Að stinga höfðinu í sandinn

Mikið hefur verið rætt og ritað undanfarna daga um myndir þeir sem sjónvarpið sýndi á dögunum af stórfelldu brottkasti á fiski á tveimur skipum. Fiskinum var kerfisbundið hent í sjóinn ef hann ekki stóðst lágmarkskröfur skipverja um stærð og þyngd. Sláandi var að sjá með eigin augum svo umfangsmikið brottkast og spruttu margir fram fyrir skjöldu og lýstu því yfir að hér væri sviðsetning á ferð. Í gærkvöldi (13. nóv.) mátti sjá tveggja ára gamlar myndir sem skipverji á ónefndu skipi tók og sýndu þær hið sama; stórfelld brottkast á fiski. Þar var öllum ufsa og kola hent sem og þeim þorski sem ekki þótti nógu vænn.

Ráðamenn fiskveiðimála hér á landi, með sjávarútvegsráðherra og fiskistofustjóra í broddi fylkingar, hafa brugðist við á sérstaklega ófagmannlegan máta. Þeir hafa haft hátt um glæpamenn og gefið út þær yfirlýsingar að þessu fólki þurfi að ná. Sjávarútvegsráðherra taldi sig vita hvaða tvær bátar væru hér á ferð (í fyrri fréttinni) en vildi þó ekki tjá sig um það þar sem það væri lögreglunnar að sjá um þessi mál.

Það er engum blöðum um það að fletta að brottkast á fiski er glæpur og satt og rétt hjá ráðherra að lögreglan á að rannsaka glæpi. Brottkastið er eitt skelfilegasta dæmið um vonda umgegni við sjávarnytjar og gengur algerlega gegn hugmyndinni um sjálfbæra nýtingu. Það gerir allar aflatölur markleysu og veldur því alvarlegri skekkju í spám um komandi stofna og ákvörðunum um veiðimagn hverju sinni.

Hins vegar hefur sjávarútvegsráðherra og jábræðrum hans tekist að líta algerlega framhjá því að kerfið um stjórn fiskveiða býður upp á misnotkun á auðlindinni líkt og sást í umræddum myndum. Þessu gera hinir háu herrar sér hins vegar fullkomlega grein fyrir og þess vegna passa þeir sig á því að tengja brottkastið þessum fáu tilfellum sem sannanir eru fyrir. Þannig á að lögsækja skipstjóra bátanna tveggja sem leyfðu sjónvarpinu að mynda veiðferð sína og varla verður þess langt að bíða að rannsókn fari í gang á því um hvaða skip var að ræða í fréttatíma gærkvöldsins. Þannig telja ráðherra, fiskistofustjóri og skoðanabræður þeirra að hægt sé að horfa framhjá rót vandans, fiskveiðistjórnunarkerfinu sjálfu.

Kvótakerfið hefur margt til síns ágætis, en ekkert kerfi er fullkomið. Halldór Ásgrímsson, LÍU, sjávarútvegsráðherra og allir þeir sem eiga hagsmuni sína undir því að kerfið verði ekki afnumið, hafa hins vegar látið eins og hér sé hið fullkomna kerfi á ferð. Það hefur orðið til þess að um langa hríð hafa menn lokað augunum fyrir skelfilegum hliðarverkunum kvótakerfisins. Byggðamál hafa komist í umræðuna og þáttur framseljanlegra veiðiheimilda í hnignun sjávarbyggða. Hins vegar hefur ekki mátt ræða um brottkastið, þó að allir sem hafa augun opin viti að það hefur viðgengist um árabil.

Þess vegna þarf að nýta þá umræðu sem nú hefur skapast í þjóðfélaginu um brottkast á afla til að taka á því vandamáli. Fiskveiðar eru Íslendingum lífsnauðsyn og það er mál allra landsmanna hvernig þeim er stjórnað. Af þeim sökum verður að forðast að misvitrir stjórnmála- og embættismenn reyni að kæfa umræðu um jafnalvarlegt mál og brottkast. Vandamálið verður til staðar þangað til á því er tekið, hvort sem við stingum höfðinu í sandinn og kærum einn tvo skipstjóra eða ekki.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.