„Óviðfelldnar skoðanir“ breiðast út

Mörgum eru í fersku minni geðvonskuleg ummæli Davíðs Oddssonar forsætisráðherra þegar hann tjáði sig um þá stefnu Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs að vera andvíg loftárásum á Afganistan. VG átaldi einnig að ferlið sem leiddi að ákvörðun um árásir hefði ekki verið rétt, Sameinuðu þjóðirnar hefðu átt að gegna þar lykilhlutverki. Það sem fyrir brjóstið á forsætisráðherra fór var hins vegar sú skoðun að loftárásir á Afganistan væru ekki lausnin við þeim vanda sem hryðjuverkin 11. september sköpuðu. Þvert á móti gætu þær leitt til enn frekari vandamála. Davíð Oddsson hreytti úr sér í þingsal að þetta þætti honum "óviðfelldnar skoðanir".

Nú er svo komið að þessar lítt viðfelldnu skoðanir eru að hljóta æ meiri hljómgrunn víða um heim. Loftárásir á Afganistan hafa nú staðið yfir í rúmar þrjár vikur og ekki skilað neinum sýnilegum árangri. Helstu haukar Bandaríkjanna sem áður ræddu um fljótlegt og öruggt stríð (þó tekið skuli fram að Bush forseti hafi forðast það) tala nú um langvinnt stríð sem jafnvel sjái aldrei fyrir endann á. Þetta hefur leitt til þess að æ fleiri draga í efa yfirlýsingar vestrænna ráðamanna um nauðsyn stríðsins og örugga útkomu þess. Bandarískir ráðamenn kvarta hástöfum yfir því þessa dagana að Talibanar skuli voga sér að koma sér og hergögnum sínum fyrir á þeim stöðum þar sem minnstar líkur eru á loftárásum, í stað þess að halda sig á þeim stöðum þar sem þægilegt er að sprengja þá. Þannig hafa Bandaríkjamenn neyðst til að sprengja sjúkrahús og fleiri opinberar stofnanir í loft upp í viðleitni sinni til að farga Talibönum. Allt er þetta vitaskuld hinum að kenna, en ekki þeim sem varpa sprengjunum.

Nú er svo komið að ríflega helmingur Breta vill stöðva loftárásirnar þegar í stað og leyfa hjálparstarfsmönnum að komast að til að sinna stríðshrjáðum borgurum. Þetta ætti að ná eyrum vestrænna ráðamanna, enda hafa Bretar gengið næst Bandaríkjamönnum í stríðsæsingi sínum. Nýleg könnun frá Noregi sýndi að stuðningur við stríðið hefur snarminnkað. Stuðningur hefur jafnvel farið minnkandi í Bandaríkjunum, enda þótt enn styðji mikill meirihluti árásirnar. Lítill árangur loftárásanna hefur hins vegar orðið til þess að nú telja einungis 18% að bandarísk stjórnvöld séu fær um að vernda þegna sína, á móti 35% áður en árásirnar hófust. Athyglisvert er þó að nú telja einungis 25% Bandaríkjamanna að hernaðurinn verði til þess að bin Laden náist eða verði drepinn, á móti 40% áður en stríðið hófst.

Það ætti að koma við kaunin á forsætisráðherra Íslands að þær skoðanir sem hann telur svo óviðfelldnar hafi breiðst jafnört út og orðið er. Hið dapurlega er hins vegar að fólk skuli ekki hafa hugsað sig tvisvar um áður en gripið var til vopna. Þá hefði útkoman getað orðið orðið önnur. Það sem veldur því að stuðningur við stríðið hefur minnkað svo mjög er mikið fall óbreyttra borgara, óvissa um útkomuna og hvenær sjái fyrir endann á hernaðinum. Andstæðingar loftárásanna vöruðu við öllu þessu áður en til þeirra kom, en það vakti líti viðbrögð. Það var helst að einn og einn stríðshaukur kallaði þessi sjónarmið "óviðfelldnar skoðanir".

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.