Launastefna er pólitík

Ekki báru þær vott um mikinn stórhug, fréttirnar af samskiptum borgarstjóra og foreldrar nemenda í Suzuki-tónlistarskólanum. Sá skóli hefur aðsetur í Reykjavík og foreldrarnir ætluðu að hitta borgarstjórann sinn til að afhenda honum undirskriftalista. Foreldrarnir höfðu safnað undirskriftum til stuðnings tónlistarkennurum sem nú eru í verkfalli. Öll tónlistarkennsla liggur niðri, og foreldrarnir sjá sem er að það er ótækt og kemur börnum sem nýlega hafa hafið tónlistarnám sérstaklega illa. Gera má ráð fyrir því að ef verkfallið dregst á langinn þurfi hluti barnanna hreinlega að hefja nám sitt upp á nýtt.

Foreldrarnir höfðu af þessu nokkrar áhyggjur og vildu gera borgarstjóranum sínum grein fyrir þeim, ásamt því að skora á hann að gera allt sem í hans valdi stæði til að leysa þessa deilu. Að öðru óreyndu hefði manni ekki dottið annað í hug en að borgarstjórinn tæki þessari beiðni vel, hversu ljúft eða leitt honum annars þætti verkið. Við höfum séð myndir af misfúllyndum ráðamönnum þjóðarinnar við svipaðar aðstæður; allt frá Birni Bjarnasyni með hundshaus að taka á móti mótmælum stúdenta til Halldórs Blöndals með kviðling á vörum í anddyri alþingishússins. Hingað til hefur þetta verið viðtekin venja í verkfallsbaráttu og ráðamenn litið á það sem sjálfsagða kurteisi að hitta þá hópa sem verkföll bitna á og hlýða á mál þeirra; jafnvel að útskýra sín sjónarmið í leiðinni.

Í tilfelli foreldra tónlistarnemendanna bar hins vegar svo við að borgarstjóri neitaði hreinlega að taka á móti undirskriftum þeirra. Ástæðan sem borgarstjóri gaf var sú að samningsumboðið væri ekki hjá borginni, heldur hjá Launanefnd sveitarfélaganna. Þetta er alþekkt viðkvæði í samskiptum borgaryfirvalda við þær stéttir sem reynt hafa að ná fram leiðréttingu launa sinna. Fátíðara er að borgaryfirvöld neiti hreinlega að taka við undirskriftalistum og skýli sér á bak við launanefndina. Ætla hefði mátt að borgarstjóra hefði verið í lófa lagið að taka við undirskriftunum og lofa því að koma þeim áleiðis, maður skyldi einhvern veginn ætla að Ingibjörg Sólrún hitti Launanefnd sveitarfélaganna af og til.

:Þetta er hins vegar angi af miklu stærra máli sem þegar hefur verið tæpt á; þ.e. hvernig borgaryfirvöld skýla sér á bak við Launanefnd sveitarfélaganna. Þannig hefur stéttum sem töldu sig eiga eitthvað að sækja til þeirra yfirvalda sem nú ráða ríkjum í borginni og kenna sig við félagshyggju og kvenfrelsi, verið vísað á launanefndina. Hefðbundin kvennastétt eins og sjúkraliðar hugði gott til glóðarinnar að semja við kvennalistakonur í Ráðhúsinu, en þurftu frá að hverfa af því að umboðið var hjá launanefndinni. Þannig hafa borgaryfirvöld þvegið hendur sínar af deilum um kaup og kjör.

Það er hins vegar ótækt að borgaryfirvöld hafi ekki meiri áhrif á launastefnu í borginni en þau vilja gefa í skyn. Launastefna er rammasta pólitík og það að vísa henni alfarið yfir til embættismanna er fráleitt. Þegar vinstri menn eru við völd ættu þeir að kappkosta að leiðrétta hlut þeirra lakast settu, s.s. hefðbundinna kvennastétta eða láglaunahópa. Það er pólitík og embættismannakerfið á ekkert með að marka þá stefnu. Það getur verið hið besta mál að samningafundina sitji embættismenn, en stefnuna sem þeir eiga að fylgja eiga pólitískt kjörnir fulltrúar að marka og þeir eiga að hafa endanlegt vald yfir niðurstöðum samninganna. Að öðrum kosti eru lýðræðislega kjörnir fulltrúar búnir að afsala sér þeim rétti að hafa áhrif á launastefnu þess sveitarfélags sem þeir voru kosnir til að stýra.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.