Danskt ítölskunámskeið

Regnboginn hefur nú tekið til sýningar vinsælustu mynd Dana um langa hríð, Italiensk for begyndere. Myndin er nýjasta Dogmamynd þeirra Dana og er leikstýrt af Lone Scherfig. Þrátt fyrir allt umtal um Fávitana og Veisluna var þessi mynd sú sem Danir flykktust á og tóku best af Dogmamyndunum. Það kemur í raun ekki á óvart, myndin ætti að höfða til breiðari hóps áhorfenda. Hún er húmorísk, hlý og manneskjuleg og snertir lítt á erfiðum vandamálum, líkt og fyrrnefndar myndir. Myndin var gerð árið 2000 og er umhugsunarvert hvers vegna hún kemur svo seint til landsins, en hún er m.a. komin á sölumyndband í Danmörku. Nokkra eftirtekt og hneykslan vekur að í auglýsingum á síðum dagblaðanna er myndin auglýst með enskum titli, þrátt fyrir að auglýsingaspjald myndarinnar sé danskt. Er þetta glöggt dæmi um hversu engilsaxnesk okkar bíómenning er.

Myndin gerist í ónefndum smábæ og segir sögur af ólíku fólki sem í fyrstu virðist eiga fátt sameiginlegt. Að hluta til er hún sögð frá sjónarhorni afleysingaprests sem kemur í plássið og þar mæta honum kynlegir kvistir, ekki síst gamli presturinn sem genginn er af trúnni. Ein af öðrum eru persónur myndarinnar kynntar til sögunnar og allar hafa þær sinn djöful að draga. Ein er kúguð af föður sínum, önnur plöguð af drykkfelldri móður, einn ræður illa við skapsmuni sína og kjafthátt, annar er feiminn og óframfærinn við kvenfólk og ítalska stúlkan í bænum kann ekki að segja honum frá tilfinningum sínum til hans. Allt tengist þetta fólk í gegnum ítölskunámskeið á vegum námsflokkanna. Þar hittast þau, læra ítölsku, kynnast betur og leysa úr flækjum sínum.

Ítalska fyrir byrjendur er ekta dönsk mynd. Hlýlegan húmorinn ættu allir sem hafa horft á danskt myndefni að kannast við og sérkennilegir karakterar skjóta upp kollinum. Hér er tekist á við sambönd ólíks fólks og erfiðleika því tengdu af skemmtilegu innsæi. Myndin minnir um margt á rómantískar gamanmyndir (s.s. Den eneste ene) en dogma-áferðin kemur þó í veg fyrir algjöra samsömun.

Sú áferð er bæði helsti styrkur og helsti galli myndarinnar. Helsti styrkur myndarinnar eru samtölin og stórkostlegur leikur, í æði og orði. Það er í fullu samræmi við dogmareglurnar og ekkert prjál, leiktjöld, eða tæknibrellur skyggja á söguna sem sögð er. Hins vegar virkar myndatakan oft tilgerðarleg. Heilu senurnar eru þannig að ekki sést í andlit fólks nema til hálfs, stundum sést höfuð þeirra alls ekki. Handhelda myndavélin er hér í fyrirrúmi, en í myndinni virkar þetta óraunverulegt og tilgerðarlegt.

Leikurinn er hreint út sagt stórkostlegur og ættu þeir áhorfendur sem hafa horft á myndaflokkinn um leigubílstjórana, Taxa, að þekkja mörg andlit hér, s.s. Anders W. Berthelsen sem leikur afleysingaprestinn, Ann Eleonoru Jørgensen sem leikur hárgreiðslukona með drykkfellda móður og Peter Gantzler sem leikur óframfærinn hótelþjón. Þá ber einnig að nefna Lars Kaalund sem leikur hinn skapstygga veitingahúsastjóra Hal-Finn, en Lars lék stórt aukahlutverk í myndinni Den eneste ene. Þá leikur Anette Støvelbek hlutverk kúgaðrar dóttur, en hún hefur m.a. leikið í fyrri mynd leikstjórans Når mor kommer hjem og Sara Indrio Jensen leikur ítölsku stúlkuna af snilld.

Ítalska fyrir byrjendur er hin ágætasta mynd, einföld, fyndin og manneskjuleg. Helsti kostur hennar er leikurinn, handritið og þessi sérstaka danska stemmning sem þarlendum kvikmyndagerðarmönnum virðist svo tamt að sýna. Gallar eru á myndinnii, en þeir eru svo léttvægir að þeir hafa ekki áhrif á heildarútkomuna.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.