Af einstæðum einstæðingsskap

Björn Bjarnason menntamálaráðherra er sennilegast netvæddasti stjórnmálamaður landsins. Hann hefur haldið úti heimasíðu síðan árið 1995 og skrifar þar reglulega pistla, ásamt því að birta ræður sínar, erindi og blaðagreinar. Mörg fréttin hefur orðið til á ljósvaka- og prentmiðlum landsins eftir að Björn hefur látið gamminn geysa á síðum sínum. Og nú hefur menntamálaráðherra uppgötvað Múrinn.

Að vísu virðist Björn ekki hafa kynnt sér fyrirbærið sem hann skrifar um, hann þykist þess fullviss að titillinn vísi í aðdáun aðstandenda Múrsins á hinum alræmda Berlínarmúr. Ráðherra gerir því auðvitað skóna að allur heimurinn sé jafn upptekinn af Berlínarmúrnum og kalda stríðinu og hann og hefur því ekki haft fyrir því að lesa sér til um vefritið á síðunni "Um Múrinn" en þar má sjá að titillinn er samansettur úr skamstöfuninni M.Ú.R. (Málfundafélag úngra róttæklinga. Vanþekking ráðherra virðist sérkennileg þar sem hann hefur haft fyrir því að liggja yfir tenglasíðu Múrsins, en hún er talsvert mikil að vöxtum.

Tilefni þess að Björn hafði fyrir því að líta á skrif Múrsins var þetta: "Hinn 20. október tók Múrinn sér fyrir hendur að svara þeirri fullyrðingu minni, að vinstri/grænir væru einstæðir meðal stjórnmálaflokka á Vesturlöndum í ótvíræðri andstöðu sinni við stækkun NATO." Björn hefur kynnt sér efni umræddrar greinar og telur ósanngjarnt af höfundi hennar að telja að fullyrðing hans eigi ekki við rök að styðjast. Þannig hafi höfundurinn talið upp fjóra flokka sem einnig voru andvígir stækkun Nató, í Austurríki, Þýskalandi, Noregi og Svíþjóð.

Raunar hefði menntamálaráðherra við þetta tækifæri getað lesið grein frá 21. október (sem er næsti dagur við 20. október) þar sem einnig voru nefndir til sögunnar tveir flokkar frá Skotlandi og Wales, eða frá þeim 23. þar sem minnst er á tvo flokka frá Danmörku, einn breskan, annan írskan og einn belgískan. Látum nú vera að menntamálaráðherra hafi ekki rekið augun í þessa sjö flokka sem ásamt hinum fjórum sem hann nefnir hafa sömu afstöðu til Nató og Vinstrihreyfingin – grænt framboð. Líklega er þar á ferð saklaus yfirsjón.

Öllu sérkennilegri er rökstuðningur ráðherra á orðum sínum hvað þessa, þó fjóra, flokka sem hann nefnir áhrærir. Tilefni greinaskrifanna á Múrnum voru m.a. þau orð Björns að þessi afstaða VG væri "einstæð". Ráðherra segir hins vegar: "Langsótt er að túlka orðið ?einstæðir? á þann veg, að ekki sé unnt að finna önnur slík fágæti annars staðar, og saka andstæðinga sína síðan um ósannsögli og fleipur á svo haldlitlum forsendum." Verður að segjast eins og er að þessi orðaskilningur ráðherra er um margt sérstakur, ef ekki einstæður.

Ekki þarf að sækja lengra en í Íslenska orðabók í ritstjórn Árna Böðvarssonar. Þar er eftirfarandi skýring á orðinu "einstæður": ?1 einstakur, sem stendur einn sér. 2 fágætur, dæmafár, ólíkur öðrum. 3 einstæðings-, einmana. 4 með einni básaröð; einstætt fjós.? Sér er nú hver langsæknin. Langsótt hefði verið að túlka orð Björns á þann veg að VG væri einungis fjós með einni básaröð, um það hefðu allir orðið sammála. Hins vegar er skilningur allflestra á orðinu "einstæður" einmitt sú gegnsæja, ?einstakur, sem stendur einn sér.?

Æðsti yfirmaður menntamála þjóðarinnar virðist hins vegar ekki vera sammála íslenskum orðabókum um skilning á þessu orði. Varla verður þess langt að bíða að hann nýti sér stöðu sína til að leiðrétta þá skilningsvillu sem læðst hefur inn með íslensku þjóðinni að sá sem er "einstæður" standi einn. Vits er þörf þeim er víða ratar.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.