Svart-hvíta háskólahetjan

Sumt fólk virðist eiga í stökustu erfiðleikum með að sjá heiminn öðru vísi en svart-hvítan. Fyrir það boðuðu endalok kalda stríðsins flóknari heimsmynd, ekki var lengur hægt að skipta þjóðum heimsins upp í Sovétríkin og fylgismenn annars vegar og Bandaríkin og fylgismenn hins vegar. Þó hvarf sú skipting aldrei alveg í hugum sumra, eins og sjá má af hugmyndum um uppbyggingu Nató og eldflaugavarnarkerfis, sem m.a. er beint gegn Rússlandi. Þetta fólk var því í hálfgerðu tómarúmi, sem það reyndi að fylla upp í með að sameinast gegn hættulegum ríkjum á borð við Norður-Kóreu.

Hryðjuverkin í Bandaríkjunum þann 11. september breyttu þessu og einfölduðu heiminn á ný. Nú geta menn einfaldlega hlýtt á Bush Bandaríkjaforseta þegar hann básúnar yfir heimsbyggðina að ef menn ekki fylgi honum að málum styðji menn í raun hryðjuverkamenn. Þannig geta menn skipað sér að baki Bandaríkjamönnum öruggir í þeirri vissu að heimurinn sé orðinn svarthvítur á ný. Arabískir hryðjuverkamenn hafa tekið yfir hlutverk kommgrýlunnar. Eina hættan er sú að það hlutverk einskorðist ekki við hryðjuverkamenn, heldur muni arabar allir þurfa að leika sinn hluta.

Magnús Árni Magnússon heitir aðstoðarskólastjóri Viðskiptaháskólans í Bifröst. Magnús hefur lengi verið að í pólitík, en frami hans, sem hófst hjá Alþýðuflokknum í Kópavogi, náði hámarki þegar hann tók sæti á Alþingi. Nú er þingmaðurinn fyrrverandi sem sagt orðinn háskólakennari, auk þess sem hann skrifar pistla á vefritið Kreml.is. Nýlega skrifaði Magnús pistil þar sem hann fjallar um stríðið í Afganistan. Magnús er einn þeirra sem þrífst ekki nema heiminum sé á skýran hátt skipt í tvær fylkingar, eins og glöggt má sjá af grein hans.

Það er hins vegar umhugsunarvert að háskólakennari skuli vera uppvís að tilhneigingu til jafnmikillar einföldunar og að láta í ljós vestrænan hroka á borð við þann er birtist í umræddri grein. Magnús fer nokkrum orðum um það sem hann nefnir "útópíu Vesturlandabúans". Þar lýsir hann tilhneigingu Vesturlandabúa til þess að sjá söguna sem eina þróunarlínu, hvar Vesturlönd séu fremst, en hin "vanþróuðu" lönd stefni í sömu átt. Fullkomnun sé náð þegar þau hafa náð okkur hinum. Þetta gagnrýnir Magnús og er það vel. Byrjunin lofar s.s. góðu, en fljótlega fer að halla undan fæti.

Magnús Árni tekst á við það vandamál að ekki sé til alheimsgildismat og því séu samskipti á milli ólíkra menningarheima oft erfiðleikum bundin. Hann sér því ekki annan valkost við þá stefnu Vesturvelda sem hann nefnir "menningarlega heimsvaldastefnu", en þann að sitja með hendur í skauti og skipta sér ekki af öðrum heimshlutum. Fellur Magnús hér í þá gryfju sem hann sjálfur reyndi að byrgja með orðum sínum um "útópíu Vesturlandabúans." Heimurinn er ekki svo einfaldur að annað hvort aðstoðum við fátækar þjóðir af öðrum menningarheimi en okkar við að verða eins og við, eða við gerum ekki neitt. Í huga háskólakennarans er ekki til sá möguleiki að aðstoða fólk við að lifa mannsæmandi lífi eftir eigin forsendum, miðað við eigin menningar- og trúarhefð. Þannig hafa þróunaraðstoð og alþjóðasamskipti síðustu hundrað árin eingöngu snúist um það hvort við hjálpum fólki að verða eins og við: "Spurningin sem við höfum staðið frammi fyrir undanfarna öld er hvort við viljum þetta samfélag fyrir afgönsk og írösk börn framtíðarinnar?"

Þessi svarthvíta hugsun Magnúsar Árna er rauði þráðurinn í greininni. Þannig er nú svo komið að Vesturveldin eru að berjast um sjálfan tilverugrundvöll sinn. Ekki verður betur séð en að arabaheimurinn, sem öfundar okkur af siðmenningarstigi okkar og nagar rót velmegunar okkar líkt og naðra, sé nú að reiða til höggs gegn Vesturveldunum eins og þau leggja sig. Háskólakennarinn virðist álíta að einungis séu til tvær tegundir araba; þeir sem vilja verða eins og Vesturlandabúar (ef ekki hreinlega að verða Vesturlandabúar) og þeir sem vilja tortíma vesturlöndunum og menningu þeirra. Ekki er til sá arabi í huga Magnúsar Árna sem kýs að hlúa að eigin gildum og menningu, hugsa um sig og sína og eiga friðsamleg samskipti við líkt þenkjandi Vesturlönd.

Allur þessi heilaspuni Magnúsar leiðir hann að þeirri niðurstöðu að nú eigi Vesturlöndin í harðri varnarbaráttu fyrir tilverurétti sínum. M.ö.o. er hætta á að vestræn menning hverfi af yfirborði jarðar ef við vörpum ekki sprengjum á hið fátæka, stríðshrjáða, rústum hlaðna Afganistan. Vonandi er háskólakennarinn aðeins víðsýnni í þeim fræðum sem hann kennir og leyfir fleiri litum en svörtum og hvítum að lífga upp á heimsmynd sína.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.