Stöðnunarbylting hafin?

Það er misjafn sauður í pistlahöfundahjörð fjölmiðlanna í dag. Netmiðlarnir hafa gert það að verkum að nánast hver sem er getur básúnað skoðanir sínar yfir landslýð í reglulegum pistlum (líkt og þessum hér) og er ekkert nema gott um það að segja. Síðan eru þeir sem eru skör ofar, eru fengnir sérstaklega til þess að flytja pistla, væntanlega vegna þess að þeir beri af hinum líkt og gull af eir. Sumir hverjir eru jafnvel í þeirri stöðu að fá borgað fyrir að veita reglulega innsýn inn í hugsanagang sinn. Hvernig slíkum greiðslum er háttað þekkir undirritaður ekki, en hann vonar innilega að eigendur Skjás eins hafi ekki gert samning um að borga Kolbrúnu Bergþórsdóttur háar upphæðir fyrir vikulega pistla hennar í Málinu.

Kolbrún er gömul í hettunni, hefur lengi starfað sem blaðamaður. Hún er einna þekktust sem bókmenntagagnrýnandi og birtist landsmönnum reglulega fyrir jól að dæma jólabækurnar og upp á síðkastið hefur hún getið sér gott orð fyrir viðtöl í helgarblaði DV. Hún hefur einnig lengi skrifað um stjórnmál og hafa skrif hennar þar einkennst af takmarkalausri aðdáun á Jóni Baldvin Hannibalssyni og aðeins takmarkaðri aðdáun á Samfylkingunni og hugmyndinni að baki stofnun hennar. Kolbrúnu er tamt að einfalda heimsskipan mjög, í hennar augum er heimurinn svarthvítur, menn eru annað hvort góðir eða vondir. Einu sinni skrifaði hún t.d. pistil í Dag (man einhver eftir honum) um hversu mikill kommúnisti (þeir eru vondir að mati KB) Margrét Frímannsdóttir væri fyrir að voga sér að fara til Kúbu. Samtímis Margréti voru evrópskir flokksbræður Kolbrúnar í heimsókn hjá Kastró, en Kolbrúnu datt ekki í hug að harma það. Margrét var kommúnisti og samkvæmt skilgreiningu vond, kratarnir skoðanabræður Jóns Baldvins og samkvæmt skilgreiningu góðir.

Fyrr í þessari viku flutti Kolbrún nýjasta pistil sinn í Málinu. Þar sést glöggt að hún hefur engu gleymt í kaldastríðsskilgreiningu sinni á heiminum. Hinir vondu kommar í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði héldu nýlega landsfund og bar þar margt til tíðinda. Helst þótti Kolbrúnu fréttnæmt að Steingrímur J. Sigfússon hafi ekki fengið mótframboð til formanns og því hafi fundargestir klappað honum lof í lófa sem réttkjörnum formanni þar sem hann var einn í kjöri. Þetta finnst Kolbrúnu Bergþórsdóttur vera til marks um andúð kommúnista á lýðræðinu því "hvenær hafa kommar svosem upphafið lýðræðið?" Athyglisvert væri að sjá túlkun Kolbrúnar á því að Ólafur Ragnar Grímsson sé réttkjörinn forseti lýðveldisins þó að hann hafi síðast einungis verið einn í kjöri. Ekki man ég til þess að þar hafi farið fram kosningar, ekki frekar en á landsfundi VG, þó minnna hafi farið fyrir klappi við forsetakjörið.

Það er kannski rétt að fara yfir kosningaferlið í formannsstól VG með Kolbrúnu, því ekki minnist undirritaður þess að hafa séð hana á landsfundinum. Eftir að fundarstjóri hafði lýst því yfir að kjör til formanns væri næst á dagskrá og einungis einn hefði þegar lýst yfir framboði, Steingrímur J. Sigfússon, var fólki gefinn kostur á að bjóða sig fram til formanns. Hver sem er, svo fremi sem hann væri meðlimur í flokknum, gat boðið sig fram. Það gerði enginn og Steingrímur var því sjálfkjörinn. Fyrir því voguðu fundarmenn sér að klappa, en hafa kannski ekki gert sér grein fyrir því að með því væru þeir að forsmá lýðræði Kolbrúnar Bergþórsdóttur.

Ég leyfi mér hins vegar að efast um að Kolbrún Bergþórsdóttir viti hvað lýðræði er. A.m.k. harmar hún það að landsfundafulltrúar VG skuli hafa vogað sér að standa svona að málum og hafi ekkert lært af sögunni: „Þetta fólk hefur greinilega ekkert lært af blóðugri sögu tuttugustu aldarinnar. Guð forði okkur frá því að fá þetta fólk í ríkisstjórn. Þá verður þess sjálfsagt ekki langt að bíða að aþingiskosningar verði aflagðar og fólk láti sér nægja að mæta niðrá Austurvöll til að hylla foringjana með lófataki." Fær manneskjan virkilega laun fyrir að opinbera fáfræði sína á jafn auðmýkjandi máta og raun ber vitni?

Blóðug saga tuttugustu aldarinnar, útrýminga- og vinnubúðir Stalíns, vígbúnaðarkapphlaup og stríð skjólstæðinga stórveldanna – allt kristallast þetta í þeirri óskammfeilni landsfundarfulltrúa VG að leyfa sér að klappa fyrir sjálfkjörnum formanni. Manni verður ósjálfrátt hugsað til þess hvort sá sem mælir svo sé jafnfáfróður og lítur út fyrir í fyrstu, eða hvort annarlegri hvatir liggi að baki. Er virkilega verið á ósmekklegan hátt að tengja VG við fjöldamorðingja og stríðsherra, í þeim tilgangi að sverta þann flokk sem Samfylkingin keppir við um atkvæði?

Rökhugsun Kolbrúnar virðist einnig heldur ábótavant. Hún óttast ekkert meira en það að VG komist í ríkisstjórn (væntanlega vill hún frekar að Samfylkingin stýri með Sjálfstæðisflokknum). Vinstrihreyfingin – grænt framboð mun afnema lýðræðið, þjóðnýta einkavædd fyrirtæki, einangra landið í alþjóðlegum samskiptum og ýmis fleiri óhæfuverk. Ekki verður annað séð en að VG ætli sér ekkert minna en byltingu, þó flokkurinn ætli að nýta sér lýðræðið til að komast til valda (ekki ósvipað Adolf Hitler). Það er því ekki nema von að Kolbrúnu Bergþórsdóttur renni kalt vatn á milli skinns og hörunds: „Satt að segja má ég ekki til þess hugsa að þessi flokkur komist í ríkisstjórn og komi stefnumálum sínum í framkvæmd. Hugsunin framkallar í huga manns eitt orð: Stöðnun."

Kolbrúnu Bergþórsdóttur hefur tekist að finna eina flokkinn í heiminum sem boðar byltingu og stöðnun á sama tíma. Nýtt slagorð flokksins gæti verið: „Vinstriheyfingin – grænt framboð … stöðnunarbylting."

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.