá væru kennarar líklegast búnir að samþykkja það tilboð. Málið snýst hins vegar um sambærileg laun fyrir sambærilega vinnu, ekki ósvipað því sem kvenréttindabaráttan hefur snúist um.

Tónlistarkennarar eru háskólamenntað fólk með langskólanám að baki. Það hefur sérhæft sig í ákveðinni námsgrein og ástundað hana í árafjöld. Þeir skila sömu vinnu og grunnskólakennarar, enda störfin tengd órjúfanlegum böndum. Þá staðreynd er launanefnd sveitarfélaganna, og þar með þeir sveitarstjórnarmenn sem eru í forsvari sveitarfélaga sinna, ekki tilbúin til að viðurkenna. Hún telur að tónlistarkennurum beri ekki sömu laun og grunnskólakennurum og um það snýst deilan nú.

Hver sem þekkir til í skólakerfinu getur vitnað um það hversu störfin tvö eru sambærileg, enda hefur formaður Kennarasambands Íslands tekið undir þá skoðun. Sveitarfélögin rembast hins vegar eins og rjúpa við staur við að gera tónlistarkennara að annars flokks kennurum, þeir eigi ekki sömu laun skilið og grunnskólakennarar. Það er sérkennileg stefna og í raun stórfurðulegt að ekki skuli hafa verið tekið á málefnum tónlistarkennara um leið og samið var við grunnskólakennara. Það virðist hins vegar vera lenska á Íslandi að verkföll þurfi til að ná fram kjarabótum.

Það skýtur skökku við að um leið og stjórnmálamenn tala fögrum orðum um menningu og listir þá skuli það látið afskiptalaust að jafnmikilvægur þáttur þess starfs og tónlistarskólar eru skuli liggja niðri. Víða er hætta á því að margra ára uppbyggingarstarf verði að engu og ófáir nemendur sem hófu nám í haust hafa glutrað niður þeirri kunnáttu sem þeir höfðu aflað sér fyrir verkfall. En stjórnmálamenn láta sig það litlu skipta. Það er því hætt við að mörgum muni þykja holur hljómur í fagurgala þeirra þegar kemur að næstu menningarviðburðum sem krefjast nærveru þeirra. Og ekki þýðir að skýla sér á bak við launanefnd sveitarfélaganna, ábyrgðin á menningarstarfi hvílir ekki á hennar herðum og launastefna er pólitík en ekki verk embættismanna.

Öflugt menningarstarf er nauðsynlegt samfélaginu og tónlistarkennarar landsins hlúa að vaxtarbroddum menningarlífsins. Það er því tími kominn til að störf þeirra verði metin að verðleikum og þeim veitt sömu laun og öðrum kennurum landsins.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.