Maddaman reynir við rökleysumetið

Þegar flokksblöðin gömlu gáfu upp andann og "hlutlaus" blaðamennska varð alls ráðandi varð fátt um fína drætti í pólitískum pennaskylmingum á milli flokka hér á landi. Góðu heilli leið ekki á löngu þar til hin nýja nettækni bætti úr þeirri þörf sem ætíð er á því að sjá menn takast á um ólík málefni. Nú er svo komið að allir flokkar halda úti vefritum, ungliðahreyfingar þeirra líka og margir fylgismenn ákveðinna flokka eða áhugamenn um stjórnmál hafa tekið sig til og hleypt vefsíðum af stokknum. Þetta hefur leitt til þess að nýr vettvangur hefur skapast fyrir pólitískar orrahríðir og orðasennur manna í millum.

Múrinn hefur reynt að leggja sitt til þeirrar umræðu (meðal annars með undirsíðunni "Úr glerhúsinu") og á síðum þessa rits hafa birts greinar sem hugsaðar eru sem svargreinar við rökum pólitískrar andstæðinga. Sjaldan verður úr löng ritdeila, viðbrögðin eru oftast í mesta lagi ein svargrein (fyrir utan eitt skipti þar sem einn ritstjórnarmeðlima Múrsins fékk þann óvænta heiður að dagsupplag eins vefritsins var helgað honum). Engu að síður eru þessi skrif oft vettvangur fyrir skemtileg skoðanaskipti og gefa oft tilefni til mikillar rökfimi.

Því miður er ekki svo um ritdeilu (ef hægt er að gefa þessu jafnháleitan titil) undirritaðs og Finns Þórs Birgissonar, ritstjóra Maddömunnar. Finnur skrifaði á dögunum grein sem efnislega gekk út á það að VG gæti aldrei verið í ríkisstjórn. Undirritaður dró þá ályktun af því að Framsóknarflokknum hugnaðist ekki ríkisstjórnarsamstarf við VG (raunar höfðu fleiri ummæli forystmanna Framsóknarflokksins gefið hið sama sterklega til kynna). Orð ritstjórans þess efnis að stefna VG væri þess eðlis að trauðla næðist málefnasamstaða með Samfylkingunni og Framsóknarflokknum, því væri vinstri stjórn hvorki raunhæfur né líklegur kostur, ýttu undir þennan skilning undirritaðs.

Kom þá að því að draga ályktun af þessum orðum. Ályktunin (sem sumir myndu kalla varlega) var sú að Framsóknarflokkurinn ætlaði sér að sitja áfram í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Hin ályktunin hefði verið sú að Framsóknarflokkurinn ætlaði sér að vera í stjórnarandstöðu á næsta kjörtímabili, en miðað við sögu flokksins taldi undirritaður þann möguleika í besta falli fjarlægan, í versta falli hlægilegan. Þessi niðurstaða fór fyrir brjósið á ritsjóra Maddömunnar, hann telur hana efni í "ónefndar metabækur fyrir snilldartakta í útúrsnúningunum og rangtúlkunum."

Ekki verður annað séð en að Finnur Þór Birgisson ætli sér að gera harða atlögu að því meti sem undirritaður setti í títtnefndri grein. Að minnsta kosti er erfitt að skilja niðurlag greinar hans öðru vísi en sem algjöra samþykkt á þeirri túlkun á orðum hans að vinstri stjórn verði ekki mynduð hér á landi: "Forystumönnum Vinstrihreyfingarinnar – Græns framboðs hefur tekist að gera hverja delluna á fætur annari að stefnu sinni, allt frá því að ætla að leysa vanda landsbyggðarinnar með stórvirkri fjallagrasatínslu til þess að vilja að Ísland dragi sig úr EES-samstarfinu. En sorrý, það verður engin stjórn mynduð utan um þetta bull."

Ef þessi orð ritstjóra Maddömunnar þýða að undirritaður hafi vanmetið vilja hans til vinstra stjórnarsamstarfs þá er bæði ljúft og skylt að biðjast velvirðingar á því. Orð undirritaðs sem hvað mest fóru fyrir brjóstið á Finni Þór (og hann vitnar til) voru á þá leið að ungum Framsóknarmönnum liði best "í alltumlykjandi faðmi íhaldsins". Við lestur svargreinar ritstjórans verður hins vegar ekki annað séð en að hann sjái einungis tvo kosti og báða slæma: að sitja áfram í stjórn með Sjálfstæðisflokknum, eða að bjóða fram til setu í stjórnarandstöðu. Það væri hins vegar nýtt ef Framsóknarmenn tækju þann kostinn sem sæmdin er meiri að.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.