Heilagt stríð Andríkis gegn umhverfisáróðri

Að öðru óreyndu hefðu sennilega flestir talið að almenn ánægja ríkti með sjónvarpsþáttaröð sem hefur það að markmiði að auka umhverfisvitund barna og unglinga. Þess vegna hefði maður fyrirfram talið að þátturinn Spírall sem ríkissjónvarpið hefur nú hafið sýningar á, mæltist almennt vel fyrir. Að sjálfsögðu geta verið skiptar skoðanir um það hversu vel hefur tekist til við að ná þeim markmiðum sem að baki þáttaröðinni liggja, einhverjum kann að finna handritið lélegt, öðrum að aðferðin til að ná til krakkanna sé ekki sú rétta og enn fleiri eru kannski hæstánægðir með útkomuna. Hins vegar hefði maður talið að um markmið þáttanna ríkti nokkuð breið samstaða. Það getur ekki nema gott eitt hlotist af því að krakkar hugi meir að umhverfismálum en nú er, í versta falli skilar þátturinn engum árangri.

Hafi menn hugsað á þennan hátt, líkt og undirritaður gerði, þá hafa þeir ekki reiknað með sértrúarsöfnuði hér á landi sem hefur komið sér saman um baráttu gegn hinum illa fjanda mannkynsins; umhverfisverndarsinnunum. Sá sértrúarsöfnuður kallar sig Andríki og heldur úti vefriti, Vef-Þjóðviljanum. Þar hefur hann á undanförnum árum háð hatramma baráttu gegn hinum hættulega alheimsandstæðingi og oftar en ekki staðið í stórræðum. Þar hafa menn verið kallaðir hinum verstu ónefnum í viðleitni Vef-Þjóðviljamanna til að tengja menn hinum hættulegu öfgum umhverfisverndarinnar. Verst af öllu er að komast í flokk "sjálfskipaðra umhverfisverndarsinna", en Andríkismenn virðast ætla að þeir sem skipa sjálfa sig umhverfisverndarsinna (öfugt við þá sem skipaðir eru af ríkisvaldinu) séu verstir allra manna.

Og nú hafa einhverjir umhverfisverndarsinnar (ekki fer sögum af hver skipaði þá) tekið sig til og búið til sjónvarpsþáttaröð til að vekja ungt fólk til umhugsunar um umhverfið. Vef-Þjóðviljinn telur greinilega að hér sé eitt stærsta áhyggjuefni íslensk þjóðfélags á ferð, því á ekki lengri tíma en einni viku voru 2 af 7 pistlum ritsins helgaðir baráttunni gegn hinum hættulega sjónvarpsþætti. Af 2590 orðum sem Andríkismenn rituðu á Vef-Þjóðviljann þessa vikuna, voru 722 helguð sjónvarpsþættinum illræmda, eða tæplega 29%. Það er því augljóst að Vef-Þjóðviljinn tók þetta mál af hörku, áleit ekkert mál þessa vikuna vera mikilvægara og gagnrýnisverðara en einmitt þennan sjónvarpsþátt.

Og skyldi engan undra. Því að samkvæmt Vef-Þjóðviljanum er umhverfisþátturinn Spírall (Vef-Þjóðviljinn dregur reyndar í efa að hann sé umhverfisþáttur og setur það orð í gæsalappir) vettvangur "öfgafullra umhverfisverndarsinna" (sem er næstum því jafnslæmur hópur og hinir sjálfskipuðu) til að básúna trúarbragðakenndan áróður sinn fyrir saklaus börn þessa lands. Og það hjá Ríkisútvarpinu sjónvarpi! Það er því ekki nema von að áhugamenn um þjóðmál sem leggja það á sig að halda óstuddir úti vefriti til að stinga á kýlum samélagsins sinni þessu hneykslismáli.

Og hver var nú þessi trúarbragðaáróður sem "öfgafullu umhverfisverndarsinnarnir" höfðu uppi á hinni ríkisreknu sjónvarpsstöð? Jú, í fyrsta þættinum voru börnin hvött til þess að íhuga það hversu mikið af umbúðum safnast saman í nútímaþjóðfélagi og hvernig hægt sé að grynnka á þeim. Í öðrum þættinum var hins vegar á óskammfeilinn hátt hvatt til þess að börnin nýttu sér almenningssamgöngur í stað þess að láta skutla sér út um borg og bý (því ekkert þeirra er með bílpróf og þau geta því trauðla keyrt sjálf). Aukinheldur tóku þáttagerðarmenn upp á þeim óskunda að hvetja börnin til þess að reyna að breiða þessa hugsun út, ekki síst á meðal fjölskyldumeðlima. Þetta telur Vef-Þjóðviljinn hikstalaust jafngilda njósnum austur-þýsku leynilögreglunnar Stasi og aðferðum þeirra.

Það er því augljóst að Vef-Þjóðviljinn hefur enn einu sinni komið upp um alheimssamsæri umhverfisverndarsinna. Það hefur hann gert áður og vonandi komið blessunarlega í veg fyrir það að einhverjir noti almenningssamgöngur, minnki úrgang frá heimili sínu eða geri annað það sem umhverfisverndarsinnar hafa á sinn díabóliska máta haldið fram að gerðu náttúrunni gott. Það er hins vegar umhugsunarefni að Vef-Þjóðviljinn skuli ætíð nota trúarbragðasamlíkingu þegar rætt er um málstað umhverfisverndarsinna. Það er nefnilega ansi oft þannig að margur heldur mig sig.

kóp

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.