„Æskilegt að ná bin Laden“

Nú hafa Íslendingar staðið fyrir sprengjuárásum á Afganistan í 19 daga ásamt öðrum Natóþjóðum, með Bandaríkjamenn og Breta í broddi fylkingar. Markmið árásanna er, eins og flestir vita, að handsama Osama bin Laden, sem allt bendir til að hafi staðið fyrir hryðjuverkunum í Bandaríkjunum þann 11. september, sem kostuðu ríflega sexþúsund manns lífið. Formælendur árásanna á Afganistan hafa sagt að vissulega sé ætíð leiðinlegt að þurfa að varpa sprengjum á ríki og íbúa þess, en bin Laden megi hreinlega ekki sleppa. Þess vegna eigi að notast við öll meðöl til að ná honum. Þó að óbreyttir borgarar láti lífið í kjölfarið, þá sé það bara eðlilegur fórnarkostnaður, bin Laden verði að svara til saka fyrir ódæðið í Bandaríkjunum og samtök hans verði að uppræta.

Margir þeir sem hingað til hafa dregið lappirnar þegar kemur að því að gera árás á annað fólk hafa einmitt skýlt sér á bak við þessi rök. Í því sambandi má nefna nokkra þingmenn Samfylkingarinnar sem áður voru í Alþýðubandalaginu og börðust hatrammri baráttu gegn hvers kyns hernaði. Auk þeirra hafa stríðsæsingamenn eins og Halldór Ásgrímsson, Davíð Oddsson, Einar Karl Haraldsson, Kolbrún Bergþórsdóttir, Ásgeir Friðgeirsson, Össur Skarphéðinsson, Sverrir Hermannsson o.fl., tekið undir þennan söng. Í árásunum hefur fjöldi óbreyttra borgara látið lífið, sprengju var varpað á byggingu Sameinuðu þjóðanna með þeim afleiðingum að fjórir starfsmenn SÞ létu lífið, sprengju var varpað á birgðageymslu Rauða krossins og eyðilagði stóran hluta af neyðarbirgðum sem ætlaðar voru hinum stríðshrjáðu borgurum Afganistan, og nýlega var sprengju varpað á sjúkrahús með þeim afleiðingum að fjöldi sjúklinga og starfsfólks lést. En í augum formælenda árásanna er þetta hvimleiður, en nauðsynlegur, fórnarkostnaður; bin Laden verður að ná og uppræta samtök hans.

Í ljósi þessa verður fróðlegt að heyra viðbrögð talsmanna árásanna á Afganistan við nýjustu yfirlýsingum varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Donald Rumsfeld. Ráðherrann var í viðtali við USA Today í gær, fimmtudaginn 25. október, og lét þar í ljósi athyglisverð sjónarmið varðandi árangur árásanna á Afganistan – svo ekki sé meira sagt. Í fyrsta lagi efast ráðherrann stórlega um að Osama bin Laden náist í kjölfar loftárásanna á Afganistan. Raunar efast Rumsfeld um að hann náist nokkurn tímann, bin Laden sé svo auðugur og eigi sér stuðningsmenn svo víða í hinum stóra heimi, að líklega geti hann leynst fyrir refsivendi Bandaríkjanna til dauðadags. Vissulega vildi ráðherrann að staðan væri öðruvísi, "augljóslega væri mjög æskilegt að koma höndum yfir hann", upplýsti hann alþjóð. Það hvort hann næst eða ekki hefur hins vegar enga úrslitaþýðingu fyrir áframhald árásanna.

Er þá fokin ein helst röksemd stuðningsmanna árásanna á Afganistan. Einhver hefði haldið að það ætti að duga löndum til að draga úr eða falla frá stuðningi sínum við þær, en alltaf væri þó hægt að grípa til þeirrar útskýringar að a.m.k. sé þó verið að ganga milli bols og höfuðs á hryðjuverkasamtökum bin Ladens. Það er þó erfitt að grípa til þeirra raka eftir að hafa hlýtt á orð Rumsfeld um líklegan þátt árásanna í að koma samtökunum fyrir kattarnef: "Þó bin Laden hyrfi á morgun, væri vandamálið óbreytt." Samtökin eru það skipulögð að ef leiðtogi þeirra hverfur á braut eru nægir eftirmenn til að taka stöðu hans.

Eins virðist Donald Rumsfeld hafa áttað sig á því, þó fyrr hefði verið, að Talibanar séu þaulæfðir bardagamenn. Hann sagði undrandi: "Þessir menn eru mjög harðir af sér … þeir munu ekki gefast upp þegjandi og hljóðalaust." Það er ánægjulegt að einhver hefur haft fyrir því að upplýsa varnarmálaráðherra Bandaríkjanna um forsögu Talibanahreyfingarinnar og ástand mála í Afganistan síðustu tvo áratugi. Óskandi hefði þó verið að einhver hefði gert það áður en árásirnar hófust.

Það er hins vegar lágmarkskrafa sem gera verður til allra þeirra er stutt hafa árásirnar á Afganistan til þessa, að þeir upplýsi hver markmiðin með þeim séu, fyrst þau eru ekki að ná bin Laden eða uppræta hryðjuverkasamtök hans. Blóð þeirra saklausu borgara sem hafa látið lífið er á höndum Davíðs Oddssonar, Halldórs Ásgrímssonar, Össurar Skarphéðinssonar, Sverris Hermannsonar og allra þingmanna í þeim flokkum sem þessir formenn leiða. Það er einnig á höndum allra þeirra sem hafa stutt árásirnar í ræðu og riti. Lágmarks yfirbót er að útskýra hvers vegna óbreyttir borgarar í Afganistan þurftu að láta lífið fyrir okkar hendi og bandalagsþjóða okkar. Annað er helber hræsni.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.